Varnarskylda NATO-ríkja gagnvart Tyrklandi

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 15:05:26 (3642)

2003-02-10 15:05:26# 128. lþ. 75.1 fundur 414#B varnarskylda NATO-ríkja gagnvart Tyrklandi# (óundirbúin fsp.), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[15:05]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Sérhvert aðildarríki Atlantshafsbandalagsins á rétt á því að fjallað sé um mál þess á grundvelli 4. gr. Atlantshafssáttmálans. Við höfum talið, Íslendingar, eins og flestar aðrar aðildarþjóðir Atlantshafsbandalagsins mjög eðlilegt að huga að vörnum Tyrklands ef kæmi til hugsanlegra átaka við landamærin þar. Það er ekki útilokað að á Tyrki verði ráðist og það vill svo til að það er einmitt fundur í fastaráði Atlantshafsbandalagsins nú kl. hálffimm þar sem Tyrkland hefur farið þess á leit að fjallað verði um þetta mál.

Íslenska ríkisstjórnin er þeirrar skoðunar að Atlantshafsbandalagið geti ekki neitað þessu á grundvelli 4. gr. Atlantshafssáttmálans og 5. gr. jafnframt. Okkur finnst þetta mál liggja augljóst fyrir, eins og flestum öðrum ríkjum Atlantshafsbandalagsins, og tökum þess vegna afstöðu á efnislegum grundvelli. Það er því rétt skilið hjá hv. þingmanni að þetta er afstaða Íslendinga eins og flestra annarra Evrópuþjóða, og ég vænti þess að eftir að Tyrkir biðja um þessa umfjöllun í fastaráðinu geti aðrar þjóðir ekki neitað þessari umfjöllun, eins og 4. gr. gerir ráð fyrir, en það kemur væntanlega í ljós eftir fundinn sem boðað er til kl. hálffimm í dag.