Bætt staða þolenda kynferðisafbrota

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 16:16:18 (3607)

2003-02-06 16:16:18# 128. lþ. 74.10 fundur 65. mál: #A bætt staða þolenda kynferðisafbrota# þál., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[16:16]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. sem ég flyt um bætta stöðu þolenda kynferðisbrota. Þeir sem flytja tillöguna með mér eru hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir og Einar Már Sigurðarson.

Efni þessarar tillögu er að fela dómsmrh. að skipa nefnd sérfræðinga sem hafi það verkefni að kanna og gera tillögur um bætta stöðu þolenda kynferðisbrota, einkum barna og unglinga.

Verkefni nefndarinnar verði að gera ítarlega úttekt á stöðu þolenda kynferðisbrota og ferli kærumála í réttar- og dómskerfinu. Sérstaklega skal skoða lagaákvæði er varða starfshætti dómstóla og hvort þörf er á að herða refsiúrræði. Einnig skal nefndin leggja fram tillögur um hvernig bæta megi stuðning og meðferðarúrræði sem fórnarlömb kynferðisbrota eiga kost á.

Í úttektinni skal jafnframt kanna hvaða fyrirbyggjandi aðgerðum hægt er að beita, m.a. gagnvart gerendum, til að koma í veg fyrir kynferðislega áreitni og ofbeldi. Jafnframt skal nefndin leitast við að benda á leiðir sem eru færar til að hvetja þá sem beittir eru kynferðislegu ofbeldi til að kæra verknaðinn.

Tillögur nefndarinnar og úrbætur skulu lagðar fyrir Alþingi eigi síðar en á haustþingi árið 2003.

Herra forseti. Það var vissulega alvarlegt áfall fyrir þjóðina þegar það kom fram í fjölmiðlum að 17% barna væru misnotuð fyrir 18 ára aldur. Það kom fram í rannsókn um umfang kynferðislegrar misnotkunar á börnum. Kynferðisbrot gegn börnum eru einn alvarlegasti glæpur sem hægt er að fremja, enda er ljóst að slíkt getur eyðilagt líf þolenda um alla framtíð.

Ég tel, herra forseti, að þegar í stað þurfi að bregðast við þessu en í rannsókninni kemur fram að fjórðungur þolenda eru 6 ára börn eða yngri og að í 67% tilvika sé misnotkunin gróf eða mjög gróf. Jafnframt þarf að leita skýringa á því hvers vegna hér er um hærri tölur að ræða en komið hafa fram í rannsóknum annars staðar á Norðurlöndum. Ég tel því mikilvægt að kallaðir verði til færustu sérfræðingar í þá nefnd sem hér er gerð tillaga um að skipa.

Herra forseti. Ég tel að efni þessarar tillögu sé með þeim hætti að þingmenn allir ættu að geta fallist á það að fara í þetta verk. Ég geri mér vissulega grein fyrir því að verkefnið er nokkuð víðtækt en eigi að síður er hér á ferðinni brýnt úrlausnarefni.

Þessa tillögu flutti ég áður á 125. þingi en hef bætt hana nokkuð nú þegar hún er lögð fram á nýjan leik. Herra forseti. Tillagan var send til umsagnar og allir umsagnaraðilar sem fást við þessi mál með einum eða öðrum hætti lýstu sig afar jákvæða fyrir þeirri tillögu sem hér er lögð fram. Ég nefni þar til Stéttarfélag íslenskra félagsráðgjafa og ítarlega umsögn Barnaverndarstofu sem mælir eindregið með samþykkt tillögunnar. Barnaverndarstofa segir í umsögn sinni, með leyfi forseta:

,,Barnaverndarstofa telur gríðarlega mikilvægt að fá yfirsýn yfir allt það starf sem unnið hefur verið á þessum vettvangi, þ.e. þær réttarreglur sem gilda, þau vinnubrögð sem eru viðhöfð og þau úrræði sem beitt er af öllum þeim mismunandi aðilum sem koma að máli þegar framið er kynferðisbrot. Á þetta sérstaklega við um kynferðisbrot gagnvart börnum en þar er umfram allt nauðsynlegt að þeir sem að málunum koma samhæfi vinnubrögð sín og samræmi aðgerðir í þágu barnanna.

