Þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 18:57:24 (3637)

2003-02-06 18:57:24# 128. lþ. 74.20 fundur 142. mál: #A þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum# þál., Flm. ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[18:57]

Flm. (Ásta Möller) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit svo sem ekki hverju ég á að bæta við, mér finnst við vera farin að endurtaka okkur hérna. En það er náttúrlega ekkert um það að ræða í hugmyndum mínum að rukkunarmaður standi í miðju Víkurskarði og heimti aðgangseyri, og ég held að hv. þm. sé vísvitandi að misskilja mig í þeim efnum. Ég held að það sé orðið nokkuð ljóst hvað átt er við. Ég held að einnig sé nokkuð ljóst að ákveðin þjónusta þarf að vera til staðar til að hægt sé að ganga að þjónustugjaldi, orðið sjálft segir það. Við erum ekki að tala um aðgöngugjald, við erum að tala um þjónustugjald.

Ég held að það sem skipti náttúrlega mestu máli sé að við stöndum frammi fyrir því að við erum með aukinn ferðamannastraum Íslendinga innan lands, við erum með verulega aukinn ferðamannastraum erlendis frá og við þurfum að hlúa að landinu. Við þurfum að búa ferðamönnum góða aðstöðu þegar þeir koma hingað, hættulausa aðstöðu. Við þurfum að skapa þeim tækifæri til að njóta þeirrar náttúru sem við höfum upp á að bjóða og við þurfum að búa þeim ákveðna þjónustu. Við þurfum að passa að þessi aukni ferðamannastraumur verði ekki til þess að gengið sé á landið eins og Skaftafell er núna í hættu og ekki bara í hættu heldur er það raunveruleikinn, eins og raunveruleikinn er í Þórsmörk. Við verðum með einhverjum ráðum að finna leiðir til að auka fjármagn í þetta og OECD hefur m.a. bent á að þetta sé ein af þeim leiðum sem eigi að skoða.