Skráning skipa

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 16:36:00 (3677)

2003-02-10 16:36:00# 128. lþ. 75.29 fundur 157. mál: #A skráning skipa# (þurrleiguskráning fiskiskipa) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[16:36]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Þetta mál er ekki ágreiningslaust, síður en svo. Varðandi þær lagfæringar sem gerðar hafa verið í hv. samgn. tel ég að kannski megi segja að hugsunin í þeim sé til bóta. En ég held að svo sé ekki um framkvæmdina.

Ég tók eftir því í umræðunni að hv. framsögumaður, hv. þm. Hjálmar Árnason, sagði í tvígang í þessum ræðustól að við að heimila þurrleiguskráningu á íslenskum skipum gæti störfum íslenskra sjómanna fjölgað. Ef ég hef lesið frv. rétt og greinargerðina með því er einmitt tekið fram að við þurrleiguna fari skip undir erlendan fána. Það er yfirleitt þannig, herra forseti, að þá gangast menn undir reglur þess ríkis, þar með talið varðandi mönnun og fjöldamörg önnur ákvæði. Þá ráðum við Íslendingar ekki hvernig skipin eru mönnuð, nema þá að heimilt sé að ráða Íslendinga á skipin vegna þess hvernig lög fánaríkisins eru. Í mörgum tilfellum heimilar fánaríki ekki skráningu og ráðningu erlendra manna.

Ég vil hins vegar sérstaklega vekja athygli á því, herra forseti, að eins og fram kemur í textanum í greinargerð með frv. er það auðvitað að kröfu íslenskra útgerðarmanna sem gengið er í að lögfesta þetta frv. Það er auðvitað verið að láta undan þrýstingi LÍÚ að fá þetta í gegn og tryggja að hér sé hægt að hafa skip á þurrleigu. Í nál. segir síðan að það hafi komið fram hjá Landssamtökum útgerðarmanna að trauðla væri hægt að gera út á veiðar á þeim stofnum sem menn eru að sækjast eftir, þ.e. þeim heimildum, með íslenskum kjarasamningum. Hér segir í nál. 2. minni hluta:

,,Fram kom í máli fulltrúa útgerðarinnar, sem komu fyrir nefndina, að kjarasamningar íslenskra sjómanna leiddu til svo mikils launakostnaðar að trauðla væri rekstrargrundvöllur fyrir sókn á fjarlæg fiskimið undir íslenskum fána og á íslenskum kjarasamningum.``

Ég fæ ekki botn í það hvernig hv. framsögumaður getur haldið því fram að við séum að undirbyggja hér störf íslenskra sjómanna á sama tíma og því er haldið fram af útgerðunum þeim sem eiga skipin að það verði að ná niður launakostnaðinum. Þar af leiðandi hljóta þeir með þessu að sækjast eftir því að færa starfskraftinn yfir á önnur kjör en íslenska kjarasamninga. Ég held að það sé rauði þráðurinn í þessu, herra forseti. Því miður virðast útgerðarmenn sækjast eftir því að ráða sér vinnuafl á lægri kjörum eða öðrum kjörum en samið er um á okkar skipum. Reyndar eru kjörin á íslensku fiskiskipunum ekkert mjög ólík ráðningarkjörum annarra, t.d. færeyskra sjómanna eða norskra. Ég held því að íslenska og færeyska vinnuaflið á skipunum sé mjög svipað. Það er aðeins öðruvísi upp sett í sumum veiðigreinum í Færeyjum, þ.e. áhöfnin tekur meiri áhættu við upphafsrekstur skips ef um er að ræða ný skip og dýr í rekstri. En um leið og skipin eru farin að skila af sér ákveðinni upphæð lagast kjörin allverulega.

Hér hefur ævinlega verið beitt lagasetningu við að ljúka deilum sjómanna á undanförnum árum. Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur verið sérstaklega ötul við það og reyndar sú fyrri líka sem sömu flokkar skipuðu, að festa niður kjörin með lögum. Þróun kjarasamninga íslenskra sjómanna hefur kannski ekki verið með þeim hætti sem menn vildu, breytingar og aðlögun á annan veg en ef menn hefðu náð kjarasamningunum saman. Það hefur auðvitað er verið mjög erfitt í því lagahótunarumhverfi sem ævinlega hefur mætt íslenskum sjómannasamtökum, að ná fram eðlilegri samningsstöðu við viðsemjendur sína. Menn hafa nánast getað gengið að því sem vísu að í hvert skipti sem komið hefur til deilna um kaup og kjör að lagavendinum yrði veifað. Fyrir vikið hefur kannski ekki verið eins mikill þrýstingur á að lenda málinu.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar, herra forseti, svo ég ítreki það, að íslenskir útgerðarmenn hafi oft á tíðum skákað í því skjólinu að vita það að lög yrðu sett frekar en að ganga í það að leysa deilur í kjarasamningum. Ég vil láta það koma alveg skýrt fram.

