Skráning skipa

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 17:14:22 (3680)

2003-02-10 17:14:22# 128. lþ. 75.29 fundur 157. mál: #A skráning skipa# (þurrleiguskráning fiskiskipa) frv., Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[17:14]

Frsm. meiri hluta samgn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir andsvar hv. þm. Það gefur mér færi á að svara þeim spurningum sem hann beindi til mín og ég náði ekki að svara í fyrra andsvari.

Það kom að sjálfsögðu fram í nefndinni að útgerðarmenn eru að velta fyrir sér því sem ég nefndi áðan, Barentshafinu, Flæmska hattinum og hugsanlega einhverju öðru. Og þau svör duga mér alveg fullkomlega, enda á löggjöf að vera almenns eðlis.

Hvað varðar þriggja sólarhringa regluna, ef svo má kalla, ef skip missir eða fer af þurrleigunni, þá er útgerð og skipstjórnarmönnum gefinn þriggja sólarhringa frestur til að laga sig að íslenskum lögum aftur. Það tel ég vera skynsamlegt og gert af praktískum ástæðum. En ég deili auðvitað áhyggjum hv. þm. yfir því hvað yrði ef slíkt gerðist skyndilega úti í hafi, hvað yrði þá um hina erlendu áhöfn, og það er mjög réttmæt ábending hjá honum.

En það gerist í rauninni með tvöföldu eftirliti. Annars vegar með eftirliti Siglingastofnunar því að um leið og skipið er komið aftur inn á skipaskrá hér og undir íslenskan fána, þá ganga íslensk lög í gildi en jafnframt verður skipi ekki flaggað út nema það hafi komist á skipaskrá viðkomandi ríkis og í viðkomandi ríki gilda væntanlega lög alveg eins og hér hjá okkur. Það má því segja að aðhaldið sé tvíþætt.

Rétt að lokum vil ég árétta að hér er ekkert verið að taka af íslenskum sjómönnum. Skip sem hefur veiðiheimildir, á þeim byggja allar tekjur til útgerðar og til áhafna skipsins og ef ekki koma viðbótarmöguleikar til þess að veiða fyrir viðkomandi skip, þá skapast heldur ekki viðbótartekjur hvorki fyrir útgerð né áhöfn. Hér er ekkert verið að taka af íslenskum sjómönnum heldur þvert á móti að skapa möguleika á viðbótartekjum fyrir sjómenn og útgerð.