Varnarskylda NATO-ríkja gagnvart Tyrklandi

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 15:03:11 (3641)

2003-02-10 15:03:11# 128. lþ. 75.1 fundur 414#B varnarskylda NATO-ríkja gagnvart Tyrklandi# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[15:03]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að beina spurningum til hæstv. utanrrh. varðandi afstöðu Íslendinga á vettvangi NATO hvað varðar áform um að virkja einhvers konar sameiginlega varnarskyldu NATO-ríkja gagnvart Tyrklandi ef eða öllu heldur kannski þegar, því miður, ráðist verður á Írak. Ég vil spyrja hæstv. utanrrh. hvort það geti verið rétt að Ísland hafi ákveðið að skipa sér þar í hóp að eðlilegt sé að öll NATO-ríki taki á sig einhvers konar ábyrgð á vörnum Tyrklands. Ekki vegna þess að Írak sé í þann veginn að ráðast inn í Tyrkland, nei, heldur öfugt, vegna þess að Bandaríkin eru í þann veginn að ráðast inn í Írak gegnum Tyrkland og Tyrkir e.t.v. með í kjölfarið inn á Kúrdasvæðin í Norður-Írak. Hverju sætir það að Ísland skuli þá ekki frekar skipa sér í hóp með Evrópuríkjum eins og Belgíu, Þýskalandi og Frakklandi sem hafa beitt valdi sínu innan Atlantshafsbandalagsins til að stöðva slíka sameiginlega varnarskyldu og nota m.a. þær röksemdir, sem ég hygg að séu fullgildar, að tækju menn slíka ákvörðun nú jafngilti það því að næstum lýsa yfir að stríð gegn Írak væri hafið?

Mig undrar mjög, herra forseti, ef það er rétt sem ráða hefur mátt af fréttum, að ríkisstjórn Íslands hafi tekið slíka afstöðu. Ég vona að það sé misskilningur og ég vona að Ísland, í anda friðarhefðar þjóðarinnar, skipi sér í öndverða sveit.

Þá vil ég einnig spyrja hæstv. utanrrh. hvernig hann útskýri það að hægt sé að líta svo á að einhvers konar sameiginleg varnarskylda í anda 5. gr. NATO-sáttmálans vakni við aðstæður af þessu tagi.