Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 16:06:37 (3603)

2003-02-06 16:06:37# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[16:06]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Óróleikinn sem hv. þm. talaði um að væri hjá okkur þingmönnum Sjálfstfl. birtist helst í því að tveir okkar hafa talað í þessari umræðu. (Gripið fram í.) Um hvaða mál er verið að ræða? Þetta er mál sem hv. þm. hefur upplýst okkur um að Samfylkingin telji eitt brýnasta úrlausnarefni á stjórnmálavettvangi í landinu.

Hefði þá kannski ekki fremur mátt gagnrýna okkur fyrir það, þegar þetta mál kemur fyrir sjónir Alþingis og við höfum tækifæri til þess að ræða það, að einungis tveir þingmenn Sjálfstfl. hafi kosið að tala í þessu máli? (EMS: Það er rétt.) En ástæðan fyrir því er sennilega sú að þegar menn fóru að lesa þetta plagg sáu þeir að fjallið hefði tekið jóðsótt og fæðst þessi litla mús. Þetta plagg. Sennilega féllust mönnum hendur og fannst málið ekki tilefni til að mjög margir töluðu. Mér fannst hins vegar athyglisvert að fá að skiptast aðeins á skoðunum við hv. þingmenn Samfylkingarinnar um þetta mál.

Það sem hér kemur fram og þessi umræða kristallar og dregur fram er að hugmyndir hv. þingmanna um þessi mál eru á margan hátt góðar. Þetta eru hugmyndir sem hafa oft og tíðum komið fram. En þegar kemur að því að setja þær klárt og kvitt niður á blað sem hugmyndir þá grípa menn til þess gamla úrræðis að skipa nefnd í málinu og kanna, hanna og skoða. Það höfum við svo sem séð áður. Það er út af fyrir sig verðugt viðfangsefni en ég hygg, herra forseti, að mörg okkar hafi reiknað með því að fram kæmu eindregnari skoðanir í málinu. En það sem þessi umræða hefur dregið fram er að um þessa skattalækkunarleið, sem menn hafa verið að kallsa við, er greinilega enginn einhugur í liði Samfylkingarinnar enda greip hv. þm. helst til þess ráðs núna í lokin að lesa upp úr samþykktum Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem mér er ekki kunnugt um að sé deild í Samfylkingunni. (EMS: Til að sýna hvað samstaðan er mikil.)