Þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 18:10:05 (3622)

2003-02-06 18:10:05# 128. lþ. 74.20 fundur 142. mál: #A þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum# þál., Flm. ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[18:10]

Flm. (Ásta Möller) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ósammála því sem kom fram hjá hv. þm. Halldór Blöndal að þáltill. sé vanhugsuð og byggð á ókunnugleika. Hún er þaulhugsuð og byggð á kunnugleika. Ég legg til að þingmaðurinn lesi betur þáltill. vegna þess að hér er ekki um það að ræða að leggja skatt á landsmenn eða ferðamenn, skatt sem mundi flytjast til Reykjavíkur, öðru nær. Ég held að við séum sammála um að ekki er vanþörf á uppbyggingu á þessum svæðum sem við höfum verið að ræða hér um, m.a. í Ásbyrgi og Hljóðaklettum, Öskju og slíkum stöðum, til þess að bæta aðstöðu ferðamanna. Hugmyndin er sú að þjónustugjald sem hér er lagt til að verði lagt á verði nýtt til uppbyggingar á þessum stöðum, þannig að aðstaða í Dimmuborgum, Öskju og á öðrum þeim svæðum sem hér hafa verið nefnd til sögunnar mundi batna einmitt með því fjármagni sem kemur til þessara staða. Hugmyndin er ekki að flytja --- það er ekki heimild fyrir því samkvæmt lögum, eins og kom fram í ræðu minni, að flytja þetta fjármagn sem verður til á einum stað til annars. Með því að þjónustugjaldið yrði lagt á mætti m.a. bæta veginn upp að Hljóðaklettum, það mætti leggja betri göngustíga og gera betri öryggislínur við Dettifoss o.s.frv.

Við erum ekki heldur að tala um neinar háar upphæðir. Við erum að tala um 200--250 kr. en það eru þær hugmyndir sem hugleiðingar mínar snúast um og tek ég þar m.a. mið af gjaldi, þjónustugjaldi sem t.d. Kanadamenn greiða til þess að fara inn í þjóðgarða sína, en það er á bilinu 130--350 kr. á mann eftir því hvort um er að ræða barn, fullorðinn eða eftirlaunaþega.

Ég held því að þessi tillaga geti leitt til þess að bæta verulega aðstöðuna á fjölsóttum ferðamannastöðum.