Varnarskylda NATO-ríkja gagnvart Tyrklandi

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 15:08:48 (3644)

2003-02-10 15:08:48# 128. lþ. 75.1 fundur 414#B varnarskylda NATO-ríkja gagnvart Tyrklandi# (óundirbúin fsp.), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[15:08]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ríkisstjórn Íslands hefur tekið efnislega afstöðu til þessa máls og ég hef gert grein fyrir ástæðunni. Það liggur alveg ljóst fyrir að ef til átaka kemur er hugsanlegt að ráðist verði á Tyrkland. Tyrkir hafa af því áhyggjur.

Ég minni hv. þingmann á að á sínum tíma réðist Írak og Saddam Hussein á Ísrael og það er ekkert útilokað þegar sá maður er annars vegar. Ætli við hefðum ekki einhverjar áhyggur af eigin öryggi ef við ættum landamæri að þessu ríki? Ég býst við því. Okkur ber að virða skuldbindingar samkvæmt Atlantshafssáttmálanum, samkvæmt því sem við höfum undirgengist um gagnkvæmar skuldbindingar í öryggismálum. Það er það sem við höfum gert hvort sem hv. þingmanni líkar betur eða verr. Við höfum einfaldlega virt þær skuldbindingar sem Ísland gekkst undir þegar við gengum í Atlantshafsbandalagið.