Þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 18:16:40 (3625)

2003-02-06 18:16:40# 128. lþ. 74.20 fundur 142. mál: #A þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[18:16]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki einu sinni komið bundið slitlag upp í Mývatnssveit frá Akureyri. Því fer víðs fjarri að það sé komið bundið slitlag á hringveginn frá Mývatnssveit til Egilsstaða, hvað þá frá Egilsstöðum til Hafnar í Hornafirði. Þjóðvegurinn í þjóðgarðinum meðfram Jökulsá að vestan opnast ekki, eins og ég sagði áðan, fyrr en kannski um miðjan júní, kannski í júlí.

Hvernig í ósköpunum, herra forseti, er svo hægt að tala um að fara að skattleggja þetta fólk? Þetta aumingja fólk sem þarna er að berjast í ferðaþjónustu má hafa sig allt við til þess að reksturinn standi undir sér og það verði því ekki ofviða að standa undir þeirri fjárfestingu sem það hefur ráðist í. Á sama tíma og menn eru þannig að leggja sig alla fram um það að byggja upp lágmarksþjónustu, algjöra lágmarksþjónustu, fyrir gesti og gangandi er byrjað að tala um að ríkið ætli að fara að hirða til sín.

Er ríkinu nokkur ofrausn í því að styrkja þessar fámennu byggðir? Er ekki allt í lagi að ríkið komið eitthvað til móts við staði eins og Kelduhverfi og reyni aðeins að leggja sína hönd á plóginn þar? Og væri ekki nær að ríkið reyndi að ganga í það að nýta þann jarðhita sem þar er og koma honum upp í Ásbyrgi svo hægt sé að byggja þar upp sómasamlega aðstöðu til að taka á móti fólki og með þeim hætti sýna að það er ekki alltaf hugmyndin bara að taka?

Það var einhvern tíma talað um að menn mættu ekki hafa eina hönd, bara þá sem tekur. Þess vegna segi ég að mér finnst algjörlega út í hött ef það á að fara að skattleggja þá sem leggja leið sína á þessa staði.