Starfslok fyrrverandi forstjóra Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 15:42:06 (3660)

2003-02-10 15:42:06# 128. lþ. 75.28 fundur 551. mál: #A starfslok fyrrverandi forstjóra Landssíma Íslands hf.# þál., PHB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[15:42]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Nú er verið að greiða atkvæði um að vísa til síðari umr. þáltill. hv. þingmanna Samfylkingarinnar sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að birta nú þegar skýrslu þá sem tekin var saman af Ríkisendurskoðun um starfslok fyrrverandi forstjóra Landssíma Íslands hf. og tengd efni á árinu 2002.``

Því miður get ég ekki greitt atkvæði með því að þessi þáltill. verði rædd frekar því að hún er stjórnskipulega röng. Hv. Alþingi hefur ekkert beint vald yfir hlutafélaginu Landssíma Íslands hf. Landssíminn er ekki lengur stofnun ríkisins.

Það er hluthafafundur sem markar stefnu fyrir hlutafélag og kýs því stjórn. Á þeim vettvangi mætti afla umræddra upplýsinga. Ekki gengur að skylda fyrirtækið til að birta skýrslu þá sem tekin var saman af Ríkisendurskoðun um starfslok fyrrverandi forstjóra Landssíma Íslands hf. og tengd efni á árinu 2002 þar sem hún var ekki ætluð til birtingar og gæti innihaldið annað óskylt efni sem kynni að skaða fyrirtækið ef birt yrði.

Þetta mál fékk enga umræðu þar sem hv. frsm. var ekki til staðar á fimmtudag þegar málið var til umræðu og því bendi ég á þetta hér. Ég segi nei.