Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 15:19:18 (3585)

2003-02-06 15:19:18# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[15:19]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Á hinn bóginn til að ljúka við að svara hv. þm., ef við horfum á hagsmuni útflutningsframleiðslunnar eða innflutningsverslunarinnar mun auðvitað sú höfn sem rís við Reyðarfjörð eftir að álver hefur risið þar nýtast mjög vel bæði innflytjendum og útflytjendum. Flutningskostnaður frá Eyjafjarðarsvæðinu til Reyðarfjarðar verður minni en til Reykjavíkur af því að vegalengdin er styttri, eins og ég vona að hv. þm. viti, og einnig er mun skemmra frá Reyðarfirði til Evrópuhafna en frá Reykjavík.

Þetta verða mjög merkileg tímamót. Það verða reglulegar siglingar til annarra landa einu sinni til tvisvar sinnum í viku og þá verður hægt að rjúfa þá einokun sem Reykjavíkurhöfn og Hafnarfjarðarhöfn hafa haft á inn- og útflutningi landsmanna hvað varðar almennt vöruverð.