Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 17:11:30 (3613)

2003-02-06 17:11:30# 128. lþ. 74.17 fundur 130. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (félagsgjöld til stéttarfélags) frv., Flm. ÖS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[17:11]

Flm. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. sem ég flyt ásamt hv. þm. Margéti Frímannsdóttur, Jóhönnu Sigurðardóttur og Sigríði Jóhannesdóttur um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, með síðari breytingum.

Efnislega er þetta frv. ákaflega einfalt. Það leggur til að félagsgjöld sem launþegar greiða til stéttarfélaga verði frádráttarbær frá skatti. Rökin fyrir þessu, herra forseti, eru einföld. Að vinnumarkaðnum standa tvenns konar aðilar, annars vegar verkalýðshreyfingin og hins vegar atvinnurekendur. Yfirskattanefnd hefur markað þá stefnu að félagsgjöld sem fyrirtæki greiða til Samtaka atvinnurekenda megi draga frá stofni tekjuskatts. Það hefur hins vegar ekki verið heimilt til þessa að félagsgjöld sem launþegar greiða til stéttarfélaga sinna verði frádráttarbær frá skatti. Þetta tel ég vera ákaflega mikið ranglæti. Ég sé engin rök fyrir þessu misræmi. Þetta felur í sér ranglæti, jafnt gegn launamönnum sem verkalýðshreyfingunni sjálfri og ég dreg í efa, herra forseti, að þetta standist jafnræðisreglu.

Settar hafa verið ákveðnar leikreglur í okkar lýðræðislega samfélagi. Þær hafa sem grunnstef að engum sé mismunað. Við höfum alltaf virt þá aðila sem standa að vinnumarkaðnum. Við höfum sýnt Samtökum atvinnurekenda virðingu og við sem stundum höfum barist gegn ýmsu því sem þeir hafa beitt sér fyrir höfum eigi að síður tekið ofan fyrir samtakamætti þeirra, og ég sé ekkert athugavert við það því að í krafti þess samtakamáttar tókst Samtökum atvinnurekenda að ná þessu fram fyrir sína meðlimi. Það er hluti af leikreglum lýðræðisins að samtökum sem standa að vinnumarkaðnum sé gert kleift að starfa eðlilega.

Fyrirtækin sem eru aðilar að Samtökum atvinnurekenda greiða stórar fjárhæðir í sjóði þeirra. Þessar fjárhæðir standa undir rekstri samtakanna og hafa látið ýmislegt gott af sér leiða. Átök millum Samtaka atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar hafa með vissum hætti verið undirtónninn í kjaraþróun og hinni félagslegu þróun samfélagsins á síðustu öld. Ef Samtökum atvinnurekenda, herra forseti, er gert kleift að fjármagna sig með þessum hætti og auðveldað af ríkisins hálfu að gera það svona finnst mér ekki hægt að meina verkalýðshreyfingunni að hið sama gildi fyrir þá sem innan hennar vébanda starfa.

Herra forseti. Þetta er einfalt mál, þetta er réttlætismál og það nýtur mikils stuðnings meðal verkalýðshreyfingarinnar. Ég tel að það sé ákaflega mikilvægt að þetta mál fái t.d. umsögn Samtaka atvinnurekenda. Eins og ég sagði áðan ber ég virðingu fyrir þeim samtökum og fyrir þeim krafti sem oft hefur fylgt þeim. Mér hefur á stundum fundist ýmislegt skorta upp á réttlætiskenndina hjá þeim. Ég verð hins vegar að segja að á undanförnum árum hefur tekist alveg prýðileg samvinna með þeim og samtökum innan verkalýðshreyfingarinnar og ég vil gjarnan sjá hvaða afstöðu Samtök atvinnurekenda taka til þessa máls.

Það skiptir hins vegar máli að skattkerfið sé réttlátt. Það er hægt að benda á margt í núverandi skattkerfi sem ekki er beinlínis hægt að bendla við fullkomið réttlæti. Við þingmenn Samfylkingarinnar höfum verið iðin við að benda á ýmsar misfellur sem við hyggjumst breyta til batnaðar þegar við komumst að landstjórninni. Þetta er eitt af þeim málum. Þetta er ekki stórt mál. Þetta er ekki dýrt mál fyrir ríkið. Þetta er hins vegar réttlætismál.

