Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 16:04:20 (3602)

2003-02-06 16:04:20# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[16:04]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég get sannfært hv. þm. um að ekki skortir okkur samfylkingarmenn kjark til að taka á þessum mikla vanda. Þrátt fyrir að hv. þm. hafi talið ýmislegt óljóst í þeim samþykktum sem við höfum gert þá eru meginmarkmiðin mjög skýr. Þar eru líka útfærslur og tekin konkret dæmi. Ég er nú ekki viss um að allar landsfundarsamþykktir á landsfundi Sjálfstfl. séu jafnskýrar.

Hv. þm. talaði um að eitthvað væri verið orða það að mönnum liði illa. Ég kannast ekki við að ég hafi rætt um það. Ég var hins vegar að benda á að það væri svolítill óróleiki í þingmönnum Sjálfstfl. Það er auðvitað ekkert sérkennilegt. Sjálfstfl. er búinn að vera 12 ár við stjórnvölinn og auðvitað er það allt annað að hafa setið 12 ár við stjórnvölinn. Þeir bera þar af leiðandi miklu meiri ábyrgð á því ástandi sem nú er. Við erum bara að skoða ástandið eins og það er núna og benda á leiðir til að bæta það.

Það er rétt sem hv. þm. kom inn á, að hann var í ágætri nefnd sem skilaði býsna mörgum tillögum. Meðal annars einni af þeim mörgu tillögum sem fyrir liggja. Það hefði auðvitað átt að vera búið að fylgja eftir miklu meira af þeim tillögum. Þá værum við að sjálfsögðu ekki í þeim sama vanda gagnvart landsbyggðinni og við erum í í dag.

En vegna þess að hv. þm. talaði um að mjög skiptar skoðanir væru um að nálgast þessi mál á þann hátt, þ.e. að skoða skattkerfið, þá vil ég vekja athygli hv. þm. og annarra þingmanna á því að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur mótað stefnu í byggðamálum sem samþykkt var á 62. fundi fulltrúaráðsins. Þar ræddu þeir um það sérstaklega að nálgast þennan vanda, mismunun fólks, í gegnum skattkerfið. Þeir nefna nokkur dæmi. Ég hef því miður ekki tíma, í þessu stutta andsvari, til að lesa þetta yfir. En hv. þingmenn geta kynnt sér þetta á bls. 10 í tillögu okkar vegna þess að þetta er fskj. III. Þar er þetta í raun mjög skýrt og m.a. komið inn á það sama og við erum að nefna. Hér segir:

,,Hér gæti verið um að ræða ýmsa skatta ríkisins, svo sem tekjuskatt, eignaskatt og þungaskatt,`` --- hið sama og við höfum nefnt í tillögu okkar.