Við Íslendingar höfum stundað veiðar úr ýmsum stofnum á skipum undir erlendum fánum, t.d. á Flæmingjagrunni. Ég tel ekki hægt að halda öðru fram, herra forseti, en að þau verk okkar á Flæmingjagrunni hafi orðið til að bæta verulega við veiðireynslu ríkja sem skip okkar hafa veifað fánum fyrir, þ.e. Eystrasaltsríkin og sennilega einnig Pólland. Þar höfum við í raun tryggt að veiðidagar sem hafa verið til boða fyrir þessi ríki úr þeim stofni sem við veiðum úr á Flæmingjagrunni héldust, þar sem við höfum tekið upp sérstakt kvótakerfi en í raun aldrei klárað þann kvóta á undanförnum árum og skilið talsvert eftir. Við höfum hins vegar nýtt veiðidaga annarra þjóða og þar af leiðandi byggt undir veiðireynslu þeirra.

Það er alveg ljóst, herra forseti, að hvort sem fylgt yrði þeirri framkvæmd sem verið hefur hingað til eða tekið upp það fyrirkomulag sem hér er verið að leggja til munum við byggja upp veiðireynslu fyrir önnur ríki. Þetta á jafnt við hvort við tökum yfir veiðar á ónotuðum úthafskarfaheimildum annarra ríkja en Íslendinga á Reykjaneshrygg, rækju á Flæmingjagrunni, eða aðrar veiðar sem við sjáum svo sem ekki endilega fyrir hverjar ættu að vera hér í Norður-Atlantshafinu.

Í þessari greinargerð, herra forseti, er sagt frá því að e.t.v. gæti okkur staðið til boða veiðireynsla úr rússneskum kvótum í Barentshafi. Norðmenn hafa verið nokkuð drjúgir við að veiða þar og ef ég veit rétt, ég held að það komi skýrt fram í áliti 2. minni hluta, hefur beinlínis verið greint frá því að Norðmenn, norsku sjómannasamtökin, geri kröfu um það núna að gerðir verði viðunandi kjarasamningar við rússneska sjómenn sem veiða úr rússneskum kvótum.

[16:45]

Það er alveg ljóst að verði því ekki fylgt eftir munu norsku sjómannasamtökin efna til sérstakra aðgerða gegn þessum skipum, bæði varðandi landanir og annað, og ég hygg að þau njóti þar fulls stuðnings Alþjóðaflutningaverkamannasambandsins í því að tryggja sjómönnum lágmarkskjör. Það er ekki eins og að þeir sem hafa nýtt sér þessar leiðir á undanförnum árum hafi verið að gera það í mikilli sátt í öðrum löndum þótt það megi lesa hálfpartinn út úr greinargerðinni að við séum svolítið sérstakir, Íslendingar, að því leyti að við höfum ekki verið með þurrleiguskráninguna. Ég hygg reyndar, herra forseti, að aðeins Færeyingar séu með eitthvert fyrirkomulag sem er líkt því sem við erum hér að bjóða upp á varðandi fiskiskipin. Það er alþekkt í flutningabransanum að þar eru menn með skip á þurrleigu og þá á sérstökum kjörum sem samið hefur verið um í því tilviki.

Síðan kemur auðvitað þessi spurning, herra forseti, sem er verið að reyna að svara í frv. með því að breyta skráningunni, þ.e. ef hún fellur undan fánaríkinu og beint undir íslenska skráningu skuli það hafa þriggja daga aðlögun til þess að koma skipinu aftur undir íslenskan fána. Ég held, herra forseti, og tel mig vita að það sé ekki alveg hlaupið að því að koma skipum undir íslenska fána á nýjan leik þegar þau hafa verið undir erlendum fánum, jafnvel þótt íslensk hafi verið fyrir, og það hafi tekið jafnvel öflugar útgerðir hér á landi þó nokkra daga, jafnvel upp í tíu daga, að koma skipi sem áður var skráð á Íslandi aftur undir íslenska skráningu, hvað þá heldur ef skipin eru búin að vera mjög lengi undir þurrleiguskráningu og eftirliti annars staðar. Sumar íslenskar reglur eru jú talsvert stífar varðandi skráningu inn á íslenska skipaskrá.

