Skráning skipa

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 17:16:37 (3681)

2003-02-10 17:16:37# 128. lþ. 75.29 fundur 157. mál: #A skráning skipa# (þurrleiguskráning fiskiskipa) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[17:16]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ef það er virkilega trúa manna að hér sé verið að skapa ný störf þá held ég að menn hefðu átt að fara allt öðruvísi í þetta mál. Þá hefðu menn beinlínis átt að leita eftir því við þau ríki sem um er að ræða því að þau virðast ekki vera mörg. Hv. þm. nefndi aðeins tvö. Hann nefndi svæðið í Barentshafi og á Flæmingjagrunni (Gripið fram í.) og það er alveg vitað hvaða ríki eiga þar veiðiheimildir. Það er alveg ljóst. Ef menn voru raunverulega að sækjast eftir því annars vegar að koma skipum til veiða á þessum stofnum og hins vegar að tryggja íslenskum sjómönnum aukin atvinnutækifæri þá hefðu menn átt að fara beint í samning við viðkomandi ríki og gera um það samkomulag að íslenskar áhafnir mættu að hluta til starfa á skipum sem væru að veiða úr þessum kvótum og við tryggðum það þá. Þar með hefðu menn í raun verið að tryggja réttarstöðu íslenskra sjómanna og störf þeirra með slíkum beinum samningum. En með þessu fyrirkomulagi er það alls ekki, herra forseti. Það er bara hinn kaldi veruleiki þessa frv. að við erum ekkert að tryggja nein störf íslenskra sjómanna. Og það sem meira er er að mér sýnist miðað við að hafa nefnt aðeins þessi tvö dæmi, um Flæmingjagrunnið og Barentshafið, að við séum enn þá í samkeppnisveiðum við okkar eigin veiðireynslu og okkar eigin samninga. Ég sé bara ekki, herra forseti, eins og frv. er upp sett og ef hæstv. sjútvrh. ætlar að vera samkvæmur sjálfum sér og fylgjast með því að við séum ekki að vinna okkur skaða upp á samningsstöðu í framtíðinni, að hann geti heimilað slíka tillögu. Og fyrir hverju er þá verið að berjast? Þetta er bara vindur eða fúlegg.