Skráning skipa

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 16:21:26 (3672)

2003-02-10 16:21:26# 128. lþ. 75.29 fundur 157. mál: #A skráning skipa# (þurrleiguskráning fiskiskipa) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[16:21]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég skal játa að ég legg við hlustir þegar Farmanna- og fiskimannasambandið, sjómannasamtökin, Vélstjórafélag Íslands, Samtök smábátaeigenda og Alþýðusamband Íslands tala einum rómi og vara okkur við því að samþykkja tiltekið lagafrv. Það á við um það frv. sem nú er til umfjöllunar.

Staðreyndin er sú að á höfum heimsins hefur farið fram mjög harðvítug kjarabarátta undir mjög neikvæðum formerkjum á undanförnum árum og áratugum. Hún á sér stað þannig að útgerðir reyna að undirbjóða hver aðra með því að bjóða upp á eða tryggja sem lökust kjör og þar með minnstan tilkostnað fyrir útgerðina. Þetta er samkeppnin og Íslendingar hafa því miður ekki farið varhluta af henni og þar eiga í hlut helstu skipafélög landsins. Eimskipafélag Íslands og Atlantsskip hafa ekki farið að samningum, íslenskum samningum, ekki virt íslenska samninga á sínum skipum. Við höfum fengið að kynnast því á undanförnum árum þegar íslenskir sjómenn, ekki síst úr Sjómannafélagi Reykjavíkur sem hafa haldið þessum baráttufána að húni á undanförnum árum, hafa reynt að stöðva skip sem eru á vegum þessara félaga en eru að koma hingað til hafnar með áhafnir sem eru á kjörum langt undir því sem viðgengst í íslenskum kjarasamningum og jafnvel í alþjóðlegum samningum sem Alþjóðaflutningaverkamannasambandið leggur áherslu á að séu virtir.

Og nú erum við að stíga enn lengra út á þessa braut. Þetta frv. gerir ráð fyrir því að heimila að íslensk skip sem skráð eru á íslenska skipaskrá séu jafnframt skráð svokallaðri þurrleiguskráningu á erlenda skipaskrá. Hvers vegna er þetta til komið? Jú, að kröfu útgerðarmanna, að kröfu útgerðanna. Það vekur athygli þegar grg. með frv. er athuguð, að fulltrúar sjómanna, Alþýðusambandsins eða sjómannasamtakanna hafa ekki komið nærri samningu þessa frv. Það eru fulltrúar úr embættismannakerfinu fyrst og fremst, en síðan kemur fram í þessum texta að þetta sé allt blessað í bak og fyrir af hálfu útgerðarmanna. En öll þessi samtök sem ég hef vísað til hafa varað okkur við þessu.

Það mun hafa komið fram í máli fulltrúa útgerðarinnar sem komu fyrir samgn. þingsins að kjarasamningar íslenskra sjómanna leiddu til svo mikils launakostnaðar að trauðla væri rekstrargrundvöllur fyrir sókn á fjarlæg fiskimið undir íslenskum fána og íslenskum kjarasamningum. Þetta er ástæðan fyrir því að samtök sjómanna eru mjög gagnrýnin á þessa tvöföldu skráningu skipa eða er ein helsta ástæða þess. Sú gagnrýni lýtur bæði að kjaramálum, öryggismálum og atvinnuréttindamálum. Eins og segir í nál. 2. minni hluta samgn., með leyfi forseta: ,,Erfitt verði að halda úti því skipulagi að kjara- og öryggismál breytist eftir því hvort skip er að fara út úr eða að koma inn í íslenska lögsögu.``

Einnig kemur fram að um allt það sem lýtur að öryggi og starfsumhverfi kjaramálum, tryggingamálum, og eins og ég gat um, atvinnuréttindum sjómannanna, muni fara samkvæmt þeim fána sem dreginn verður að húni eftir að skipið er komið undir aðra aðila.

Hér var því haldið fram af hálfu hv. þm. Jóns Bjarnasonar að líklegt væri að aðrar áhafnir yrðu ráðnar á skipið og þá á lakari kjörum en hinar íslensku voru, og svaraði hv. þm. Hjálmar Árnason því til að hann hefði trú á því að íslensku áhafnirnar mundu fylgja skipunum, þar væri reynslan fyrir hendi. En reynslan segir einmitt að á þessum skipum eru iðulega blandaðar áhafnir, annars vegar eru þeir sem eru á íslenskum kjarasamningum og hins vegar hinir sem eru á einhverjum allt öðrum og lakari kjörum.

Ég hef kynnt mér þetta nokkuð hjá þeim skipafélögum sem ég nefndi áðan, Eimskipafélaginu, ekki í gegnum fulltrúa þess heldur fulltrúa sjómanna, og einnig hjá Atlantsskipum. Ég fór um borð í skip sem kom á vegum þess skipafélags ekki alls fyrir löngu. Í fyrsta lagi var mjög erfitt að fá upplýsingar um hver kjörin voru á skipinu. Síðan var greinilegt að áhöfnin var ekki öll á sömu kjörunum, heldur var mismunað eftir þjóðerni. Ég sá þessa kjarasamninga að vísu ekki, en þetta var sú tilfinning sem ég fékk eftir að koma þarna um borð.

Viljum við Íslendingar hafa forgöngu um að stuðla að þessari þróun á höfunum? Ég held ekki. Ég held að við eigum að taka undir með samtökum íslenskra sjómanna og við eigum að taka undir og styðja viðleitni alþjóðlegra verkalýðssamtaka á borð við Alþjóðaflutningaverkamannasambandið, um að útrýma þessu svokallaða tvíflöggunarfyrirkomulagi. Við eigum að hafa það stolt að á íslenskum skipum, sem þess vegna fara á fjarlæg mið, verði íslenskir kjarasamningar hvaðan svo sem áhöfnin á uppruna sinn.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa lengra mál um frv. Ég vil taka undir með samtökum sjómanna og varnaðarorð þeirra og get af þeim sökum ekki stutt frv.