Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 15:01:28 (3579)

2003-02-06 15:01:28# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[15:01]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. sagði að mér liði væntanlega illa í þessari umræðu. Mér hefur liðið mjög vel í þessari umræðu. En nú er mér farið að líða dálítið illa vegna þess að ég hafði satt að segja vonast til þess að Samfylkingin hefði einhvern vísi að hugmynd um það hvaða skoðun þeir hefðu í þessu máli sem ýmsir hv. þm. Samfylkingarinnar hafa verið að tala um, m.a. það að hafa mismunandi skattkerfi sem lýtur bæði að virðisaukaskatti og þungaskatti. Ég var ekki að reyna að snúa út úr einu eða neinu. Ég spurði bara einfaldra spurninga af því að mér fannst ég ekki hafa fengið svör við þeim í umræðunni hingað til. Ég spurði þessarar einföldu spurningar: Hver er stefna Samfylkingarinnar í málinu? Nú kemur hingað einn af þingmönnum Samfylkingarinnar, einn af talsmönnunum í þessu máli, einn af flm. málsins, og getur ekki svarað svona einfaldri spurningu. Hver er stefna flokksins? Vill flokkurinn hafa mismunandi skattþrep eftir búsetu varðandi virðisaukann eða þungaskattinn? Það eina sem ég heyrði var að hv. þm. varaði við þeirri leið. Þá vitum við hver skoðun hv. þingmanns er í því máli. Ég er hins vegar alveg jafnnær um það hver skoðun Samfylkingarinnar er í málinu, nema mér finnst að þögnin sé farin að svara málinu dálítið vel. Þögnin segir mér að hv. þm. hafa ekki treyst sér til að segja að Samfylkingin sé þeirrar skoðunar að það eigi að vera með mismunandi skattkerfi eftir búsetu. Þetta er mjög mikilvægt veganesti fyrir okkur vegna þess að um þetta mál verður örugglega heilmikið rætt í komandi kosningabaráttu. Ég hef litið þannig á að þessi könnunartillaga hérna væri innlegg Samfylkingarinnar í þessa byggðaumræðu. Þetta eru svo sem ekki tillögur, meira verið að kanna, búa til fleiri skýrslur. Það er út af fyrir sig ágætisverkefni. Þetta er hins vegar ekki nein stefnumótun. Því miður er ég engu nær eftir þessi andsvör um það hver stefna þessa flokks er í þessu máli.