Skráning skipa

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 17:42:24 (3690)

2003-02-10 17:42:24# 128. lþ. 75.29 fundur 157. mál: #A skráning skipa# (þurrleiguskráning fiskiskipa) frv., SI (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[17:42]

Sigríður Ingvarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég held að Jón Bjarnason hafi ekki lagt nógu vel við eyru þegar ég flutti ræðu mína áðan.

(Forseti (GÁS): Hv. þm., ekki satt?)

Hv. þm., þakka þér fyrir, Jón Bjarnason. Í ræðu minni áðan kom fram að varðandi tryggingu sjómanna er ekki verið að breyta neinu um stöðu þeirra. Þeir sem sigla undir íslensku flaggi lúta að sjálfsögðu íslenskum kjarasamningum og íslenskum lögum.

Sé skip undir erlendum þjóðfána förum við að sjálfsögðu eftir lögum þess ríkis og kjarasamningum þess ríkis. Auðvitað er sjómönnum í sjálfsvald sett hvort þeir vilja taka þann kost eða ekki. Eins og fyrr hefur komið fram í máli mínu þá er þetta hrein viðbót. Þessi tilhögun gefur okkur frjálst val um hvort við nýtum okkur þetta eða ekki. Tækifærum fyrir íslenska sjómenn og íslenskar útgerðir er sem sagt að fjölga.