Þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 18:34:33 (3629)

2003-02-06 18:34:33# 128. lþ. 74.20 fundur 142. mál: #A þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum# þál., Flm. ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[18:34]

Flm. (Ásta Möller):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram þó að ég hefði kosið að fleiri jábræður og jásystur fylgdu mér í stólinn til að styðja tillögu mína. En það eru samt sem áður til þingmenn hér inni sem eru sammála mér í þessum efnum.

Tilgangur minn með að leggja fram þessa þáltill. var fyrst og fremst að fá fram umræðu um þetta mál. Ég geri mér grein fyrir því að þetta er umdeilt. Það hafa verið deilur um þessi mál, m.a. innan ferðaþjónustunnar, en hins vegar er það ekki rétt sem hér kom fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar, að meiri hluti nefndar Vegagerðarinnar, Ferðamálaráðs og Samtaka ferðaþjónustunnar, væri mótfallnir tillögu í þessa veru. Reyndar er segir í umsögn Ferðamálaráðs að þeir séu samþykkir þessu. Ferðamálaráð er samþykkt gjaldtöku svo framarlega sem þar er þjónustugjald en ekki aðgangseyrir.

Ég vísa í grg. með þáltill. minni þar sem fjallað er um skýrslu um tekjuöflun af náttúruperlum frá 1999, sem hv. þm. Ögmundur Jónasson vísaði til. Þá fjallaði nefndin um innheimtu aðgangseyris af friðlýstum svæðum. Meiri hluti nefndarinnar var mótfallinn þessu, að það væri aðgangseyrir. Ég legg á það áherslu að í þessari þáltill. er ég ekki að tala um aðgangseyri, ég er að tala um þjónustugjald. Ég er ekki að tala um skatt, ég er að tala um þjónustugjald.

Við gætum með sama hætti kallað aðgangseyri að sundstöðum skatt, en það er þjónustugjald. Það stendur reyndar ekki undir rekstri sundstaðanna, er aðeins upp í nös á ketti, sem það kostar að reka sundstaðina. Á sama máta er ég að tala um þjónustugjald sem stendur undir ákveðinni þjónustu á þessum fjölsóttu ferðamannastöðum. Ég legg áherslu á að þetta á við fjölsótta staði. Ég er ekki að tala um litla staði sem standa ekki undir þessu, þ.e. þar sem engan veginn borgar sig að rukka þjónustugjald þar sem fáir koma og sækja staðinn.

Ég er að tala um fjármagn sem verður eftir í héraði. Ég er að tala um fjármagn sem fer ekki suður og skapar ákveðin störf í héraði yfir sumartímann. Margir þingmenn hér inni hafa lýst þeirri skoðun sinni að það veiti ekki af því að finna atvinnutækifæri úti á landi. Þetta er eitt af þeim atvinnutækifærum.

Skaftafell kom hérna til umræðu og ég fjallaði einmitt um Skaftafell í grg. með þáltill. Skaftafellsþjóðgarðurinn er elsti þjóðgarðurinn hér á landi og var settur á laggirnar með miklum myndarbrag á sínum tíma. Hann var til fyrirmyndar og var í fararbroddi á þeim tíma er þjóðgarðar voru að byggjast. Hann hefur frá fyrstu tíð verið vinsæll viðkomustaður ferðamanna en því miður hefur aðstaðan og þjónustan í garðinum ekki náð að þróast í samræmi við breyttar kröfur og hugmyndir manna um rekstur þjóðgarða.

Hv. umhvn. og nefndarmenn þar komu í Skaftafellsþjóðgarð fyrir einhverjum missirum, sem varð nú í rauninni kveikjan að þessari þáltill., og ég verð að segja að maður var hálfmiður sín yfir því hvernig búið var að þjóðgarðinum. Á þeim tíma voru yfir 100 þúsund manns sem komu þar yfir sumartímann og 95% af þeim sem fóru að Skaftafelli gengu upp að Svartafossi. Gönguleiðin upp að Svartafossi var niðurtroðin --- niðurtroðið forarsvað, svo ég bara segi það eins og það er. Til viðbótar forðaðist fólk nánast að ganga göngustíginn og tróð fremur jarðveginn þar í kring. Hvað er eftir af þessu fallega svæði þegar fólk er farið að fara út um allar trissur?

Þjónustugjald í Skaftafelli mundi m.a. standa undir uppbyggingu göngustíga og vegvísum þannig að það verði ekki 95% fólksins sem fer upp að Svartafossi heldur sjái það möguleika á að fara á einhverja aðra staði, fallega staði í Skaftafelli, í skipulögðum gönguferðum á ákveðnum tíma og fái aðgang að Gestastofu.

