Stimpilgjald

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 16:53:00 (3611)

2003-02-06 16:53:00# 128. lþ. 74.16 fundur 121. mál: #A stimpilgjald# (lækkun gjalds) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[16:53]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um stimpilgjald, nr. 36/1978, með síðari breytingum, í forföllum hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur sem er 1. og eini flutningsmaður frv.

Herra forseti. Töluvert er síðan þetta mál var lagt fram þannig að nokkrar dagsetningar eru orðnar úreltar og mundi ég vilja beina til nefndarinnar sem fær þetta mál því sem segir í 1. gr. þar sem talað er um að stimpilgjald lækki um fimmtung frá 1. janúar 2003. Það breytist náttúrlega í 2004. Í greinargerð með frv. segir svo, með leyfi forseta:

,,Frumvarp þetta var áður flutt á 126. og 127. löggjafarþingi, en náði ekki fram að ganga. Það er endurflutt óbreytt.

Í núgildandi lögum um stimpilgjald, nr. 36/1978, er gert ráð fyrir að greitt sé stimpilgjald af íslenskum viðskiptaskjölum. Nokkuð er misjafnt eftir því hvers konar skjal er um að ræða hversu hátt stimpilgjaldið er.

Skattheimta á borð við innheimtu stimpilgjalda hefur verið á hröðu undanhaldi í OECD-ríkjum síðustu áratugi. Slík skattheimta hefur í för með sér neikvæð áhrif, svo sem að mismuna aðilum innan lands og veikja samkeppnisstöðu fyrirtækja gagnvart erlendum fyrirtækjum. Eins og íslenskt viðskiptaumhverfi hefur þróast er óhætt að halda því fram að stimpilgjöldin séu bein samkeppnishindrun fyrir íslensk fjármálafyrirtæki, sem og íslenska útgefendur verðbréfa sem hyggjast skrá þau á erlendum mörkuðum. Jafnframt má halda því fram að með tilkomu rafrænnar eignarskráningar verðbréfa sé hlutverki stimpilskyldu í raun lokið. Ekki er hægt að stimpla rafræn verðbréf, auk þess sem ekki er um skjöl í eiginlegri merkingu þess orðs að ræða. Einnig má líta svo á að með innheimtu stimpilgjalds af lánum til einstaklinga til húsnæðiskaupa eða annarra nauðsynja sé í raun verið að innheimta nokkurs konar ,,fátækraskatt``, en þessi lán eru oftast veitt þeim sem ekki hafa efni á að fjármagna húsnæðiskaup eða aðrar nauðsynjar með eigin fé. Þá bendir flutningsmaður jafnframt á að óeðlilegt sé að við skuldbreytingar á lánum sem fjölskyldur hafa tekið sé stimpilgjald innheimt æ ofan í æ. Þarna er á ferðinni gjaldtaka sem er langt umfram það sem þjónustan kostar í raun.

Hér er lagt til að stimpilgjald af óþinglýstum skjölum verði afnumið í þrepum, þannig að það lækki um fimmtung árlega og falli endanlega niður 1. janúar 2007. Þá er gert ráð fyrir að frá og með 1. janúar 2003`` --- eða 1. janúar 2004, eins og ég gat um í upphafi máls míns --- ,,verði stimpilgjald þinglýstra skjala lækkað niður í raunkostnað við þá þjónustu sem veitt er. Eftir stendur þá þjónustugjald í stað skatts. Jafnframt er gert ráð fyrir að lögin verði endurskoðuð í heild með tilliti til þess hvort fella eigi þau endanlega úr gildi eigi síðar en 1. júlí 2007`` --- eða 2008 eins og ég nefndi.

Herra forseti. Þetta er afar sanngjarnt mál og það er alveg furðulegt að þetta skuli ekki hafa verið gert fyrr miðað við hvað þessi skattheimta er geysilega óréttlát, þ.e. að ríkissjóður skuli árið 2003 nýta sér það að leggja stimpilgjöld á lántöku til þess að afla ríkissjóði tekna upp á eina 3,3 milljarða kr. eins og stimpilgjald er talið hafa gefið ríkissjóði á síðasta ári. Eins og fram kemur í greinargerð hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur er þetta mjög ósanngjörn skattheimta, enda er í skýrslu OECD um íslenska skattkerfið gerð ítarleg úttekt á þessu skattkerfi og settar fram fjölmargar hugmyndir, þar á meðal um að stimpilgjöld verði afnumin.

Samtök atvinnulífsins hafa einnig tekið undir þessa kröfu eða tillögu OECD um að stimpilgjöld af útgáfum og viðskiptum ýmiss konar verði felld brott.

Herra forseti. Ég hygg að umræða um stimipilgjald sé töluvert löng. Ég vitna máli okkar til stuðnings, þ.e. um að þetta sé skynsamlegt og að það njóti víðtæks stuðnings í þjóðfélaginu að fella þetta niður, að Davíð Oddsson, formaður Sjálfstfl., hæstv. forsrh., boðaði það á landsfundi Sjálfstfl. 2001 að stórlega yrði dregið úr stimpilgjöldum hér á landi. Það hefur því miður ekki gengið eftir. Þess er skemmst að minnast að þegar fjárlög voru lögð fram á liðnu hausti var gert ráð fyrir því að tekjur ríkissjóðs af stimpilgjöldum mundu lækka um 900 millj kr. og að stigið yrði fyrsta skref í að afnema þennan óréttláta skatt. En því miður var Adam ekki lengi í Paradís. Við 3. umr. var þetta fellt út. Þá gekk þetta til baka.

