2003-02-10 15:14:18# 128. lþ. 75.1 fundur 415#B afstaða ríkisstjórnarinnar til tillögu Frakka og Þjóðverja í Íraksdeilunni# (óundirbúin fsp.), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[15:14]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Hugmyndir Frakka og Þjóðverja eru góðra gjalda verðar enda fjalla þær um það að auka eftirlit í Írak. Næstkomandi föstudag, eins og hv. þm. gat um, mun Hans Blix kynna sjónarmið sín í sambandi við vopnaeftirlitið þar sem m.a. mun væntanlega koma fram hvort hann telur einhverja þörf á því að fjölga vopnaeftirlitsmönnum. Því miður eru flestir sammála um það, hvar sem þeir standa í þessu máli, að Írakar hafi ekki komið fram í samræmi við ályktun Sameinuðu þjóðanna nr. 1441 og hafi reynt að fela efnavopn og önnur gereyðingarvopn. Hvort það muni eitthvað breytast með því að fjölga eftirlitsmönnum skal ég ekki fullyrða neitt um en allar þjóðir heims bíða eftir því sem gerist nk. föstudag. Það getur orðið mjög ráðandi um það hvað verður í framhaldinu.

Eins og allir aðrir Íslendingar vonast ég eftir því að ekki komi til átaka vegna þess að stríð á þessu svæði er mjög vondur kostur fyrir heimsbyggðina. Óbreytt ástand er líka vondur kostur miðað við allar þær hörmungar sem eru í Írak. Besti kosturinn er að sjálfsögðu að Saddam Hussein fari frá völdum og ný ríkisstjórn geti tekið við í Írak sem virðir lýðræðislega stjórnarhætti og geti notið aðstoðar heimsbyggðarinnar við að byggja upp á nýjan leik. Það er rétt sem hv. þm. sagði að það sem gerist næsta föstudag getur orðið mjög ráðandi um framhaldið og við, eins og aðrir, hljótum að binda vonir við það og trúa á það að Hans Blix og menn hans komi með tillögur sem hugsanlega geti afstýrt átökum.