Eins og hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason benti réttilega á áðan í ræðu sinni var aðgangur að Gestastofu nánast enginn vegna þess að fólk þurfti að borga ákveðið gjald. En ef aðgangur að Gestastofu væri hluti af þjónustugjaldinu og hluti af þjónustunni við fólkið sem kemur og nýtur náttúrunnar þá mundi það greiða þetta gjald, enda fengi það þjónustu til baka.

Það sem ég sá líka varðandi göngustígana í Skaftafelli var að að þeir voru ekki bara ljótir. Þeir voru hættulegir. Fólk vill ganga að því vísu þegar það kemur í þjóðgarða að það sé ekki hættulegt að ganga þar um. Það gerir líka kröfu til þess að þar sé ákveðin öryggisþjónusta, fólk til þess að sinna því.

Undir þessu tel ég að þjónustugjaldið eigi að standa. Það er ekki ,,góngjald``, ekki ,,glápgjald``, ég er ekki að tala um það. Ég er að tala um að gjaldið standi undir ákveðinni uppbyggingu og tiltekinni þjónustu. Áðan var rætt um að fólk borgar núna fyrir tjaldleyfi. Mín hugmynd er sú að um leið og fólk borgar tjaldleyfið sé inngangur á staðinn innifalinn.

Í grg. hef ég einnig gert ráð fyrir því, af því að það kom hérna fram í umræðunni, að fjölskylda frá Akureyri, 4--5 manna fjölskylda, sem ætlaði að fara á þá staði sem til greina kæmu að innheimta þjónustugjald fyrir þarna fyrir norðan. Þá mætti vel hugsa sér að menn keyptu kort sem væri aðgangur að öllum þessum stöðum í einu. Þá mundi athyglin líka beinast nákvæmlega að þessum stöðum. Fólk mundi gera sér ferð til að skoða þá staði sem sérstök áhersla hefur verið lögð á að byggja upp, úr því yrði ákveðin fræðsluferð, hvort sem er austur fyrir fjall í Skaftafell, á Geysissvæðið, Gullfoss, fyrir norðan eða á Snæfellsnesi við Snæfellsjökul.

Ég þakka fyrir að þessi tillaga hafi komist í umræðuna. Þetta er í annað sinn sem hún kemur inn á þingið. Fyrir ári fór hún til nefndar án umræðu. Þetta er því í fyrsta sinn sem málið er rætt í þinginu. Reyndar varpaði ég fram fyrirspurn til hæstv. umhvrh. fyrir nokkrum missirum um þjónustugjald. Hún hefur m.a. lýst þeirri skoðun sinni að hún sé almennt hlynnt því að hafa þjónustugjald að þjóðgörðum. Ég hef fyrir framan mig frétt sem birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 9. ágúst 2001 þar sem hæstv. umhvrh. er að skoða þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum. Hún var þá nýkomin frá Kanada þar sem hún hafði skoðað þjóðgarða. Hún er þar sérstaklega spurð um þjónustugjald af gestum. Og hér segir, ef ég má vísa hér í þessa grein, með leyfi forseta:

,,Aðspurð kvaðst Siv ekki velkjast í vafa um að í framtíðinni muni innheimt þjónustugjald af gestum þjóðgarða á Íslandi. ,,Það er alveg ljóst í mínum huga, að við munum taka upp þjónustugjald, til dæmis á þeim stöðum, sem mikill fjöldi fer um, til þess að geta sinnt betur rekstri slíkra svæða,`` sagði Siv. Hún bendir á, að í nýlegri skýrslu OECD um umhverfismál á Íslandi sé lögð áhersla á mikilvægi þess að taka upp þjónustugjöld á fjölsóttum ferðamannasvæðum.``

Neðar í greininni segir síðan, með leyfi forseta:

,,Siv segir, að Íslendingar standi á krossgötum í málefnum þjóðgarða og náttúruverndar á Íslandi. Það mikilvægasta, sem hún hafi lært í ferð sinni til Kanada hafi verið, að það gangi vel, að láta fólk greiða fyrir aðgang að þjóðgörðunum og gestir telji það sjálfsagt, enda fái það aðstöðu til að ganga um svæðið, þjónustu og fræðslu, og vel sé hugað að öryggismálum. Hún er þeirrar skoðunar, að hér á Íslandi þurfi breiðari samstarfsvettvang um málefni þjóðgarðanna og friðlýstra svæða.``

Mér er það fullkomlega ljóst að fólk er ekki sammála um þetta en ég fagna því að umræðan er komin af stað.