Rannsókn á áhrifum háspennulína á mannslíkamann

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 17:46:09 (3619)

2003-02-06 17:46:09# 128. lþ. 74.19 fundur 141. mál: #A rannsókn á áhrifum háspennulína á mannslíkamann# þál., Flm. DrH
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[17:46]

Flm. (Drífa Hjartardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir stuðninginn við tillöguna. Ég met mikils álit hans. Tillagan er ekki lögð fram til þess að vera með neinn hræðsluáróður. Það eru engar bábyljur eða töframennska í þessu. Þetta er alveg háalvarlegt mál. Eins og kom fram í máli mínu er mjög athyglisvert hvernig Ingimundur Sveinsson arkitekt hefur hannað húsið fyrir Marel með tilliti til þess hvernig komast megi hjá rafmengun.

Faraldsfræðileg rannsókn tekur langan tíma. Ég tek undir með hv. þm. að það þyrfti að reyna að finna aðrar leiðir til þess að draga úr rafmengun. Það er hægt og það þarf náttúrlega sérfræðinga til að koma að þeim málum. Það er hægt að draga úr rafmengun frá tölvum og alls konar rafmagnstækjum og að því er sífellt verið að vinna. Þessi tillaga er ekki lögð fram til þess að hræða fólk heldur til þess að vinna bug á þessu ef það getur leitt til færri krabbameinstilfella.

Eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði eru margir mjög næmir fyrir einmitt þessum bylgjum, rafsegulbylgjum og rafmagni. Ég hef eins og hann heyrt margar sögur af því að fólk geti ekki sofið og að sár grói seint og margir telja að allt of mörg krabbameinstilvik hafi komið upp á ákveðnum svæðum í borgum og bæjum vegna þess að húsin eru nálægt háspennumannvirkjum.