Skráning skipa

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 16:31:22 (3674)

2003-02-10 16:31:22# 128. lþ. 75.29 fundur 157. mál: #A skráning skipa# (þurrleiguskráning fiskiskipa) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[16:31]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við eigum að sýna virðingu okkar fyrir íslenskum sjómönnum í verki með því að fara að ábendingum samtaka þeirra. Eins og ég gat um áðan og komið hefur fram í máli annarra þingmanna hafa nánast öll samtök íslenskra sjómanna, Farmanna- og fiskimannasambandið, Sjómannasambandið, Samband smábátaeigenda, Vélstjórafélag Íslands svo og Alþýðusamband Íslands ályktað gegn þessu frv. Ef við viljum sýna virðingu okkar fyrir íslenskum sjómönnum í verki þá eigum við að virða ábendingar þeirra.

Ég geri mér grein fyrir því að það hefur tíðkast á heimshöfunum að hafa þennan hátt á og ég gat um þá neikvæðu samkeppni sem leitt hefur til þess að kjör sjómanna á skipum, þar á meðal íslenskum skipum, hafa rýrnað. Íslenskir kjarasamningar hafa ekki verið virtir í þeim tilvikum og samtök sjómanna hafa reynt að sporna gegn þessari þróun. Við eigum að leggjast á árarnar með sjómönnum í þessu efni. Ef við viljum sýna þeim virðingu þá á að gera það í verki.