Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 18:17:54 (3695)

2003-02-10 18:17:54# 128. lþ. 75.31 fundur 149. mál: #A afkomutrygging aldraðra og öryrkja# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[18:17]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum till. til þál. um afkomutryggingu aldraðra og öryrkja og þar er sérstaklega minnst á sérstöðu ungra öryrkja sem verða fyrir varanlegri örorku á æskuárum. Lengi vel voru afskaplega litlar líkur á því að 16 ára maður sem var með fulla vinnugetu yrði öryrki fyrir 35 ára aldur. Þetta hefur breyst, örugglega, á síðustu árum og það er eitthvað sem verður að taka mið af þegar menn eru að hanna kerfið og ég get tekið undir þennan þátt í þáltill.

Hins vegar vil ég minna á það að lífeyrissjóðirnir voru settir á með kjarasamningi 1969, fyrir 34 árum, og sett voru um þá lög árið 1974 sem skylda alla launþega til að vera í lífeyrissjóði, sem sagt fyrir 29 árum, og það voru sett lög 1980 sem skylda alla landsmenn til að vera í lífeyrissjóði, þ.e. fyrir 23 árum. Allir á vinnumarkaði eiga sem sagt að vera í lífeyrissjóði og afla sér réttinda þar. Umræðan, án þess að taka lífeyrissjóðina inn í málið, er eiginlega tóm nema að því er varðar þá einstaklinga sem aldrei fara á vinumarkað vegna þess að þeir verða öryrkjar mjög snemma, og það eru kannski vaxandi líkur á því.

Í frétt frá Samtökum atvinnulífsins 6. janúar sl. kemur fram að lágmarkskauptaxti hefur hækkað um 106%, úr 43.116 kr. í janúar 1995 í 88.794 kr. Þetta er kaupmáttaraukning um 58% á þessu tímabili og hefur lágmarkskauptaxti hækkað meira en nokkur önnur laun í þjóðfélaginu, sem þó hafa hækkað mjög umtalsvert.

Á sama tíma hefur lágmarkstekjutrygging lífeyrisþega hækkað úr 43.116 kr., sömu tölu, í 93.000 kr. samkvæmt þessari frétt, þ.e. um 116%. Kaupmáttur þessarar tryggingar, sem er lágmark, hækkaði um 65%. Hafi menn einhverjar aðrar tekjur úr lífeyrissjóði eða af atvinnu sinni skerðast þessar lágmarkstekjur en það þýðir þá líka að viðkomandi er með enn hærri tekjur til framfærslu.

Þetta sýnir okkur að það var rétt stefna hjá þáv. ríkisstjórn Sjálfstfl. að huga að stöðu atvinnulífsins og bæta hana þannig að það hefur síðan getað greitt sífellt hærri laun. Það er heimsmet, laun hafa hækkað hér á landi sem hvergi annars staðar á síðustu sjö árum eða svo. Lífeyrisbætur samkvæmt þessu hafa líka hækkað umtalsvert, mun meira en laun. Og það er náttúrlega mjög mikilvægt, herra forseti, að við viðhöldum þessari getu atvinnulífsins til þess að borga há laun og viðhöldum þeirri góðu afkomu fyrirtækja sem gerir það að verkum að þau geta borgað mikla skatta til samfélagsins. Launþegarnir, sem hafa sífellt hærri laun, geta líka borgað hærri skatta til samfélagsins til að standa undir þessu velferðarkerfi. Þetta er náttúrlega mjög mikilvægt og menn þurfa að hafa sérstaklega í huga við kosningarnar sem standa fyrir dyrum að menn standi vörð um það sem áunnist hefur og að menn standi vörð um það að ekki verði glutrað því sem hefur náðst í stöðu fyrirtækja, í stöðu efnahagsmála og í stöðu þjóðarbúsins í heild sinni.