Barnaverndarstofa tekur undir nauðsyn þess að skoða bæði forvarnir, könnun og rannsókn kynferðisbrota hjá barnaverndaryfirvöldum og lögreglu, málsmeðferð fyrir dómstólum, refsingar, meðferð og önnur úrræði bæði fyrir gerendur og þolendur.``

Ég nefni líka til umsögn Landssamtakanna Heimili og skóli sem eindregið styður að ráðist verði í það verkefni sem tillagan felur í sér. Ég nefni Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga sem fagnar tillögunni og lýsir sig sammála efni hennar. Ég nefni Barnaheill. Jafnframt nefni ég Stígamót sem þekkja kannski hvað best til þessara vandamála. Í þeirri umsögn segir orðrétt:

,,Við tökum efnislega undir allt sem í þingsályktunartillögunni kemur fram og þykir litlu við rökstuðning hennar að bæta.``

Af þessu má sjá, herra forseti, að það er breiður stuðningur í samfélaginu við að ráðist verði í þetta verkefni og líka þá sem gerst þekkja til og vinna að lausn þeirra vandamála sem við ræðum hér og eru efni þessarar tillögu.

Hér er ekki síst að lagt er til að hugað verði að fyrirbyggjandi aðgerðum svo börn verði ekki þolendur. Við leggjum líka til að staða gerenda, kynferðisbrotamanna, verði skoðuð og þau meðferðarúrræði sem þeim gefst kostur á enda er oft um mjög sjúka einstaklinga að ræða. Við leggjum því til að skoðaðar séu báðar hliðar á þessu alvarlega máli.

Alþingi kemst ekki hjá því að taka upp alvarlega umræðu um þessi mál á breiðum grundvelli, herta refsingu fyrir kynferðislega misnotkun á börnum og skoða sérstaklega hvernig fyrningu í þessum málum er háttað. Sérstaklega þarf að skoða aðgerðir sem varða stöðu brotaþola kynferðisofbeldis í réttar- og dómskerfinu og hvort herða þurfi refsiúrræði og þá hvernig. Sömuleiðis er brýn þörf á að bæta stuðning og meðferðarúrræði fyrir fórnarlömb kynferðisbrota. Þá þarf að benda á mögulegar leiðir til að hvetja þá sem beittir eru kynferðislegu ofbeldi til að kæra glæpinn. Ástæða er til að endurskoða lagaákvæði um kynferðisbrot gagnvart börnum. Í þeim er engin lágmarksrefsing en hámarksrefsing er allt að 12 ára fangelsi, allt eftir aldri barns og skyldleika geranda við barnið. Aftur á móti er lágmarksrefsingu beitt fyrir nauðgun. Þar er lágmarksrefsing eitt ár og hámarksrefsing 16 ár, en því ákvæði er beitt ef ofbeldi eða hótun um það er beitt án tillits til aldurs þolanda. Erfitt er að sjá af hverju ekki er hér á landi sambærilegt lágmarksákvæði vegna kynferðislegrar misnotkunar gegn börnum.

Ég átti þess því miður ekki kost, herra forseti, að vera í dag viðstödd umræðu um stjfrv. hæstv. dómsmrh. þar sem verið er að fjalla um hertar refsingar. En þar er ekki vikið að því sem ég tala um hér, þ.e. að samræmi sé milli ákvæða í hegningarlögum að því er varðar kynferðisbrot. Ég tel að það þurfi að skoða mjög alvarlega í nefndinni sem fjallar um það mál að koma á lágmarksrefsingu þegar um er að ræða kynferðisbrot gegn börnum, eins og beitt er varðandi kynferðislega misnotkun þegar um eldri er að ræða. Í Noregi er lágmarksrefsing eitt ár og í Svíþjóð er fangelsisvist að lágmarki tvö ár vegna kynferðislegrar misnotkunar á börnum.

Ég vil í þessu sambandi, herra forseti, minna á að fyrir nokkrum þingum, á 122. löggjafarþingi, flutti ég ásamt fleiri þingmönnum frv. sem hafði að geyma tvö efnisatriði að því er varðar breytingar á almennum hegningarlögum. Í fyrsta lagi var mælt fyrir um eins árs lágmarksrefsingu vegna kynferðisbrota gegn börnum og síðan var lögð til breyting þess efnis að fyrningarfrestur varðandi kynferðisbrot gegn börnum hæfist ekki fyrr en þolandi brots hefði náð sjálfræðisaldri, þ.e. væri orðinn 18 ára. Við töldum það afar mikilvægt en um það náðist ekki samkomulag og var miðað við 14 ára aldur en ekki 18 ára og hefði þurft að taka á því máli í tengslum við frv. hæstv. dómsmrh. Eins og allir þekkja þá er það svo að oft líða mörg ár þar til þeir sem í þessu lenda treysta sér til að tala um málið og reyna að leita réttar síns. En þá er það oft orðið of seint af því að brotið er fyrnt. Við teljum að við því þurfi að bregðast og það var gert fyrir nokkrum árum í frv. sem ég flutti.

