Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 15:31:53 (3592)

2003-02-06 15:31:53# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., Flm. KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[15:31]

Flm. (Kristján L. Möller) (andsvar):

Herra forseti. Við skulum halda því til haga að það er hæstv. ríkisstjórn sem hefur komið á auðlindaskatti í landinu, hv. þm. Halldór Blöndal greiddi því atkvæði, sá sem hér stendur sat hjá.

Það er eðlilegt að hv. þingmaður vilji ekki ræða um skattastefnu ríkisstjórnarinnar og þær skattkerfisbreytingar sem áttu öllu að bjarga í atvinnulífi og gerðar voru árið 2001, að mig minnir. Það er eðlilegt að hann vilji ekki ræða þær.

Eins og ég sagði áðan kemur þetta þannig út að fyrirtæki á landsbyggðinni, að meðaltali að sjálfsögðu, munu tapa á þessari skattkerfisbreytingu. Stóru fyrirtækin í Reykjavík munu græða á henni en fyrirtæki almenns eðlis á landsbyggðinni munu að meðaltali tapa. Þetta er grundvallaratriði og þetta er það sem hv. þm. hefur stuðlað að með samþykkt sinni.

Hitt atriðið er að frá árinu 1998--2000, við þær breytingar sem gerðar voru á þungaskatti, er kristaltært á pappírum frá flutningafyrirtækjum og öðrum að þungaskattur hefur hækkað um 40% hjá þeim sem keyra á lengstu leiðum.