Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 14:28:08 (3563)

2003-02-06 14:28:08# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[14:28]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er greinilegt að hv. þm. Halldór Blöndal óttast það þegar ég fer ásamt forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar í ferðalag um landsbyggðina. Hvers vegna óttast hann það? Vegna þess að eitt af því sem við munum að sjálfsögðu gera að umræðuefni og gera að kosningamáli á landsbyggðinni er þróun vöruverðs þar. Hvert munum við rekja hækkun vöruverðs á landsbyggðinni undanfarin fjögur ár? M.a. til þeirra skattahækkana sem hv. þm. Halldór Blöndal hefur stutt í gegnum aðild sína að þeirri ríkisstjórn sem nú situr. (Gripið fram í: Hvað kemur ...?)

Herra forseti. Hv. þm. hefur spurt mig um það með hvaða hætti ég vilji breyta landinu í svæði og hafa mismunandi þungaskatt út frá þeim. Ég tek það svo, herra forseti, að hv. þm. Halldór Blöndal sé ráðþrota og sé í reynd að lýsa yfir stuðningi við þessa hugmynd og sé að biðja Samfylkinguna að koma með ráð í þessum efnum. Það er sjálfsagt að verða við því, herra forseti. Ég hef sagt það skýrt og skorinort að fyrirmynd mín í þessum efnum er Noregur.