Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 14:46:31 (3570)

2003-02-06 14:46:31# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[14:46]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Brosið og jákvæðnin hafa nú einkennt hv. þm. Halldór Blöndal undanfarna daga á hinu háa Alþingi. Það þarf kannski ekki að koma sérstaklega á óvart þó að hv. þm. Halldór Blöndal muni það ekki að hann hafi uppnefnt ræðumenn hér í ræðustóli, enda er u.þ.b. hálftími eða svo síðan hann flutti ræðu sína og því þarf það ekki að koma sérstaklega á óvart þó að hann muni það ekki nákvæmlega.

Hins vegar get ég upplýst hann um það --- og kannski það hringi einhverjum bjöllum, því að hann hefur nú verið duglegur á tímum að hringja bjöllum hér á hinu háa Alþingi --- að hann kallaði hv. þm. ,,frægan flokkaflakkara``. Hann gerði það í ræðu sinni. En það er náttúrlega orðið talsvert umliðið, 30 mínútur eða svo, síðan hann flutti þá ræðu svo það þarf nú ekki að koma á óvart þó að hann muni það ekkert sérstaklega.

Einnig er rétt að rifja það upp fyrir hv. þm. Halldóri Blöndal, sem að vanda hefur náttúrlega ekki kynnt sér einu sinni þá tillögu sem hann er að fjalla um, að í henni segir, þannig að það liggi fyrir, að lagt er til að skipuð verði nefnd sem móti tillögur sem hafi það að markmiði að draga úr áhrifum þungaskatts á vöruverð og jafni rekstrarskilyrði atvinnufyrirtækja í sambandi við flutningskostnað milli landsvæða. Nefndin kanni sérstaklega hvernig breyta megi skattkerfinu til að ná þessu marki. Nefndin skili Alþingi skýrslu fyrir 1. október 2003.

Hér er því um pólitíska yfirlýsingu að ræða um að við séum tilbúin að styðja hugmyndir af þessum toga. Það er fyrst og fremst hlutverk stjórnmálamanna. Það er kannski ekki endilega hlutverk stjórnmálamanna, eins og mátti ráða af ræðu hv. þm. hér um daginn þegar hann var búinn að teikna sérstakt strik á landið þar sem hann vildi hafa vegi og helst þar sem enginn var á ferð.

En þetta er sú hugmynd sem við setjum fram. Þetta er pólitísk yfirlýsing. Tæknilega nákvæm útfærsla á þessu er sú vinna sem við erum að leggja til að farið verði í.

En hv. þm. Halldór Blöndal getur snúið út úr þessu líka.