Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 18:43:36 (3702)

2003-02-10 18:43:36# 128. lþ. 75.42 fundur 298. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (aðild að stéttarfélagi) frv., Flm. PHB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[18:43]

Flm. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Í frv. er lagt til að 2. mgr. 7. gr. laganna falli brott. Þessi málsgrein er eftirfarandi, með leyfi herra forseta:

,,Starfsmaður, sem lög þessi taka til`` --- og er þar átt við opinbera starfsmenn --- ,,og eigi er innan stéttarfélags samkvæmt lögum þessum, greiði til þess stéttarfélags, sem hann ætti að tilheyra, gjald jafnt því sem honum bæri að greiða væri hann í því, enda fari um laun hans og önnur starfskjör samkvæmt samningum þess samkvæmt nánari ákvörðun fjármálaráðherra eða sveitarstjórnar. Þá ákvörðun skal tilkynna viðkomandi stéttarfélagi.``

[18:45]

Frumvarp þetta var lagt fram á síðasta og næstsíðasta löggjafarþingi og var vísað til efnahags- og viðskiptanefndar. Nefndin sá ekki ástæðu til þess að afgreiða málið og lagði ekki til að það yrði samþykkt, því yrði breytt eða að það yrði fellt með viðeigandi rökstuðningi. Er það athyglisvert þar sem í greinargerð með frumvarpinu er því haldið fram og færð fyrir því rök að ákvæði 7. gr. laganna kunni að brjóta gegn stjórnarskrá lýðveldisins Íslands á tvennan hátt:

Það sé í andstöðu við 74. gr. stjórnarskrárinnar sem segir að menn eigi rétt á að taka þátt í félögum, en ekki sé hægt að skylda menn til þátttöku í félögum. Það sé enn fremur í andstöðu við 40. gr. stjórnarskrárinnar sem segir að engan skatt megi á leggja nema með lögum og í andstöðu við 77. gr. sem segir að ekki megi fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.

Þessi grein er í raun dulbúin skylda til aðildar að stéttarfélagi. Það væri mjög óskynsamlegt fyrir starfsmann að njóta ekki allrar þjónustu stéttarfélags með því að gerast félagi, þótt honum væri það þvert um geð, þar sem hann er búinn að greiða fyrir hana. Má þar nefna orlofsheimili sem dæmi. Þannig brýtur þetta ákvæði hugsanlega gegn ákvæði 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, um félagafrelsi.

Þegar þetta frv. var fyrst lagt fram bárust nokkrar umsagnir sem, allar nema tvær, voru frá aðilum sem njóta þessa ákvæðis, þ.e. stéttarfélögum opinberra starfsmanna. Engin þessara umsagna tók afstöðu til þess hvort hér gæti verið um skattlagningu að ræða. Ég ætla ekki að fara í gegnum þessar umsagnir en um þær er rætt í grg. með frv.

Í grg. með frv. er einnig rætt um dóm Félagsdóms nr. 4/1998, en hann komst að þeirri niðurstöðu í ákveðnu máli að þessi grein samrýmdist ákvæðum stjórnarskrárinnar um félagafrelsi, herra forseti. Félagsdómur taldi sig þess umkominn að taka afstöðu til þess hvort ákvæði stjórnarskrárinnar væru gild.

Ég færi fyrir því rök í grg. með frv. að þessi dómur fái ekki staðist vegna þess að ef honum yrði áfrýjað eða hann kærður til almenns dómstóls færi hann til Hæstaréttar. Á endanum yrði það Hæstiréttur sem tæki afstöðu til þess hvort slíkt ákvæði samrýmdist ákvæðum stjórnarskrárinnar. Þannig eru færð rök fyrir því að enginn dómstóll annar en Hæstiréttur Íslands geti tekið afstöðu til þess hvort ákveðin ákvæði laga frá hinu háa Alþingi samrýmist stjórnarskrá Íslands.

Herra forseti. Félagsgjaldið, þar með skyldugjald, þeirra sem ekki eru félagar er yfirleitt prósenta af launum, 1% eða 1,5% og jafnvel hærra. Er það dregið af launum starfsmannsins án sérstakrar heimildar hans. Þeir greiða mest sem hæst hafa launin þó að þeir þurfi oft á tíðum sjálfir að semja um þau laun. Þannig er hægt að rökstyðja að þetta gjald er ekki þjónustugjald þar sem það er ekki í samræmi við þá vinnu sem felst í að semja um laun og kjör starfsmannsins. Það getur ekki verið tvöfalt dýrara að semja um laun fyrir mann sem er með 200 þús. kr. á mánuði en annan sem er með 100 þús. kr. á mánuði.

Enn fremur má benda á að með þeirri stefnu að heimila forstöðumönnum ríkisstofnana að gera persónulega samninga við starfsmenn um launakjör njóti starfsmaður utan stéttarfélags ekki þjónustu stéttarfélagsins nema í samningum um lágmarkslaun. Sjálfur þarf hann að semja um hærri laun.

