Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 14:35:57 (3568)

2003-02-06 14:35:57# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., LB
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[14:35]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það hefur verið fróðlegt að hlýða á umræðuna sem hér hefur farið fram í dag. Það hefur verið merkilegt að sjá hv. þm. Kristján Möller draga mjög skýrt fram hvernig lífskjör á landsbyggðinni hafa smám saman versnað. Þar hafa margir þættir veruleg áhrif og einn af þeim er einmitt flutningskostnaðurinn.

Það mætti nefna miklu fleiri þætti. Nefna má að núverandi fyrirkomulag í fiskveiðum hefur gert það að verkum að sjávarbyggðir hafa ekki lengur getað notið stöðu sinnar og nálægðar við miðin eins og áður. Á sama hátt hefur verið samdráttur í landbúnaði. Þetta hefur ásamt ýmsu öðru gert það að verkum að lífsjör á landsbyggðinni hafa versnað. Ég held varla að nokkur hér inni deili um þá staðreynd. Þetta hefur verið dregið skýrt fram.

Það var helst að hv. 1. þm. Norðurl. e., Halldór Blöndal, kæmi á ská inn í þessa umræðu og heimtaði útfærslu á því hvernig úr þessu yrði leyst. En sjálfur hefur hann stutt ríkisstjórn, og setið í í a.m.k. átta ár, sem ekki hefur fundið nein ráð í þessum efnum. Þetta er hins vegar sá veruleiki sem við stöndum frammi fyrir og það er einmitt sá veruleiki sem við verðum að takast á við. Ég held að það sé ástæðulaust að berja höfðinu við steininn líkt og í andsvari hv. þm. Halldórs Blöndals við ræðu hv. þm. Össurs Skarphéðinssonar þar sem hann beitti helst þeirri röksemdafærslu að uppnefna þá sem hann var í andsvörum við án þess að leggja neitt inn í umræðuna.

Vitaskuld er það stór yfirlýsing þegar formaður Samfylkingarinnar gefur þá yfirlýsingu að Samfylkingin sé tilbúin að styðja að til einhverra aðgerða verði gripið til að bæta lífskjör á landsbyggðinni. Það er stór yfirlýsing. Þetta er stór pólitísk yfirlýsing. Hins vegar skal það viðurkennt hér, ég ætla ekki að reyna að draga neina fjöður yfir það, að þær hugmyndir og tillögur hafa ekki verið útfærðar í þaula enda er hlutverk stjórnmálamanna kannski fyrst og fremst að draga upp hugmyndafræðina, þær hugmyndir sem þeir hafa.

Mér finnst ekki sanngjarnt í þessari umræðu að halda því fram að þar sem slíkar hugmyndir liggi ekki fyrir sé þetta bara einfaldlega yfirboð. Mér finnst það ekki sanngjarnt og ekki málefnalegt. Ég vísa því algerlega á bug þegar menn hafa komið á þeim forsendum í umræðuna. Veruleikinn er sá að eftir átta ára setu núv. ríkisstjórnar hafa lífskjör á landsbyggðinni versnað. Það er sá veruleiki sem við ætlum að reyna að takast á við og þess vegna er pólitísk yfirlýsing formanns Samfylkingarinnar mjög merkileg inn í umræðuna. Ég held að menn ættu að taka henni sem slíkri en ekki að snúa út úr henni eins og hér hefur verið gert.

Ég nefndi sjávarútveg, að samdráttur í sjávarútvegi á landsbyggðinni hafi haft veruleg áhrif. Ég hef líka nefnt landbúnaðinn. Fyrir liggur eftir alla þennan tíma að landbúnaðarkerfið sem við höfum rekið um nokkuð langt skeið hefur dregið úr tekjum bænda, sérstaklega sauðfjárbænda, enda eru þeir að verða sú stétt í landinu sem á hvað erfiðast.

Enn fremur, virðulegi forseti, er eitt stærsta landsbyggðarmálið samgöngur. Við ræddum í vikunni samræmda samgönguáætlun og vorum almennt sammála um að til mikilla bóta væri að menn skyldu reyna að horfa á samgöngur og samgöngubætur, hvort sem er á láði, legi eða í lofti, á heildstæðan hátt eins og hugmyndafræðin að baki samgönguáætlun ber með sér. Hins vegar hafa menn deilt bæði um forgangsröðun og þá fjármuni sem í hafa verið lagðir. Ég held að fullyrða megi að þó að við leggjum um það bil 5% af ríkisútgjöldum í samgöngumál í landi eins og Íslandi, sem er jafndreifbýlt og raun ber vitni, sé ekki ástæða til að berja sér á brjóst af þeirri ástæðu einni.

Einnig, virðulegi forseti, var fróðlegt að hlýða á það í umræðunni hvernig menn tefla fram hugmyndafræði sinni. Sumir hverjir vildu gera því skóna að hugmyndafræði einstakra manna gengi einfaldlega ekki upp. Ég hjó eftir því að hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson sagði í umræðunni að ein meginástæðan fyrir því að flutningskostnaður á landi hefði hækkað væri sú fákeppni sem ríkti á þessum markaði, eins og hann orðaði það sjálfur sem opnaði jafnvel á að ríkið mundi endurvekja skipaútgerð, m.a. til þess að fara í samkeppni við þá sem eru fyrir. Á sama tíma og í sömu ræðu nefndi hv. þm. hvernig samkeppnin hefði drepið flugið, þ.e. hún hefði skilið eftir eitt félag og í kjölfarið hefði ríkið þurft að koma inn í og niðurgreiða flutninga á aðra staði. Þessi dæmi draga að mínu mati fram að menn verða að fara gætilega í því þegar þeir fullyrða að hugmyndafræði sumra gangi upp og annarra ekki. Hér skarast vissulega hlutir í umræðunni.

Í góðri greinargerð sem fylgir tillögum hv. þm. Kristjáns Möllers kemur m.a. fram að verðmunur milli landsbyggðarinnar annars vegar og höfuðborgarsvæðinu hins vegar er allt að því 108%. Nú ætla ég ekki að halda því fram, þó að stór þáttur skýringar á þessum verðmun liggi í því hvernig ríkisvaldið hefur hagað starfsemi sinni, að hér sé um meðvitaða aðför að landsbyggðinni að ræða. Hins vegar er þetta sá veruleiki sem við búum við. Í þessari stöðu finnst mér mikilvægt að við viðurkennum þennan veruleika og tökumst á við hann í sameiningu í stað þess að koma inn í umræðuna og snúa út úr henni eins og hv. þm. Halldór Blöndal gerði eftirminnilega áðan. Ég legg til að við reynum að takast á við þetta verkefni í sameiningu. Ég held að það þjóni landsbyggðinni hvað best. Við eigum að viðurkenna þær staðreyndir sem hér hafa verið dregnar fram. Við eigum að taka höndum saman um að reyna að breyta ástandinu og jafna lífskjör í landinu.