Til þess að gera sér aðeins í hugarlund hversu hár þessi skattur er má taka sem dæmi að stimpilgjald af 5 millj kr. skuldabréfi er hvorki mera né minna en 75 þús. kr. Þjónustugjaldið hins vegar við að gera þetta í stjórnsýslunni er 1.200 kr. Það bætist við. En þegar greidd eru 75 þús. kr. af 5 millj. kr. bréfi eða 150 þús. kr. af 10 millj. kr. bréfi þá sjáum við náttúrlega að þetta er skattheimta sem á ekki að eiga sér stað. Þetta er ósanngjörn skattheimta sem leggst illa á þá sem þurfa að taka lán og mismunar, eins og hér hefur komið fram, lánastofnunum íslenskum og erlendum.

Herra forseti. Í lögum um stimpilgjald eru undanþágur, fordæmi. Undanþágurnar eru m.a. þær sem koma fram í 35. gr. laganna, með leyfi forseta:

,,Eftirtalin skjöl eru stimpilfrjáls:

1. Húsbréf og húsnæðisbréf.

2. Skuldabréf og víxlar sem gefin eru út af ríkissjóði, enda séu bréfin skráð á skipulögðum markaði.``

Ríkissjóður greiðir sjálfum sér ekki stimpilgjöld.

,,3. Skuldabréf og tryggingarbréf sem gefin eru út til Lánasjóðs íslenskra námsmanna samkvæmt lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

4. Skuldabréf sem gefin eru út til Íbúðalánasjóðs vegna viðbótarláns samkvæmt lögum um húsnæðismál. Sama gildir um skuldabréf sem gefin eru út til Íbúðalánasjóðs vegna lána til byggingar eða kaupa leiguhúsnæðis, sbr. VIII. kafla laga um húsnæðismál.

5. Heimildarbréf fyrir íbúð þegar viðbótarlán úr Íbúðalánasjóði, sbr. 4. tölul., er veitt til kaupa á henni.

6. Húsaleigusamningar.``

Herra forseti. Hér hef ég aðeins tekið nokkur atriði máli þessu til stuðnings þar sem sannarlega eru fordæmi fyrir því að rukka ekki þennan ósanngjarna skatt af öllum verðbréfum og þarna er það gert.

Herra forseti. Í umræðum fyrir jól gerði hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir grein fyrir áliti 1. minni hluta efh.- og viðskn. og kannski lýsir það best afstöðu okkar jafnaðarmanna hér á Alþingi til þessa skatts ásamt náttúrlega því tímamótafrv. sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hefur lagt fram á Alþingi og ég flyt nú í hennar stað. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði m.a. í ræðu sinni, með leyfi forseta:

,,Samfylkingin er þeirrar skoðunar að stimpilgjöld séu í eðli sínu ranglát og leggist þyngra á fólk í fjárhagsþröng en aðra í samfélaginu, og þyngra á lítil fyrirtæki en stór. Við leggjum því áherslu á að þegar á næsta ári verði stigið skref í að afnema stimpilgjöld og teljum rétt að um þriðjungur stimpilgjalda verði afnuminn 1. janúar 2003. Við vísum þar til frv. sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hefur flutt um afnám stimpilgjalda í áföngum en í greinargerð með frv. kemur fram að skattheimta á borð við innheimtu stimpilgjalda hefur verið á hröðu undanhaldi í OECD-ríkjunum síðustu áratugi. Slík skattheimta hefur í för með sér neikvæð áhrif, svo sem að mismuna aðilum innan lands og veikja samkeppnisstöðu fyrirtækja gagnvart erlendum fyrirtækjum.``

Síðan er áfram rætt um þetta og sagt að þessa skattheimtu megi, innan gæsalappa, kalla hálfgerðan ,,fátækraskatt``. Ef menn neyðast til að taka lán, að maður tali nú ekki um ef verið er að skuldbreyta, þá leggst þetta áfram á og þannig koll af kolli.

Herra forseti. Það hefur líka komið fram að tekjur ríkissjóðs af stimpilgjaldi eru áætlaðir 3,3 milljarðar á árinu 2003. Samkvæmt lauslega áætluðu mati greiða einstaklingar 35--40% af stimpilgjaldinu en fyrirtækin 60--65%.

Herra forseti. Það hefur áður komið fram að skuldir heimilanna í landinu eru taldar vera um 175% af ráðstöfunartekjum þeirra. Þess vegna held ég að það sé mjög gott á þessum tímapunkti að stíga það fyrsta skref sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir leggur til í þessu frv. við að afnema í áföngum þann rangláta skatt sem stimpilgjaldið er.

Herra forseti. Það hefur oft verið mælt fyrir málum á hinu háa Alþingi. Ég er nú að mæla fyrir frv. sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hefði viljað flytja og fylgja eftir með sínum alkunna baráttuvilja. Þetta er mál sem við ættum ekki að þurfa að karpa um á Alþingi heldur ættum við, allir stjórnmálaflokkar á Íslandi, að einhenda okkur í að afnema þessa ranglátu skattheimtu.