Tækni- og iðnmenntun

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 13:59:48 (3714)

2003-02-11 13:59:48# 128. lþ. 76.94 fundur 421#B tækni- og iðnmenntun# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[13:59]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Metnaðarfullt verk og listnám skiptir öllu máli fyrir samfélög, bæði Ísland sem og önnur lönd. Við megum gefa þessum málun mun meiri gaum en við gerum og þess vegna er ágætt að ræða þau hér í dag. Bóknámi hefur verið gert hærra undir höfði en list- og verknámi, enda hefur ungt fólk sótt meira í þann geira en verknámsgeirann. Þegar við horfum á t.d. mannvirkjagerð svo sem húsbyggingar og þess háttar, þá skipta góðir iðnaðarmenn gríðarlega miklu máli og við þurfum að halda því mjög á lofti.

Við megum ekki gleyma því að við eigum líka glæsilegar menntastofnanir í verknámsgreinum og vil ég nefna t.d. Hótel- og veitingaskólann sem er í Kópavogi. Sá skóli er í miklum sérflokki. Það er líka mjög jákvætt að horfa til þess að ýmsar iðngreinar á Íslandi eru taldar á heimsvísu. Ég nefni t.d. hárgreiðslumeistara sem þykja afar flinkir hér á landi. Á sama hátt fá kjötiðnaðarmeistarar viðurkenningar vítt og breitt um Evrópu fyrir það sem framleitt er á Íslandi.

Þá vil ég líka nefna matreiðslumeistara sem hafa verið að taka þátt í mjög mörgum keppnum vítt og breitt um heiminn. Nefna má t.d. Bocuse d´Or keppnina sem var í Lyon í Frakklandi ekki alls fyrir löngu en Íslendingar hafa keppt þar núna í þrjú skipti og staðið sig með miklum ágætum. Ég segi líka að matreiðslumeistarar eru þeir menn og reyndar kjötiðnaðarmeistarar líka sem geta kynnt íslenskar matvörur og eru í raun og veru nýir sendiherrar Íslands á erlendri grundu. Þess vegna verðum við að horfa til þess þegar við tölum um verknámið að við eigum mjög góða iðnaðarmenn og okkur ber að sinna þeim skyldum okkar. Þess vegna er gott að ræða þessi mál en við megum heldur ekki gleyma því sem vel er gert þegar við ræðum um verknám á Íslandi.