Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 15:05:30 (3581)

2003-02-06 15:05:30# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., HBl
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[15:05]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég tók svo eftir að formaður Samfylkingarinnar, hv. 7. þm. Reykv., Össur Skarphéðinsson, hefði sagt hér fyrr í dag að hann teldi ekki að hægt væri að hugsa sér að tekjuskattur yrði mismunandi á mismunandi stöðum á landinu. (Gripið fram í: Af hverju?) Nú má vera að ég hafi ekki tekið rétt eftir. Ég hygg samt að svo sé sem er eftirtektarvert í ljósi þess að nú segir hv. 6. þm. Suðurl., Lúðvík Bergvinsson, þegar hann er að skýra skattalækkunartillögur sínar að hann telji að tekjuskatturinn eigi að vera mismunandi en hefur á hinn bóginn efasemdir --- (LB: Ég sagði að það hefði verið ...) rólegur, rólegur, rólegur, rólegur --- en hefur á hinn bóginn efasemdir um virðisaukaskattinn sem formaðurinn talaði sérstaklega um. Það er svolítið merkilegt að bara í svona venjulegu --- ég sé að hv. 6. þm. Reykn., Guðmundur Árni Stefánsson, hefur kvatt sér hljóðs og er það gott því hann hefur venjulega mikið til málanna að leggja.

Ég tók svo eftir að hv. þm. hefði verið að róma það um tekjuskattinn að hann ætti að vera mismunandi á landinu. Hvernig hefur hv. þm. hugsað sér að hann verði mismunandi? Er það kannski líka bara einn grauturinn til, bara að segja það sem manni dettur í hug? Einn þingmaður Samfylkingarinnar segir að tekjuskatturinn eigi að vera mismunandi á landinu, annar þingmaður Samfylkingarinnar segir að virðisaukaskatturinn eigi að vera mismunandi á mismunandi stöðum á landinu og þriðji þingmaður Samfylkingarinnar segir að þungaskatturinn eigi að vera mismunandi á mismunandi stöðum á landinu. Þetta veldur því að hv. 6. þm. Reykn., Guðmundur Árni Stefánsson, kveður sér hljóðs af því að hann heldur að þetta sé Hafnafjarðarbrandari.

Nú er það auðvitað þannig að við erum að tala hér um háalvarlegt mál. (Gripið fram í.) Rólegur, bara rólegur. Við erum að tala hér um háalvarlegt mál, kjör manna á landsbyggðinni. Þá er eftirtektarvert í þeim ræðum sem ég hef heyrt --- að vísu verð ég að biðjast afsökunar á því að ég var í öðrum erindagjörðum í dag og gat ekki hlýtt á allar ræðurnar --- en m.a. hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni hefur ítrekað komið fram að lífskjör manna hafi versnað úti á landsbyggðinni á síðustu árum. Þetta er auðvitað algjörlega rangt og merkilegt að heyra svona lagað í þingsölum. Hv. þm. veit að hann er að segja ósatt. Hv. þm. veit að lífskjör manna hvarvetna á landinu hafa batnað. Ef við förum aftur í tímann veit hv. þm. líka, svo ég taki sem dæmi nauðsynjavörur eða matvörur af því að sérstaklega hefur verið um þær fjallað hér, að Bónus hefur opnað verslanir víðs vegar um land, a.m.k. á Selfossi, Egilsstöðum, Akureyri og Ísafirði, og verðið í þessum verslunum er hið sama á öllum þessum stöðum, sömuleiðis verð hjá Hagkaupum og ef til vill hjá Samkaupum. Ég bara veit það ekki. Ég hef ekki gert slíka vörukönnun. Eins og þessi tillaga liggur fyrir og eins og málflutningur samfylkingarmanna er á vöruverð að vera miklu hærra alls staðar úti á landi en í Reykjavík. Þetta er vitaskuld rangt. Og það er annað í málflutningi þeirra sem hefur valdið mér miklum vonbrigðum, og það er að þeir skuli ekki ræða t.d. verðlagsmálin á réttum forsendum.

