Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 17:19:59 (3614)

2003-02-06 17:19:59# 128. lþ. 74.17 fundur 130. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (félagsgjöld til stéttarfélags) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[17:19]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Það frv. sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur flutt sýnir að oft þurfa frv. ekki að vera stór um sig til að fela í sér aukið jafnrétti og sjálfsagðar breytingar á skattkerfi þar sem menn hafa komið auga á mismun sem er óþolandi og ekki er hægt að sætta sig við, a.m.k. ekki frá hendi okkar jafnaðarmanna. Flm. bendir á það sjálfsagða atriði sem í raun og veru er mjög furðulegt að skuli vera við lýði, að félagsgjöld sem atvinnurekendur greiða til stéttarsambands síns skuli dragast frá tekjuskattsstofni fyrirtækja áður en lagt er á en hins vegar að félagsgjöld sem launþegar greiða til stéttarféalga skuli ekki vera frádráttarbær frá skatti. Í þessu felst mismunun og ég segi, herra forseti, að þetta er lítið mál í raun og veru en ákaflega sanngjarnt og þess vegna trúi ég ekki öðru en að hv. efh.- og viðskn. muni taka frv. upp á sína arma og gera þetta að tillögu sinni til þingsins og við munum klára þetta fyrir vorið.

Herra forseti. Fram hefur komið hjá nokkrum verkalýðsfélögum, sérstaklega á landsbyggðinni, t.d. verkalýðsfélagi Húsavíkur sem er stýrt af ákaflega baráttuglöðum mönnum sem taka oft mál í sínar hendur, álykta um þau og benda á málefni sem betur mega fara, að þau hafa svo sannarlega tekið undir það mál sem hér er flutt. Við höfum áður í dag, og það er rétt að nefna það, herra forseti, að þessi dagur hefur verið má segja dagur umræðna um jafnrétti, aukið jafnrétti á Íslandi og það er eðlilegt að við þingmenn Samfylkingarinnar, jafnaðarmenn í Samfylkingunni skulum hafa haft umræðu uppi um þetta litla mál. Það er nefnilega svo að forverar okkar í Alþýðuflokki, Alþýðubandalagi og Kvennalista voru brautryðjendur í jafnréttismálum á Íslandi. Og það er þar sem Samfylkingin hefur tekið upp sem gunnfána sinn frá þessum gömlu flokkum og berst fyrir auknu jafnrétti í landinu, gegn misrétti, gegn mismun og hér gegn mismun stéttarfélaga og Samtaka atvinnulífsins. Með öðrum orðum, herra forseti, í dag höfum við verið að ræða um hvernig þungaskattur og aðrir skattar ríkisins á flutningastarfsemina í landinu mismunar þegnum landsins. Lagðir eru á landsbyggðarskattar sem landsbyggðarfólk þarf að borga vegna þess að þangað þarf að flytja vörur af því að það býr í örlítilli fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu.

Við höfum einnig rætt um skattkerfi fyrirtækja. Hæstv. ríkisstjórn hefur gert breytingar á skattkerfi fyrirtækja sem eru mjög ósanngjarnar vegna þess að misrétti er beitt milli höfuðborgarfyrirtækja og fyrirtækja á landsbyggðinni. Það hefur áður komið fram, herra forseti, að fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu muni græða um 3 milljarða á þeirri skattkerfisbreytingu meðan öll önnur fyrirtæki í öllum öðrum skattumdæmum landsins munu að meðaltali ekki hagnast um eina einustu krónu. Þetta er óþolandi mismunun, þetta er óþolandi misrétti og þetta eru hlutir sem ættu ekki að eiga sér stað í upphafi nýrrar aldar.

Það er eitt mál í viðbót, herra forseti, sem ég ætla að nefna í lok þessa dags. Það er mál sem ég flutti í forföllum hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur, um stimpilgjöld, og ætla ég ekki að endurtaka það sem nýsagt er í því. En auðvitað er það mjög ósanngjörn skattheimta. Það er nú svo, herra forseti, að vafalaust finnst öllum skattur sem þeir greiða vera mjög ósanngjarn. En ég held að við getum, sama hvar í flokki við stöndum, komist að samkomulagi um að það sem við höfum nefnt hér sé sanngirnismál að leiðrétta. Þess vegna er eðlilegt, herra forseti, að þetta litla mál sem þó skiptir svo miklu varðandi jafnrétti, að eyða mismun, sé flutt af hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, formanni Samfylkingarinnar, og má segja að þessi dagur sé í takt við það sem okkar stefna snýst um í dag, það er að breyta þjóðfélaginu frá misrétti til jafnaðar og jafnréttis. Og það er eiginlega það sem ég hygg að þjóðin muni greiða atkvæði um 10. maí nk. í komandi alþingiskosningum, um framtíðarstefnu landsins og ég er viss um að þjóðin mun kjósa aukið jafnrétti.