Náttúruvernd

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 17:28:03 (3616)

2003-02-06 17:28:03# 128. lþ. 74.18 fundur 131. mál: #A náttúruvernd# (rekstur þjóðgarða) frv., Flm. ÖS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[17:28]

Flm. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Við þingmenn Samfylkingarinnar höfum lagt fram þáltill. um stofnun sérstaks þjóðgarðs um þau svæði sem ósnortin eru norðan og norðaustan Vatnajökuls. Við höfum rétt fram sáttarhönd til þeirra sem hafa strítt í deilum um virkjun við Kárahnjúka. Við höfum í reynd sagt að hægt væri að fara bil beggja og jafnvel þó að menn leyfi virkjun við Kárahnjúka, sé eigi að síður nauðsynlegt að slá skjaldborg um þau friðuðu svæði sem eftir eru á hálendinu á þessu mikla flæmi. Við höfum jafnframt í þeirri þáltill. skýrt út sjónarmið okkar um hvernig beri að reka þjóðgarðinn.

Herra forseti. Aðkoma að honum, ef af stofnun hans verður, yrði hugsanlega úr þremur kjördæmum. Mörg sveitarfélög liggja að hinum fyrirhugaða þjóðgarði. Við höfum sem flokkur valddreifingar lagt til að í vaxandi mæli verði verkefni ríkisins flutt út til sveitarfélaga og jafnvel eftir því sem við á til einstaklinga líka.

Hins vegar er það þannig, herra forseti, að núgildand lög um Náttúruvernd ríkisins heimila ekki að Náttúruverndin feli sveitarstjórnum umsjón þjóðgarða eða náttúruverndarsvæða. Þjóðgarður er samkvæmt nýlegum náttúruverndarlögum skilgreindur sem náttúruverndarsvæði og í þeim lögum er sömuleiðis að finna heimild til þess að fela einstaklingum eða lögaðilum umsjón og rekstur slíkra svæða. Ég studdi það á sínum tíma, herra forseti, meðan ég var umhvrh. og beitti mér fyrir því að einstaklingar og eftir atvikum fyrirtæki gætu fengið heimild til að reka slík svæði.

Þegar núv. hæstv. umhvrh., Siv Friðleifsdóttir, lagði fram frv. sem síðar varð að lögum með nokkuð almennum stuðningi í þinginu var hins ekki gert ráð fyrir því að Náttúruverndin gæti falið sveitarstjórn eða eftir atvikum sveitarstjórnum sem eiga land að þjóðgarði, umsjón og rekstur hans. Ef þáltill. okkar um stofnun þjóðgarðs norðan og norðaustan Vatnajökuls verður samþykkt og þjóðgarðurinn verður að veruleika, þá er eins og nú er í pottinn búið ekki lagaheimild fyrir því að fela sveitarstjórnum rekstur eða umsjón hluta af þjóðgarðinum. Þetta tíðkast hins vegar sums staðar erlendis með ákaflega góðri raun.

Við viljum þess vegna til að fyllsta samræmis sé gætt millum viðhorfa okkar gagnvart lagarammanum sjálfum og annars vegar þessarar þáltill. okkar, setja undir þennan leka með því að leggja til að lögum um náttúruvernd verði breytt þannig að Náttúruvernd ríkisins geti falið sveitarstjórn umsjón og rekstur þjóðgarðs. Um það snýst frv., herra forseti, og ég legg til að þegar þessari umræðu lýkur verði málinu vísað til umhvn.