Skráning skipa

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 13:34:08 (3705)

2003-02-11 13:34:08# 128. lþ. 76.1 fundur 157. mál: #A skráning skipa# (þurrleiguskráning fiskiskipa) frv. 10/2003, JB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[13:34]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Megintilgangur þess frv. sem hér er verið að flytja er að heimila að íslensk skip sem skráð eru á íslenska skipaskrá séu jafnframt skráð þurrleiguskráningu á erlenda skipaskrá. Við þurrleigu færist skipið undir lögsögufána ríkis til leigutakans og gilda þá lög þess um allan rekstur skipsins, þar með talið veiðileyfi, veiðieftirlit, öryggismál, kjaramál, tryggingamál og atvinnuréttindi. Hins vegar eru veðbönd skipsins skráð hjá hlutaðeigandi þinglýsingarstjórum hér á landi þannig að það gilda mismunandi reglur um áhöfn og skip.

Virðulegi forseti. Með þessum lögum er verið að opna fyrir það að íslensk skip sem eru skráð á Íslandi geti ráðið áhafnir á kjörum sem ekki eru samkvæmt kjarasamningum íslenskra sjómanna og íslenskum kjarasamningum. Þess vegna erum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði á móti þessu frv. Við teljum að það eigi að vernda lögvarinn rétt íslenskra sjómanna og á íslenskum skipum skulu gilda íslenskir kjarasamningar.