[17:15]

Ég tel líka að ef við horfum á efnahagsþróunina, herra forseti, megi segja að ríkisstjórnin sem nú situr við völd skuldi verkalýðshreyfingunni drjúgum. Við vitum öll að efnahagslífið var á brauðfótum fyrri part þessa kjörtímabils. Við vissum að það munaði ekki miklu að hér slitnuðu bönd af verðbólgu. Við sáum hvernig gengið fór um nokkra hríð og við sáum hvernig ákveðin óáran greip um sig. Ríkisstjórnin flaut sofandi að feigðarósi. Hún tók sjálf ákveðið frumkvæði í því að kynda undir verðbólgubálinu með því að samþykkja frumvörp á síðasta ári sem beinlínis leiddu til hækkunar á verðlagi. Þá var það verkalýðshreyfingin sem stappaði niður fæti og sagði: Hingað og ekki lengra. Það var að frumkvæði hennar sem fyrst sveitarfélög, ekki síst Reykjavíkurborg, sem þá laut stjórn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, eins af leiðtogum Samfylkingarinnar, og önnur stærri sveitarfélög tóku af skarið og féllust á þessa kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar. Í kjölfarið kom svo ríkisstjórnin. Eins og við þingmenn Samfylkingarinnar sögðum á sínum tíma átti ríkisstjórnin hrós skilið fyrir að hafa hlýtt ráðum verkalýðshreyfingarinnar. En á hinu háa Alþingi stóðum við þingmenn Samfylkingarinnar og studdum þær aðgerðir ríkisstjórnarinnar, við studdum málflutning verkalýðshreyfingarinnar. Þetta hefur leitt til þess, herra forseti, þótt deila megi um það hvort sú lending í efnahagslífinu sem hæstv. fjmrh. vildi kalla snertilendingu sé í reynd mjúk eða hörð. Við sjáum að tölur um atvinnuleysi benda til þess að hún kunni að vera að þróast í mun harðari lendingu en menn töldu. Eitt er þó algerlega ljóst. Ef ríkisstjórnin hefði ekki hlýtt þeim ráðum sem verkalýðshreyfingin setti fram, þrýsti fram, þá hefði stefnt hér í óefni.

Ég nefni þetta, herra forseti, vegna þess að æ sér gjöf til gjalda. Mér finnst að ríkisstjórnin eigi að horfa á þetta mál undan því sjónarhorni sem ég nefndi áðan, þ.e. að verkalýðshreyfingin hefur reynst dyggur stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar alveg eins og Samfylkingin í baráttunni gegn verðbólgu, í baráttunni fyrir því að viðhalda stöðugleika. Verkalýðshreyfingin hafði samninga sem hún hefði getað notað til þess að segja upp launalið og fara í harðar kjaradeilur. Forusta verkalýðshreyfingarinnar tók ábyrga afstöðu alveg eins og Samfylkingin tók ábyrga afstöðu. Þessi þrenning, verkalýðshreyfing, obbi stjórnarandstöðunnar og ríkisstjórnin, vann saman að því að viðhalda þó þeim stöðugleika sem hér er í dag.

Herra forseti. Þetta mál gengur út á það eitt að verkalýðshreyfingin njóti jafnræðis á við atvinnurekendur. Atvinnurekendur fá að draga frá tekjuskattsstofni þær fjárhæðir sem fyrirtæki innan þeirra vébanda greiða þeim í félagsgjöld. Það er sjálfsagt réttlætismál að almennir liðsmenn verkalýðshreyfingarinnar fái sömuleiðis að draga frá stofni síns tekjuskatts þau gjöld sem þeir inna af höndum sem félagsmenn í sjóði verkalýðshreyfingarinnar. Þess vegna mælist ég til þess, herra forseti, að þegar frv. hefur farið í gegnum 1. umr. verði því vísað til efh.- og viðskn. og mun sem fulltrúi Samfylkingarinnar í henni beita mér fyrir því að þetta litla en sjálfsagða réttlætismál nái fram að ganga.