Fullgilding Árósasamningsins

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 15:23:41 (3654)

2003-02-10 15:23:41# 128. lþ. 75.1 fundur 416#B fullgilding Árósasamningsins# (óundirbúin fsp.), KolH
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[15:23]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég lýsi vonbrigðumm mínum með það að ráðherrann skuli ætla að láta þetta dankast enn um sinn en lýsi um leið ánægju minni með það að hann skuli hafa staðfest að hér verði stjórnarskipti eftir næstu kosningar. Ég vona að sú ríkisstjórn sem tekur við völdum gangi fram í þessum málum þannig að sómi verði að.

Hæstv. ráðherra segir ekki auðvelt að standa undir þessum skuldbindingum ,,miðað við íslenskar aðstæður``. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Við hvað á hann? Eru aðstæður okkar eitthvað öðruvísi en nágrannalanda okkar sem sum hafa þegar lögfest þennan samning og önnur hafa viðurkennt grundvallarreglur hans? Þjóðir eins og Noregur hafa séð til þess að aðildarskortur í málum er varða umhverfisvernd þvælist ekki fyrir dómstólunum sem hann greinilega gerir hér. Nú erum við að tala um ákveðið mál sem verið er að reka fyrir íslenskum dómstólum og það er með ólíkindum hvað búið er að þvæla það í formlegheitum og gera félagasamtökum í því máli erfitt fyrir að nálgast dómstólana og ná þar fram rétti sínum.