Tækni- og iðnmenntun

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 14:08:59 (3718)

2003-02-11 14:08:59# 128. lþ. 76.94 fundur 421#B tækni- og iðnmenntun# (umræður utan dagskrár), Flm. BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[14:08]

Björgvin G. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra umræðuna og þeim þingmönnum sem þátt í henni tóku um þetta mikilvæga mál. En þrátt fyrir fögur fyrirheit og fullyrðingar ráðherra um forgang og metnað í iðn- og tækninámi verður ekki fram hjá þeim staðreyndum horft að fjárskortur um langt árabil og það reikninlíkan sem notast hefur verið við og hefur ekki fullnægt kröfum námsins, tala sínu máli. Í kynningu á iðnnámi þarf að leggja megináherslu á að það sé ekki andstæða langskólanáms og það þarf að vinna gegn því hvernig skorið er á milli verknáms og bóknáms. Úrelt og fjársvelt verknám má ekki hamla útrás og uppbyggingu íslensks iðnaðar heldur eigum við þvert á móti að stuðla að því að nútímalegt og kraftmikið list-, iðn- og tækninám ýti undir þá uppbyggingu og sókn iðnaðarins og hátæknifyrirtækjanna.

Vona ég því, herra forseti, að hæstv. menntmrh. bæti hið bráðasta úr fjárhagvandanum og endurskoði reiknilíkanið hið fyrsta því að staðreyndirnar tala sínu máli.

Eitt af því sem þarf að gera er að gera fyrirtækjum landsins kleift á hverjum tíma að koma hæfniskröfum sínum inn í námskrána auk þess að skapa verknámsskólunum aðstöðu og tæki til að geta kennt samkvæmt þeim námskrám sem henta hverju sinni. Þá er mikilvægi aðgengilegs námsefnis sem hæfir kröfum tímans ómetanlegt en á síðasta ári var varið í það 18,2 millj. í það heila fyrir alla framhaldsskóla landsins og fær iðnútgáfan ekki nema brot af því.