Fullgilding Árósasamningsins

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 15:26:07 (3656)

2003-02-10 15:26:07# 128. lþ. 75.1 fundur 416#B fullgilding Árósasamningsins# (óundirbúin fsp.), KolH
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[15:26]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Stjórnir hafa haft tilhneigingu til að sitja áfram þrátt fyrir kosningar, jafnvel þótt annað mætti lesa út úr vilja kjósenda en ríkisstjórnirnar kjósa að lesa út úr niðurstöðunum. En látum það liggja á milli hluta og höldum okkur við málefnið sem hér er til umræðu, þ.e. aðild Íslands að Árósasamningnum.

Auðvitað er ekki verið að ræða um það hér að frjáls félagasamtök hafi einhvern lögbundinn rétt til að koma í veg fyrir framkvæmdir. Það veit hæstv. utanrrh. fullvel og það er útúrsnúningur að halda slíku fram. Hins vegar er sannleikurinn sá að íslensk félagasamtök á sviði umhverfismála eiga ekki greiðan aðgang að dómstólum með sín mál eins og ég nefndi dæmi um. Það er andstætt við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum. Þar hefur allt verið gert í anda Árósasamningsins til að opna leiðir umhverfissamtaka að dómstólum til þess að tryggja það að ríkisstjórnir beiti ekki gerræðislegum aðferðum á borð við þá sem íslenska ríkisstjórnin beitti þegar úrskurði Skipulagsstofnunar um Kárahnjúkavirkjun var snúið við með pólitísku handafli.