Tækni- og iðnmenntun

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 13:55:33 (3712)

2003-02-11 13:55:33# 128. lþ. 76.94 fundur 421#B tækni- og iðnmenntun# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[13:55]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Tæpast verður um það deilt að fjölbreytt tæknimenntun er undirstaða aukinnar velferðar á 21. öldinni. Það er því þjóðfélaginu mjög mikilvægt að fá sem flesta nemendur til að velja sér bæði lengra og styttra tækninám. Við það að Tækniskólinn var færður á háskólastig sköpuðust ný sóknarfæri í að efla námið mjög á því sviði en því miður hefur þróunin ekki verið eins og best hefði verið á kosið þegar litið er til kennslu tæknigreina á framhaldsskólastigi. Lengi vel voru þeir fjölbrautaskólar sem buðu upp á iðnnám hlunnfarnir fjárhagslega. Á síðasta hausti var reiknilíkanið lagfært en þá kom ríkissjóður með flatan niðurskurð við fjárlagagerðina og þessir skólar voru skornir niður í fjárlögum þannig að ávinningurinn varð minni en vonir stóðu til svo að enn þurfa þeir skóla sem eru þó að standa fyrir verkmenntakennslu að líða sakir fjárhagsvandræða. Er nú mál að linni.

Ég vil ítreka það sem ég hef áður sagt að endurskoða þarf í gildandi framhaldsskólalögum ákvæði um kjarnaskóla. Þau hafa m.a. haft það í för með sér að t.d. á gjörvöllu Akureyrarsvæðinu og Suðurnesjum er nánast enginn við nám í bifvélavirkjun og sama er að segja um kjötiðnað sem mikið er stundaður á Eyjafjarðarsvæðinu og af miklum metnaði. Það er ekki hægt að læra slíkt á Akureyri.

Auðvitað geta fjölbrautaskólar úti á landi haft þessa nemendur í grunnnámi og starfstengda hlutann má þá taka á fagvottuðum vinnustöðum. Hugsanlega má senda nemendur á styttri námskeið ef eitthvað það sem þarf að læra er ekki fyrir hendi á staðnum á viðkomandi svæði. Þennan þátt er brýnt að endurskoða.