Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 15:13:55 (3582)

2003-02-06 15:13:55# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[15:13]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég velti því eilítið fyrir mér undir ræðu hv. 1. þm. Norðurl. e. hvað ókunnugur hefði haldið, hefði hann komið inn í miðja þessa umræðu, um hver hefði stjórnað þessu landi á umliðnum átta eða 12 árum og hver ekki, hvaða aðilar væru í ríkisstjórn og hverjir ekki, hvaða aðilar væru í stjórnarandstöðu og hverjir ekki. Ég hygg að sá sem þekkti ekki bakgrunn mála hefði verið fljótur að álykta sem svo að síðasti ræðumaður hefði lítið komið nærri stjórn mála hér á umliðnum árum, og hefði örugglega brugðið í brún hefði honum verið sagt að þessi hv. þm. hefði verið samgrh. hér í átta ár samfellt, landbrh. í fjögur ár samfellt og einn ötulasti talsmaður þeirrar stjórnarstefnu sem ráðið hefur ríkjum hér á umliðnum 12 árum þegar málefni landsbyggðar eru annars vegar. Ég hugsa að þessum gesti okkar hefði líka brugðið dálítið í brún hefði hann lesið umsögn í þáltill. í fylgiskjali á bls. 9 þar sem Ásgeir Magnússon, forstöðumaður Skrifstofu atvinnulífsins á Akureyri, tekur saman með nokkrum dæmum stöðu mála í heimabyggð hv. þm. Halldórs Blöndals á Akureyri. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Dæmi af viðbrögðum forsvarsmanna nokkurra fyrirtækja á Norðurlandi sem rætt var við vegna þessa:

1. Iðnfyrirtæki sem flytur inn allt hráefni (þungavöru), en selur sína þjónustu að talsverðu leyti á höfuðborgarsvæðinu. Áætlaður viðbótarkostnaður 8--10 millj. kr. á ári. Þessi kostnaður er heldur hærri en áætlaður hagnaður fyrirtækisins á árinu 2001.

2. Iðnfyrirtæki sem flytur inn allt hráefni, en selur framleiðslu sína að langmestum hluta á höfuðborgarsvæðinu. Viðbótarkostnaður vegna flutninga gæti haft þau áhrif að stór hluti starfsemi fyrirtækisins flyttist til Reykjavíkur.``

Þetta voru tvö dæmi af fjórum sem hér er að finna. Segir þetta ekki meira en mörg orð, herra forseti, um ástand mála eftir samfellda 12 ára stjórnarþátttöku þessa hv. þm.?