Þá er athyglisvert, herra forseti, að lögin kveða ekki á um hámark þess sem félagsgjald má vera, t.d. sem hlutfall af launum. Ef félagsfundur í litlu stéttarfélagi ákvæði að félagsgjaldið þyrfti og ætti að vera 100% af launum yrði launaskrifstofa ríkisins að innheimta það gjald samkvæmt þessari grein og greiða til stéttarfélagsins, án þess að launþeginn gæti borið vörnum við. Þannig er stéttarfélaginu í raun falin ákvörðun um upphæð skatts sem lagður er á launþegann og hann hefur ekkert um það segja hversu hár sá skattur er eða hversu mikið honum ber að greiða. Þetta félagsgjald er enda mismunandi eftir stéttarfélögum.

Herra forseti. Í 77. gr. stjórnarskrárinnar kveður svo að orði:

,,Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.``

Í þessu ákvæði sem lagt er til að fellt verði niður er ekki aðeins lagt í hendur stjórnvalda að ákvarða skattinn heldur er það lagt í hendur félags, stéttarfélags um að ákvarða skatt á launþegann. Þannig má ljóst vera að þetta brýtur allverulega í bága við stjórnarskrána. Þess vegna skora ég á hv. efh.- og viðskn., sem fær þetta frv. til skoðunar, að taka mark á því sem fram kemur í grg. og láta skoða mjög nákvæmlega hvort brotin séu ákvæði stjórnarskrárinnar um félagafrelsi annars vegar og hins vegar, ef ekki er um að ræða þjónustugjald, hvort þetta geti verið skattur og hvort eðlilegt sé að borgurum þessa lands sé gert að greiða gjald til félags sem ekki er opinber stofnun, ríkið eða sveitarfélag og það gjald geti verið í ákvörðunarvaldi félagsins sjálfs, sem greiðandinn er ekki einu sinni aðili að.

Herra forseti. Í grg. með frv. eru nefnd nokkuð mörg dæmi um slík gjöld sem ýmist eru innheimt í gegnum fjárlög, þ.e. til ríkisins sem skattur og síðan send aftur til viðkomandi félags eða stofnunar á fjárlögum. Þar er t.d. búnaðargjald sem lagt er á alla bændur og rennur til Bændasamtaka Íslands og Lánasjóðs landbúnaðarins. Það er meira að segja þannig að lágtekjubændum, bændum með mjög lág laun, t.d. sauðfjárbændum, er gert að borga búnaðargjald sem rennur til Lánasjóðs landbúnaðarins jafnvel þó að þeir, vegna bágrar stöðu sinnar, tekna og eigna, geti aldrei fengið lán úr þeim sjóði. Þannig má líta á búnaðargjaldið sem skattlagningu á fátæka bændur til að lána ríkum bændum.

Sóknargjaldið er sömuleiðis nefskattur sem hækkar eins og laun og rennur til trúfélags viðkomandi ellegar til Háskóla Íslands. Verður ekki séð að trúlausir fái neina sérstaka þjónustu hjá guðfræðideild háskólans umfram aðra menn.

Þá er það stefgjaldið sem nokkuð hefur verið til umræðu undanfarið, þar sem lagður er skattur á t.d. tölvur, disklinga, segulbönd og annað slíkt sem rennur til samtaka tónlistarhöfunda en t.d. ekki til þeirra höfunda sem semja forrit og sem eru meira notuð í tölvum en hljómlist. Þar er lagður skattur á ákveðna einstaklinga til að standa undir greiðslum beint til félagasamtaka sem hvorki eru opinber aðili, sveitarfélag né ríki.

Þá er það afnotagjaldið til RÚV, sem vel er þekkt. Mönnum er gert að greiða gjald til Ríkisútvarpsins hvort sem þeir vilja horfa á ríkissjónvarpið eða ekki. Manni sem vill horfa á Skjá einn ber að greiða gjald til RÚV þó að hann langi ekkert sérstaklega til að horfa á það.

Iðnaðarmálagjald er lagt á öll iðnfyrirtæki og rennur til Samtaka iðnaðarins. Það fer reyndar í gegnum fjárlög.

Iðgjald til lífeyrissjóða er þekkt sömuleiðis. Það er skylda allra landsmanna að borga í lífeyrissjóð og lífeyrissjóður er ekki opinbert fyrirtæki eða stofnun.

Nokkur fleiri dæmi má nefna, t.d. Fiskræktarsjóð þar sem vatnsaflsstöðvum í landinu ber að greiða 3 prómill af óskírum tekjum sínum til Fiskræktarsjóðs sem ætlaður er til stuðnings fiskrækt og fiskeldi í landinu. Hér er viðtakandinn ekki opinber aðili og lagður skattur á vatnsaflsstöðvar með þessum hætti.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni umræðu að þetta frv. verði því vísað til hv. efh.- og viðskn. Ég vona að hv. efh.- og viðskn. skoði í alvöru þær athugasemdir sem gerðar eru í grg. með frv. um að þessi grein, sem lagt er til að verði felld niður, sé í andstöðu við ákvæði stjórnarskrárinnar.