Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 14:33:31 (3566)

2003-02-06 14:33:31# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[14:33]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil benda hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni á að almenn samstaða var um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar á hinu háa Alþingi, 900 millj. á sínum tíma. Það er ekki samfylkingarmál. En ég vil spyrja hv. þm. enn og aftur. Hann vill beita markaðslögmálum og tökum flugið sem dæmi. Er hv. þm. t.d. sammála því að þetta sé góð leið sem farin er núna, að hleypa inn samkeppni? Þeir bítast og drepa hver annan. Afleiðingin er einokun og síðan situr ríkið uppi með óarðbæra staði þar sem beita þarf ríkisframlögum. Eða getur hv. þm. hugsað sér rekstrarform, t.d. í svona þáttum sem byggja á sérleyfum, þar sem menn hafa þjónustuskyldu? Þetta eru grundvallarspurningar sem þarf að svara. Það er ekki hægt að segja já við einu módeli og nei við öðru módeli. Úr því verður ekki heildstæð stefna.