Það hefur verið talið okkur til tekna, held ég frekar, að við vildum sjá til þess að skip væru nokkuð örugg. Hins vegar held ég að það hafi verið tíðkað af íslenskum siglingayfirvöldum að gefa mönnum einhvern aðlögunartíma, bráðabirgðahaffæriskírteini eða eitthvað slíkt, ef einhver atriði sem ekki beinlínis teldust hættuleg hefði þurft að lagfæra eða sem tæki lengri tíma. Það er að ýmsu að hyggja þegar menn ætla að koma aftur með skip undir íslenskt flagg. En ég lít svo á að hér sé verið að koma fram með frv. sem sé mjög óásættanlegt að fari í gegnum þingið og muni vinna okkur skaða í raun og veru.

Það er alveg ljóst að öll íslensku sjómannasamtökin eru algerlega andvíg því að þetta frv. verði að lögum. Það er verið að keyra það fram að kröfu íslenskra útgerðarmanna og að kröfu núverandi samgrh. sem vill endilega koma þessari mistakaskrautfjöður í sinn hatt og bæta þar við þau verk sem hann telur sín afrek sérstaklega. Ég er hins vegar mjög ósammála honum í því að hann vinni sér neitt til frægðar í þessu, ég tel að hér sé verið að vinna ógæfuverk og í raun og veru alveg furðulegt að ráðherrann skuli leggja svona mikið kapp á að koma þessu máli í gegnum þingið.

Það er auðvitað hægt að tala langt mál um þetta frv., herra forseti, en ég hef svo sem haldið ræður um þetta mál áður. Það kom hér til umræðu á síðasta þingi og varð þá ekki afgreitt sem betur fer, er nú komið aftur og í sama ósættinu. Og þó að meiri hlutinn leggi hér til þrjár breytingar á frv., sem gætu e.t.v. sumar orðið til bóta, er ég ekkert viss um að svo sé ef að er gáð, t.d. er hér ákvæði um að þurrleigan megi standa í fimm ár og síðan framlengjast um eitt ár í senn. Hér er verið að opna þessa heimild mun meira en var í eldri texta frv. Þar var heimilað að skrá til allt að eins árs og framlengja síðan í sex mánuði í senn. Síðan eru sett inn ákvæði um að það skuli vera upplýsingar um hvar skipi er ætlað að stunda veiðar og á hvaða tegundum. Af því tilefni vil ég spyrja þann sem mælti fyrir nál., hv. þm. Hjálmar Árnason, hvort hann vilji ekki nefna okkur alveg sérstaklega þau ríki sem hann álítur eða hefur upplýsingar um að fari inn með veiðar. Það hljóta að hafa legið fyrir upplýsingar í hv. samgn. um það hvar mönnum stæði það beinlínis til boða því það væri varla lagt svo mikið kapp á að keyra þetta frv. hér í gegn í ósætti við öll sjómannasamtökin ef menn væru ekki að sækjast eftir einhverjum sérstökum ávinningi, einhverju sem menn geta bent á. Þess vegna spyr ég beint, herra forseti: Hvaða upplýsingar liggja núna fyrir um það hvar íslenskir útgerðarmenn geta sérstaklega farið að gera út undir þessari reglu sem hér á að heimila, þar sem þeir eru ekki að aðhafast neitt núna, þar sem þeir eru sem sagt ekki að veiða og starfa?

Svo vil ég líka aðeins fá útskýringar á því hvort menn hafa velt því fyrir sér, þó að hér sé talað um þriggja sólarhringa aðlögun til þess að komast undir íslenska skipaskrá, hvort menn óttuðust ekki ef svona tilfelli kæmu upp, að skip þyrfti nauðsynlega að fara undan erlendu þurrskráningunni og undir íslenskan fána, að þeir lentu í erfiðleikum með þann mannskap sem þar er ráðinn og er ekki með íslenskt atvinnuleyfi. Á að láta hann hafa íslenskt atvinnuleyfi innan þriggja sólarhringa til þess að honum sé heimilt þá að sigla skipinu heim eða hvernig hyggjast menn framkvæma þennan hlut?

