Brot á reglugerð um grásleppuveiðar

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 15:27:35 (3657)

2003-02-10 15:27:35# 128. lþ. 75.1 fundur 417#B brot á reglugerð um grásleppuveiðar# (óundirbúin fsp.), GE
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[15:27]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. sjútvrh. Þetta mál hefur áður verið til umræðu. Reglugerð um þennan nytjastofn, þ.e. grásleppu, varð til eftir umræður hér og fyrirspurnir undir þessum lið.

Nú stendur málið þannig að það er óheimilt að landa grásleppu úr öðrum veiðarfærum en grásleppunetum og af bátum sem hafa leyfi tl veiðanna. Það virðist því vera tekið almennt á ákveðnum brotum á reglugerðum varðandi fiskveiðar en ekki þegar kemur að því að fylgja eftir brotum við grásleppuveiðar. Nú þegar er búið að landa um það bil 20 tonnum af hrognkelsum á mörkuðum og allir sem til þekkja vita að þó að grásleppan náist í önnur veiðarfæri en til þess gerð á að sleppa henni aftur í sjó. Hún er eitt af þeim sjávardýrum sem þola nokkurn tíma á þurru og lifir af verði hún sett í sjó að nýju. Því spyr ég: Hvernig stendur á því að það er látið óátalið að landa þessari fisktegund án afskipta? Á bara að fara eftir sumum reglugerðum samanber umrædd tilvik? Ég spyr hæstv. sjútvrh.: Til hvaða aðgerða ætlar hann að grípa í þessu tilviki?