Við frv. sem ég flutti brást hæstv. dómsmrh., sem þá var formaður allshn., þannig að áður en farið væri út í þyngingar á refsingum, kynferðisbrotum sem öðrum, fíkniefnabrotum og líkamsárásum, þyrfti að fara fram rannsókn á refsingum við afbrotum. Allshn. flutti þá undir forustu Sólveigar Pétursdóttur till. til þál. um að Alþingi fæli dómsmálaráðherra að láta fara fram rannsókn á ákvörðun refsinga við afbrotum. Rannsóknin átti m.a. að taka til líkamsárása, kynferðisbrota og fíkniefnabrota. Með rannsókninni átti að kanna viðurlög við þessum brotum og hvernig þau hafa þróast á undanförnum árum og áratugum. Rannsóknin átti einkum miða að því að leiða í ljós hvort unnt væri að sýna fram á að refsingar við fyrrgreindum brotum hefðu þyngst eða væru vægari en áður. Rannsókn þessi átti að taka til dóma Hæstaréttar og óáfrýjaðra héraðsdóma að svo miklu leyti sem nauðsynlegt er til að mat verði lagt á viðurlög við þessum afbrotum og þróun þeirra.

Ég vænti þess að hæstv. dómsmrh. hafi í dag farið yfir, þegar hún flutti frv. um að herða refsiákvæði vegna kynferðisbrota gagnvart börnum, þá rannsókn sem ákveðið var að fara í fyrir nokkrum árum. Ég man að til þess voru veittar 5 eða 10 millj. sem áttu að duga til að hægt væri að ráðast í þessa rannsókn þannig að hægt væri að byggja á faglegri niðurstöðu þegar fram kæmi frv. um að herða refsiákvæði vegna kynferðisbrota. Hafi ráðherrann ekki gert það geri ég ráð fyrir að eftir því verði kallað í nefndinni sem fær þetta mál til umfjöllunar. Með þessu er ég ekki að segja að þau ákvæði sem hæstv. ráðherra leggur til í frv. sínu eigi ekki að ganga fram. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi tvímælalaust að herða refsiákvæði vegna kynferðisbrota, m.a. að koma á þeirri lágmarksrefsingu sem ég hér nefndi, en það væri mjög gott ef þessi faglega rannsókn lægi fyrir þegar við erum að breyta þessari löggjöf.

Ég vil nefna að í svari við fyrirspurn sem ég beindi til félmrh. fyrir nokkru síðan kom fram að búast mætti við því að árlega þyrftu ekki færri en 50 börn á sérhæfðri meðferð að halda vegna kynferðisofbeldis og væru fjölskyldur þeirra teknar með mætti áætla að á annað hundrað manns þyrfti á stuðningi og meðferð að halda á ári hverju. Fram kom að engin hópmeðferð stæði þessum börnum til boða og áfallahjálp og langtímameðferð væri sjaldan skipulögð af barnaverndarnefndum, enda væru lagaskyldur á því sviði óljósar. Búast má við að sá hópur sem þarf á sérhæfðri meðferð og stuðningsúrræðum að halda hafi stækkað verulega frá því að svör við framangreindri fyrirspurn komu fram en mig minnir að það séu svona 4--5 ár eða sennilega 6 ár síðan. Þessi fyrirspurn leiddi síðan til stofnunar Barnahúss en starfsemi þess hefur vakið mikla athygli og í þeirri fyrirspurn komu einmitt fram upplýsingar um gífurlegan fjölda barna sem höfðu verið kynferðislega misnotuð á árabilinu 1992--1996.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjalla frekar um þetta, enda tíma mínum að ljúka. Þessi tillaga hefur líka verið flutt áður og henni gerð ítarleg skil.

Ég vil árétta að það er mjög mikilvægt er að í nefndinni, sem skipa á samkvæmt tillögunni, verði sérfræðingar á sviði kynferðisbrota. Við flutningsmenn leggjum áherslu á að í nefndina verði m.a. skipaðir fulltrúar stéttarfélaga, geðlækna, félagsráðgjafa og sálfræðinga auk fulltrúa Barnaverndarstofu, Stígamóta og lögregluyfirvalda.

Það er skoðun mín, herra forseti, að um þessa tillögu ætti að vera hægt að ná víðtækri sátt á Alþingi. Það þarf að láta gera þessa úttekt enda ætti hún að leiða til úrbóta í kynferðisbrotamálum og bættrar stöðu þolenda.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umræðu og hv. allshn.