Í annan stað spyr ég: Ræddu menn ekki þann möguleika að mikill þrýstingur gæti orðið til þess að leysa viðkomandi útgerðarmann undan ráðningarskyldu ef svo skyldi fara að það væru marktækir kjarasamningar fyrir þessar erlendu áhafnir, með uppsagnarfresti og öllu tilheyrandi? Ræddu menn þá hvernig ætti að bregðast við ef menn eru þarna í ráðningarskyldu og ráðningarsambandi og eiga rétt á launum? Hvernig á þá að tryggja áhöfninni laun þegar skipið fer allt í einu undan þurrleigufánanum og undir íslenskan fána? Hvar er þá réttarstaða þessa fólks?

Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Hjálmar Árnason muni, rétt eins og ég, eftir deilum manna hér á Íslandi í Reykjavíkurhöfn um kaup sín og kjör á erlendum skipum. Mér finnst að þegar menn ætla að fara að útvíkka þessi verk enn frekar þar sem erlendir menn eru ráðnir á íslensk skip í eignarhaldi þó að um tíma hafi þau verið undir erlendum fánum þurfi menn að hafa svör við þessu.

Við hljótum jú, Íslendingar, að ætla að virða öll mannréttindi að þessu leyti og getum varla fest í lög eitthvað sem við sjáum fyrir að muni valda okkur ýmsum örðugleikum að því er varðar réttindi fólks til launa sinna og annarra starfsbundinna réttinda. Ég átta mig ekki alveg á því og hef ekki séð nein dæmi lögð fram með þessu frv. um það hvar þessir möguleikar liggja og hvernig starfskjör manna séu í þeim löndum þar sem fyrirhugað er að möguleikar opnist fyrir þurrleiguskráninguna né hvaða skyldur mundu þá falla á viðkomandi eignaraðila, þar af leiðandi yfir á fánalandið, ef reglur yrðu brotnar.

Ég sakna þess, herra forseti, að bæði ráðuneytið sem lagði þetta frv. fram og ráðherrann sérstaklega skyldu ekki afla slíkra upplýsinga frá löndum eins og Eystrasaltsríkjunum þar sem við höfum verið með fjölda skipa í útgerð í íslenskri eigu í hálfgerðum skúffufyrirtækjum eða með rekstrarfyrirkomulagi sem hefur náð að veiða undir þeirra fána, og að menn skyldu ekki kynna sér það og leggja það þá með hér í umræðuna hvaða kjör og skyldur fylgja því.

Ég hef bara ekki heyrt nein rök um það, herra forseti, að við séum að missa af einhverjum stóravinningi í þessu máli. Þess vegna ítreka ég aftur athugasemd mína um það hvers vegna menn sem mæla fyrir þessu máli sérstaklega og leggja svona mikið upp úr því að koma því hér inn hafa ekki verið látnir leggja fram einhver gögn um það hvaða möguleikar þeim stæðu til boða, hvar þeir lægju nú. Ég sé ekkert í spilunum, herra forseti, sem í raun og veru uppfyllir þetta frv. Skoðum þau gaumgæfilega, öll skilyrði 2. mgr. 1. gr. um það að skipið megi ekki vera að vinna sér inn veiðirétt sem geti talist fánaríkinu til hagsbóta eins og segir hér í f-lið 2. mgr. 1. gr., með leyfi forseta:

,,Þær veiðar sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur veiti ekki því ríki þar sem þurrleiguskráning fer fram veiðireynslu sem gæti nýst því síðar í samningum við íslenska ríkið um skiptingu aflaheimilda eða gangi að öðru leyti gegn hagsmunum Íslendinga.``

Ég er alveg sannfærður um það, herra forseti, að ef við skoðum veiðar á Flæmingjagrunni hefur útgerð okkar þar undir erlendum fána, miðað við þá skiptingu sem þar er, styrkt veiðirétt þess ríkis og það mundi jafnt gerast með þessu frv. þannig að samkvæmt orðanna hljóðan, ef þetta frv. verður að lögum, herra forseti, tel ég að sjútvrh. gæti aldrei mælt með því að slík þurrleiguskráning yrði heimiluð þar sem skip mundi stunda veiðar á Flæmingjagrunni.

