Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 15:33:08 (3593)

2003-02-06 15:33:08# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[15:33]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki þessa töflu fyrir framan mig sem hv. þm. vitnar í en ég ætla að minna hann á annað. Ástæðan fyrir hinni sérstöku hækkun á þungaskatti var sú að Samkeppnisstofnun taldi að það samræmdist ekki reglunum á hinu Evrópska efnahagssvæði að hafa mismunandi þungaskatt eins og hann var lagður upp. Hann var raunar ekki lagður upp út frá því hvar bíll væri skráður, sem er misskilningur hjá hv. þingmanni.

Á hinn bóginn hygg ég að hv. þingmaður hljóti að verða að svara því, þó að hann treysti sér ekki til þess hér, og er sjálfsagt að koma að því síðar, ef hægt er, í þessari umræðu eða annarri: Hvað hugsar hann sér þegar hann talar um þungaskatt og segir að hann eigi að vera mismunandi hár á mismunandi stöðum? Því vill hv. þm. ekki svara þessu skýrt? Af hverju vill hann ekki sýna fólki að hann meinar það sem hann segir? Af hverju hagar hann sér svona?