Sterkar keðjur eins og Hagkaup, Baugur, Samkaup og aðrar slíkar, Jón Loftsson --- hvað sem það nú heitir í dag --- fá magnafslátt hjá stærstu birgjum. Þær fá magnafslátt hjá Mjólkursamsölunni, hjá Coca Cola og öðrum slíkum aðilum vegna þess að Samkeppnisstofnun hefur kveðið upp þann úrskurð að verslunarkeðjur eigi að fá afslátt frá því verði sem er til smásölukaupmanna. Þess vegna er ósköp eðlilegt að verð hjá smásölukaupmönnum sé hærra en hjá Bónus eða Hagkaupum. Ég get tekið eitt lítið dæmi um þetta. Ég hef það hér fyrir framan mig. Fyrir um hálfum mánuði var á Austurlandi hægt að kaupa hálfan lítra af Carlsberg-pilsner á 39 kr. í Bónus með virðisaukaskatti. Í heildsölu kostaði sami pilsner 69 kr. án virðisaukaskatts til smásöluaðila. (LB: Þú varst með þetta dæmi í gær.) Ég var ekki með það. Ég var með aðeins rangar tölur (Gripið fram í.) og vil leiðrétta. En í grófum dráttum eru þær réttar. (Gripið fram í: Já.) Tveggja lítra flaska af Pepsi er á 99 kr. í Bónus með virðisaukaskatti, í heildsölu 148 kr. án virðisaukaskatts. Svona er um aðrar vörur einnig. Þetta veldur erfiðleikum, t.d. austur í Neskaupstað af því að ég sé hér hv. þm. Einar Má Sigurðarson sem þar er búsettur, við að halda uppi matvöruverslun. Kaupmaðurinn þar á ekki kost á að kaupa vöruna frá heildsala, hjá birgi eins og nú er sagt, á Egilsstöðum við sama verði og stórmarkaðirnir á Egilsstöðum. Það er algjörlega til þess að ganga á svig við kjarna þessa vandamáls að vera bara að blaðra um að þetta sé út af þungaskatti vegna þess að ... (LB: Af hverju bregðist þið ekki við? ... Þú ert ekki í stjórnarandstöðu núna.) vegna þess að þungaskattur skýrir ekki þennan mun og þungaskatturinn er sá sami hvort sem vörunni er ekið til Egilsstaða fyrir þennan smásala eða fyrir Bónus nema þannig liggi í málinu að stórverslanirnar fái einnig meiri afslátt á vöruflutningum en smáverslanirnar. Þess vegna vantar þennan þátt inn í. (Gripið fram í.) Það er verulega ástæða fyrir okkur þingmenn til þess að ræða vandamál á matvörumarkaði í dreifbýlinu á réttum forsendum og reyna að gera okkur grein fyrir því hver staðan raunverulega er. En vitaskuld er einn þátturinn í því að jafna þennan mun að bæta vegi, stytta vegalengdir og ég hef m.a. bent á leið til þess milli Reykjavíkur og Akureyrar.

Vegna þess að ég veit að hv. 6. þm. Reykn. ætlar að taka til máls á eftir, hefur a.m.k. kvatt sér hljóðs, langar mig að beina þeirri spurningu til hans sem þingmanns Hafnfirðinga hvort hann telji að Hafnfirðingar eigi að borga hærri tekjuskatt en Vestmannaeyingar, hvort hann telji að virðisaukaskattur eigi að vera hærri hjá Hafnfirðingum en Vestmannaeyingum eða hvort hann telji að tekjuskattur eigi að vera hærri hjá Hafnfirðingum en í Vestmannaeyjum. Þetta eru þær tillögur sem flokksbræður hans eru hér uppi með án þess að þeir þori sérstaklega að útskýra hvernig þeir ætli að standa að þessu. Þetta eru almennar hugmyndir, óljós loforð, fyrirheit, kosningauppsláttur sem æ færri taka mark á því oftar sem heyrist í samfylkingarmönnum þegar þeir ræða þessi mál. (BH: Nei ... taka mark á þessu.)