Sama á við um Reykjaneshrygginn. Þar erum við með skiptar aflaheimildir. Og það eru sennilega til dæmi um að sum ríki sem þar eiga heimildir hafi ekki nýtt þær. Ég hygg t.d. að Pólland hafi ekki endilega nýtt veiðirétt sinn hér á Reykjaneshrygg að fullu og þá kemur auðvitað spurningin: Ef við þurrleigjum skip þangað til þess að veiða þau tonn erum við tvímælalaust að viðhalda veiðireynslu Póllands því við förum undir fána þess ríkis og erum þar með að tryggja að heimildirnar sem þar standa til boða séu veiddar eins og samningurinn gefur tilefni til. Það þýðir aftur að ef samningurinn yrði endurskoðaður værum við að byggja upp veiðirétt mótaðilans. Þetta mundi jafnt eiga við um veiðirétt rússneskra skipa á Reykjaneshrygg ef um það yrði samið að við veiddum úr kvótum þeirra eða þyrftum að flagga undir þeirra fánum.

Það vill líka svo til, herra forseti, að við erum búin að semja um veiðiheimildir við Rússa og Norðmenn í Barentshafi og kannski þarf einhvern tíma að skoða þá samninga upp á nýtt. Fæstir samningar blífa að eilífu og ætti okkur að vera það mjög vel ljóst, við erum með lausan síldarsamning við Norðmenn, Rússa og Færeyinga og við erum með lausan loðnusamning við Norðmenn, Færeyinga og Grænlendinga. Ekki hefur enn þá verið samið um veiðar á kolmunna, svo dæmi sé tekið, þannig að það er alveg ljóst að uppsögn samninga er vegna þess að menn vilja breyta samningsfyrirkomulaginu, einhver samningsaðilanna vill það. Þar af leiðandi liggur það í hlutarins eðli að ef við höfum verið þátttakendur í því að hjálpa einum samningsaðilanum að viðhalda veiðireynslu sinni höfum við verið að tryggja samningsstöðu hans gagnvart okkur þegar fram í sækir. Á móti eru auðvitað þau rök að menn segja sem svo: Ja, ef við gerum þetta ekki, Íslendingar, tökum ekki þátt í þessu, gerir það bara eitthvert annað ríki. Það eru vissulega rök í málinu.

[17:00]

En þau rök standast hins vegar ekki þetta frv. eins og það er uppsett, því það segir beinlínis að ekki skuli heimila veiðina ef sýna megi fram á að veiðireynsla undir þurrleiguskráningunni afli eða styrki veiðireynslu, þ.e. ,,... gæti nýst því síðar í samningum við íslenska ríkið um skiptingu aflaheimilda ...``

Það er því alveg ljóst, herra forseti, að það sem snýr að okkar næsta nágrenni, þ.e. veiðum á lögsögumörkum í Norður-Atlantshafinu, á Flæmingjagrunni og sennilega veiðum í norsku og rússnesku lögsögunni, ef við værum að standa að því sérstaklega með skráningu undir fána þeirra ríkja að viðhalda veiðireynslu þeirra í Barentshafinu og tryggja að allur þeirra afli veiddist, þá værum við ekki að vinna framtíðarhagsmunum Íslands stöðu að því leyti að við værum ekki að styrkja samningsstöðu okkar gagnvart þeim ríkjum. Þvert á móti, við værum að styrkja samningsstöðu þeirra ríkja sem við flögguðum skipunum undir.

Þetta vildi ég sagt hafa, herra forseti, og fæ þar af leiðandi ekki séð að neitt í frv. mæli með því að það fari í gegnum hv. Alþingi og það séu beinlínis engin efnisleg rök til þess að keyra málið fram með þeim hætti sem hæstv. samgrh. virðist leggja á málið, að það skuli úr nefnd og hér inn í þing til efnislegrar meðferðar og afgreiðslu. En eins og ég sagði áður, herra forseti, er ráðherrann auðvitað þar með að þjóna hagsmunum LÍÚ sem gera kröfu um að ná þessu máli í gegn.

Það hefði náttúrlega verið fróðlegt, herra forseti, fyrir umræðuna ef hæstv. sjútvrh. hefði verið hér í salnum og upplýst okkur um það, ef hv. þm. Hjálmar Árnason veit það ekki, hvaða möguleikar það eru sem hér er um að tefla og ráðherrann hefði bara getað lagt það á borðið hvaða möguleikar það væru sem hann teldi að ráðuneyti hans gæti samþykkt einn, tveir og þrír til þess að heimila veiðar, því það er jú hæstv. sjútvrh. samkvæmt g-liðnum sem getur það, en þar segir: ,,... önnur skilyrði sem sjávarútvegsráðherra getur kveðið á um í reglugerð.`` Hann þarf sem sagt að leggja mat á ýmis atriði.

