Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 16:02:15 (3601)

2003-02-06 16:02:15# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[16:02]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil ekki almennilega þetta tal fullrúa Samfylkingarinnar um að við séum órólegir og að okkur líði illa. Við höfum aðeins tekið þátt í umræðu um þetta þingmál, farið um það nokkrum orðum og m.a. reynt að beina athyglinni að veilum sem kunna að vera í þessu plaggi, eins og menn eiga að gera í svona umræðu. Hins vegar er alltaf brugðist við með því að segja að okkur líði eitthvað illa eða eitthvað svoleiðis. Okkur líður bara bærilega, takk fyrir.

Það sem ég átti við, virðulegi forseti, var að ég spurði um það fyrr í umræðunni hvort það væri stefna Samfylkingarinnar að beita mismunandi skattlagningu til að lækka virðisaukaskatt á landsbyggðinni og lækka þungaskattinn á landsbyggðinni. Ég hef ekki fengið skýr svör við því. Það er með óljósum hætti daðrað við þessa hugmynd en a.m.k., virðulegi forseti, svo ég haldi áfram þeirri myndlíkingu, ekki gengið alla leið. Þetta daður á auðvitað að gefa til kynna vissan velvilja í málinu. Hins vegar er þess rækilega gætt að stugga ekki við neinum og móðga ekki neinn sem hefur aðra skoðun. Ég þekki það svo sem af öðrum vettvangi að menn hafa áður farið í svona pólitískar málamiðlanir og leikfimisæfingar til þess að ná saman ályktunum. Það er auðvitað einkenni á þessari ályktun. Þetta eru vel meinandi hugmyndir án þess að þær séu mjög ígrundaðar að öllu leyti.

Hv. þm. talaði um skattaívilnanir til sprotafyrirtækja. Þingmenn Samfylkingarinnar áttu þess kost rétt fyrir jólin að taka afstöðu til breytinga á fyrningafyrirkomulagi í skattlagningu fyrirtækja í landinu. Það var verið að breyta þeim á þann veg að það væri ívilnandi fyrir sprotafyrirtæki, ný fyrirtæki, fyrirtæki sem verið væri að stofna. Mig minnir að hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafi ekki treyst sér til þess að styðja það. Þegar á hólminn er komið, virðulegi forseti, er eins og kjarkurinn bresti.