Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 15:59:53 (3600)

2003-02-06 15:59:53# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[15:59]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson kvartaði yfir því að það væri óljóst orðalagið á textanum sem ég las úr landsfundarsamþykkt okkar samfylkingarfólks. Ég vænti þess að ástæða þess sé sú að ég náði því miður ekki að lesa eins mikið og ég hafði ætlað mér. Ég tók bara hinn almenna kafla en ég ætla nú að freista þess, þótt stutt sé andsvarið, að bæta örlítið úr þannig að hv. þingmaður geti enn fræðst um stefnu okkar í þessum málum og vona ég að hann sé sammála því flestu. Hér segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Landsfundurinn telur brýnt að efla sveitarstjórnarstigið með því að stækka og fækka sveitarfélögum, auka tekjur þeirra og flytja verkefni frá ríki til sveitarfélaga. Dæmi um slík verkefni eru framhaldsskólar, málefni fatlaðra og hluti heilbrigðisþjónustu. Slíkar aðgerðir eru nauðsynlegar til að snúa vörn í sókn á landsbyggðinni því til að slíkt takist verða stjórnsýslulegar einingar landsbyggðarinnar að hafa nægan styrk til áhrifa á samfélagsþróunina. Framsækin menntastefna er um leið jákvæð byggða- og atvinnustefna. Því þarf að huga sérstaklega að eflingu menntakerfis á landsbyggðinni.``

Þetta er í mörgum liðum og ég ætla að reyna að bæta nokkrum við það sem ég sagði áðan. Enn fremur lýsir landsfundurinn yfir, með leyfi forseta:

,,Ný þekkingarfyrirtæki fái að dafna á landsbyggðinni, t.d. með skattaívilnunum til nýrra sprotafyrirtækja og að nýsköpun, háskóla- og rannsóknastörf á landsbyggðinni verði styrkt með markvissum hætti.``

Jafnframt segir:

,,Sérstakt átak verði gert til að flytja fjarvinnsluverkefni frá ráðuneytum og ríkisstofnunum til hinna dreifðu byggða. Jafnhliða verði skattaívilnunum beitt til að örva einkafyrirtæki til að flytja verkefni, sem hægt er að vinna með fjarvinnslu, út á landsbyggðina.

Auk þess ályktar fundurinn:

,,Ferðakostnaður þeirra sem þurfa að fara langan veg til vinnu verði metinn til lækkunar á skatti.``

Hér tók ég út þá liði sem tengjast skattkerfinu á einhvern hátt til að vekja athygli á því að við erum með margs konar nálgun að skattkerfinu til að reyna að bæta þetta. Hv. þm. benti á að ýmsar tillögur lægju fyrir. Ég tek undir það með hv. þingmanni og það er enginn skortur á þeim. (Forseti hringir.) Það er skortur á framkvæmd og það er auðvitað eðlilegt að hv. þm. sem hafa stutt ríkisstjórnina í 12 ár (Forseti hringir.) séu nokkuð órólegir undir umræðunni við þær aðstæður sem nú eru.