Samtök sjómanna hafa auðvitað mótmælt frv. og gert það ítrekað og mörgum sinnum. Það kemur reyndar skýrt fram í fylgiskjali með frv. þar sem vitnað er í afstöðu þeirra. Þar segir Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, með leyfi forseta:

,,Farmanna- og fiskimannasambandið taldi að áhætta væri fólgin í þurrleiguskráningu þar sem óvissa gæti ríkt um réttarstöðu áhafnar, eigenda og skips gagnvart öðrum ríkjum. Vísaði sambandið í því efni til ákvæðis 2. tölul. 92. gr. hafréttarsamningsins.

Svo virðist sem þessi athugasemd sé byggð á þeim misskilningi að þurrleiguskráning sé hið sama og tvíflöggun.`` --- Þetta er sem sagt álit nefndarinnar. --- ,,Vísað er til umfjöllunar um þjóðarétt hér að framan. Niðurstaða þeirrar umfjöllunar er sú að þurrleiguskráning sé heimiluð samkvæmt þjóðarétti að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.``

Vafalaust er það, herra forseti, og er ekki dregið í efa í máli mínu að hægt sé að þurrleigja fiskiskip alveg eins og farskip ef lagaramminn er þannig. En ég tel hins vegar vafasamt að frv. þjóni hagsmunum okkar Íslendinga þegar betur er að gáð og allir hagsmunir okkar vegnir saman.

Ég tel líka að þetta veiki stöðu okkar að því leyti að við Íslendingar höfum talið okkur það til tekna að halda uppi því sjónarmiði að menn skyldu búa við mannsæmandi kjör og ég held að ýmis þau kjör sem sjómönnum eru boðin undir því sem við erum hér að sækjast eftir, þ.e. að komast inn í þurrleiguskráningu hjá ríkjum þar sem launakjörin eru miklu lakari en hjá okkur, sé ekki eftirsóknarvert hlutverk Íslands og að þræða þá braut að opna því sérstakan farveg í íslenskri löggjöf að menn vinni á tiltölulega lágum launum.

En ljóst er, herra forseti, að útgerðarmenn eru að þrýsta á stjórnvöld um að heimila þessa tvískráningu og í þeim tilgangi, eins og segir í sjónarmiði Sjómannasambandsins, ,,að fá ódýrt erlent vinnuafl til starfa á skipum sínum í samkeppni við íslenska sjómenn ...``

Ég held, herra forseti, að þróunin sé sú að það verði fyrst og fremst eftirsóknarvert fyrir útgerðina að fara í þennan farveg þegar útgerðarmenn, eins og þeir segja réttilega sjálfir, ná niður launakostnaði. Það er nákvæmlega það sem íslenskir útgerðarmenn eru að sækjast eftir, að komast inn í veiðiheimildir þar sem launakostnaðurinn er miklu lægri í okkar samningum en í norskum og færeyskum samningum. Komast sem sagt undir það sem við höfum oft verið að kalla hér á landi ,,hentifánaskráningu og hentifánalaun`` og hefur ekki þótt neitt sérstaklega eftirsóknarvert að þurfa að vera í þeim sporunum.

Herra forseti. Ég held ég bæti málið ekkert þó ég fari að halda lengri ræðu um það. Ljóst er að mínu viti, herra forseti, að málið er talið mjög slæmt af fulltrúum sjómannasamtakanna og ég vil enda mál mitt, herra forseti með því að lesa úr nýsamþykktri ályktun um kjara- og atvinnumál frá þingi Sjómannasambandsins frá 14. og 15. nóvember árið 2002, en þar segir, með leyfi forseta:

,,23. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að lög verði sett um fjárhagslegan ...`` --- nei, nú hef ég farið hér villt, herra forseti, og er ekki að vitna í rétta tilvitnun. (ÖJ: ... styðja málið bara?) Nei, þetta er um aðskilnað, veiði og vinnslu og er annað mál sem ég flutti hér á hv. þingi þar sem Sjómannasambandið lýsti yfir stuðningi við það mál.

Það er sem sagt alveg ljóst, herra forseti, að Sjómannasamband Íslands hefur ítrekað afstöðu sína í þessu máli ásamt öðrum samtökum sjómanna. Það liggur fyrir að verið er að fara með þetta mál í algjörri andstöðu við íslenska sjómenn. Ég tel að við séum að fara inn á ógæfubraut, herra forseti, að þessu leyti sem muni ekki færa okkur þann ávinning sem eftir er sóst og við séum í raun og veru til framtíðar að bjóða upp á hagsmuni sem ganga gegn hagsmunum íslenska ríkisins.