Tækni- og iðnmenntun

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 13:57:41 (3713)

2003-02-11 13:57:41# 128. lþ. 76.94 fundur 421#B tækni- og iðnmenntun# (umræður utan dagskrár), SI
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[13:57]

Sigríður Ingvarsdóttir:

Herra forseti. Á síðustu árum hafa átt sér stað ýmsar markverðar breytingar sem varða iðn- og verknám og líklegar eru til að hafa áhrif á þróun þess. Áhersla menntamálayfirvalda hefur um langt skeið miðað að því að auka veg starfsnáms og má segja að lög um framhaldsskóla frá 1996 endurspegli þá áherslu mjög skýrt. Einkum hefur verið lögð áhersla á að koma á markvissari tengslum menntunar og atvinnulífs. Í því sambandi má nefna að gerðar voru ákveðnar breytingar á hinni stjórnsýslulegu umgjörð starfsnáms sem fram fer í skóla í lögum um framhaldsskóla frá 1996. Sett var á laggirnar samstarfsnefnd um starfsmenntun á framhaldsskólastigi til að vera ráðgefandi um aðgerðir í starfsmenntamálum og er hún að mestu skipuð aðilum frá íslensku atvinnulífi.

Starfsgreinaráðum í öllum starfsgreinaflokkum var komið á fót til að vinna að samningu námskráa fyrir starfsmenntunina og gera tillögur að nýju námi. Áhersla á símenntun hefur aukist hröðum skrefum en þar er meginmarkmiðið að vekja fólk til meðvitundar um mikilvægi þess að viðhalda menntun sinni eða afla sér menntunar á nýju sviði eftir að hefðbundinni skólagöngu lýkur. Starfsmenntun er veigamesti þáttur símenntunarinnar. Opnað er fyrir að einkaskólar á framhaldsskólastigi geti fengið viðurkenningu menntmrn. til að starfa og hafa slíkir skólar einkum boðið upp á starfsmenntun.

Herra forseti. Ýmissa leiða hefur verið leitað til að gera iðn- og tæknimenntun hærra undir höfði og stórt skref var stigið er Tækniskóli Íslands var færður á háskólastig. En það sem á vantar er helst viðhorfsbreyting almennings til að meta þetta nám til jafns á við hefðbundið framhalds- og háskólanám í bóklegum greinum.