Varnarskylda NATO-ríkja gagnvart Tyrklandi

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 15:07:30 (3643)

2003-02-10 15:07:30# 128. lþ. 75.1 fundur 414#B varnarskylda NATO-ríkja gagnvart Tyrklandi# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[15:07]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að það sé augljóst mál að þetta er ekki bara eitthvað efnislegt, lögfræðilegt, þetta er líka pólitískt. Það kann að vera að menn eigi rétt á því að fá sín mál tekin fyrir skv. 4. gr. NATO-sáttmálans en hitt er augljóst mál að það er ekkert annað en pólitísk ákvörðun og túlkunaratriði hvort menn ætli að seilast svo langt í túlkun á sameiginlegu varnarskylduákvæðunum í 5. gr. að vegna þess að Bandaríkjamenn og Tyrkir ætla að ráðast á Írak sé mögulegt að virkja þá grein til varnar Tyrkjum. Má ég minna á að þetta hefur nánast einhliða snúið í hina áttina. Tyrkir hafa ráðist yfir landamærin inn í Írak aftur og aftur en mér er ekki kunnugt um eitt einasta dæmi þar sem það hefur verið í hina áttina.

Hæstv. ráðherra segir ,,vegna hugsanlegra átaka við landamæri Tyrklands`` og ,,það er ekki útilokað að á Tyrki verði ráðist``. Er ekki dálítið bráðræði að ætla að fara svona að þessu, herra forseti? Ég minni á að þetta er til komið vegna þess að Robertson lávarður ætlar að bjóða þetta fram til fylgispektar við Bandaríkjamenn. Og er þetta þá orðin stefna Íslands, skilyrðislaus undirgefni og hlýðni við stríðshaukana í Washington?