Þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 18:46:26 (3630)

2003-02-06 18:46:26# 128. lþ. 74.20 fundur 142. mál: #A þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[18:46]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á tvennu. Í fyrsta lagi þegar talað er um Gullfoss og Geysi þá hefur veruleg uppbygging átt sér þar stað en á hinn bóginn hefur engin sambærileg uppbygging átt sér stað í þeim þjóðgarði sem kallaður er með Jökulsárgljúfrum nema einungis í Ásbyrgi. Svo eru auðvitað tjaldstæði og leiðbeiningar upp í Vesturdal. Þau tjaldstæði voru rekin af einstaklingi en þóttu gefa það mikið af sér eftir að einstaklingurinn kom til sögunnar að mér skilst að Náttúruvernd ríkisins hafi ekki efni á að leyfa honum að reka það áfram. Látum það nú vera.

Aðalatriðið er þegar talað er um Skaftafell, og þingmaðurinn talaði þar um einhvern svartan vegslóða sem væri til skammar og fólk gengi ekki eftir honum, en á hinn bóginn skildist mér að lausnin væri sú að fara að skattleggja fólk sem gengur eftir þessum vegslóða til að einhvern tíma seinna kæmi annar betri vegslóði.

Ef hugmyndin er sú að skattleggja fólk fyrir að vera á einhverju svæði þá er óhjákvæmilegt að byrja á því að byggja upp svæðið, laga svæðið þannig að auðvelt sé að komast að því og um það. Ég vil einnig minna á að þá fylgir væntanlega sú kvöð þeim sem tekur gjaldið að bera ábyrgð á ferðamönnum innan svæðisins, innan þjóðgarðsins, ef þeir slasast eða eitthvað þvílíkt kemur fyrir, þeir hafi þá skaðabótaskyldu, og væri þá gaman að sjá hvað út úr því kæmi. Má kannski segja að eðlilegt sé að allir sem til landsins komi tryggi sig með þeim hætti, ég skal ekki um það segja.

En eins og hv. þm. heyrði eru þeir mest á móti þessu sem eru kunnugastir og meðan ekki er hægt að komast meðfram Jökulsá á Fjöllum, þá er ekki hægt að byrja á því að skattleggja menn.