Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 14:55:02 (3722)

2003-02-11 14:55:02# 128. lþ. 76.7 fundur 24. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflaheimilda o.fl.) frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[14:55]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Í mínum huga er ekki vottur efa um að framkvæmd núverandi fiskveiðistjórnarkerfis hafi leitt til hnignunar fjölmargra byggða sem hafa viðurværi af fiskveiðum og úrvinnslu á afla úr hafinu. Við samfylkingarþingmenn höfum flutt þetta frv. sem hér er til umræðu nú ár eftir ár, frv. um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem nauðsyn er að komist í framkvæmd. Við erum sannfærð um að fiskveiðistjórnarkerfið sem nú er við lýði komi í veg fyrir eðlilega endurnýjun og nýliðun í starfsgreininni. Frv. sem við tölum fyrir getur skapað sátt um fiskveiðistjórnina.

Mér virðist, virðulegur forseti, að hin ógnvænlega hönd markaðarins hafi náð yfirtökum og stýri aflaheimildum og dreifingu þeirra á milli útgerða. Landsmenn þekkja afleiðingarnar. Hver útgerðin á fætur annarri fellur inn í samrunaferli og sá sem var að gleypa er gleyptur af öðrum stærri áður en hann áttar sig á hinni stóru, köldu krumlu.

Til dæmis má nefna að eitt sinn var til útgerðarbærinn Sandgerði. Þar voru menn sannfærðir um að þeir væru svo stöndugir að ekki kæmi til greina að útgerð legðist þar af. Byggðin lá svo vel við fiskimiðum og hentaði til úrvinnslu afla. Hvað er að gerast? Einn aðili gleypti nánast allt sunnan úr Sandgerði og sá aðili hefur nú verið gleyptur af öðrum.

Hvað er að gerast í Grindavík, einum besta útgerðarstað á landinu? Þar fækkar útgerðum. Þær renna saman við aðrar. Þar er minna landað og aflaheimildir eru fluttar í burtu. Þetta eru dæmi sem hægt er að taka upp nánast hvar sem er á landinu. Hagkvæmnisjónarmiðin horfa fram hjá því hverjir eiga kvótann, hvar eigandinn hefur aðsetur á landinu og hvar hann nýtist. Sjónarmiðin sem ráða eru að kvótinn skapi eins mikinn arð og unnt er hverju sinni. Svona er þetta.

Við getum skoðað hvernig þetta hefur þróast í öðrum löndum. Þar hafa orðið alvarleg áföll varðandi almenninga. Almenningur eru jú eitthvað sem á að vera þjóðareign. Víða hafa áföll dunið á almenningum og ég vísa til greinar Gísla Pálssonar og Agnars Helgasonar í Skírni frá 1999, þar sem sýnt er fram á þessa hluti, t.d. tilvitnun í bandaríska mannfræðinginn Bonnie McCay. Hann heldur því fram að mikilvægar auðlindir hafi safnast á fárra hendur og þorri þeirra sem hafi nýtt sér þær auðlindir mann fram af manni sitji uppi eigna- og réttindalaus.

Málið snýst um þetta. Það er þess vegna sem samfylkingarmenn flytja tillögu um breytingu á fiskveiðistjórninni. Við erum sannfærð um að fiskveiðistjórnin, eins og hún er nú rekin, muni leiða til enn meiri hnignunar byggðanna, sérstaklega dreifðra sjávarbyggða. Þess vegna flytjum við þetta frv.

Það má líkja atburðarásinni hér á Íslandi við lénsveldi miðalda þegar rétturinn til beitar og veiða í almenningum lands og sjávar var afnuminn og bændur voru hraktir af löndum sínum, gerðir að leiguliðum aðalsmanna. Þetta er nákvæmlega það sem er að gerast með framkvæmd íslenska fiskveiðistjórnarkerfisins. Hvað eru þeir svo kallaðir sem eru í forsvari fyrir kerfið sem nú er við lýði? Þeir eru kallaðir sægreifar. Þeir eru kallaðir sægreifar vegna þess að þeir sópa að sér aflaheimildum í skjóli aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar.

[15:00]

En það eru ekki sægarparnir, það eru ekki þeir sem stunda sjóinn, sem njóta veiðiheimildanna. Nei, í rauninni er þeim gert að hunskast í land þegar þeirra tími rennur upp, þeir eru reknir í land án þess að hafa heimild til að veiða einn einast fisktitt þó að þeir hafi dregið í land og aflað útgerðinni sem þeir starfa hjá auðæfa. Það er litið fram hjá því að þeir sem vinna við útgerð í landi, svo sem við fiskvinnslu, netagerð, heimilisstörf, bókhald og við útgerðina almennt eigi nokkurn veiðirétt. Íslenskt fiskveiðistjórnarkerfi, eins og það er rekið, lítur svo á að þeim sem hafa unnið við þetta árum saman sem sjómenn og sem landverkamenn komi þetta nánast ekkert við. En þó eru þetta störf sem unnin eru í landi og eru hluti af fiskveiðum, hvort sem það er beitning, landverkakonan sem vaskar fiskinn eða hvað sem er, pakkar fiski í frystihúsi, þetta er allt fólk sem á rétt til auðlindarinnar.

Kvótinn, þ.e. aflinn í sjónum, er ekki sameign þó að samkvæmt lögum eigi hann að vera það. Tæplega 17 ára reynsla er búin að leiða það í ljós að framkvæmd stjórnar fiskveiða með kvótakerfi er stórgölluð leið. Það er hins vegar hægt að bæta úr þessari leið. Hvort það þarf salómonsdóm, eins og nú er orðið í tísku að tala um, salómonsdóm eins og var felldur vegna annarrar auðlindar --- það getur verið að það þurfi að ráða einhverja nefnd til þess að búa til nýjan salómonsdóm.

Við erum með í okkar frv. möguleika til að hverfa frá þeirri framkvæmd sem nú er, og það er réttlæti í að taka það kerfi upp. Það er enginn vafi í mínum huga að staða sjávarbyggðanna mun batna við þær breytingar sem við erum að leggja til með þessu frv., þ.e. ef stjórnvöld móta reglur sem aðlagast hinu nýja kerfi og meðferð leiguheimilda með jafnrétti og réttlæti í huga.

Stöðugt framboð leiguheimilda, eins og við erum að ræða um hér, og lækkun stofnkostnaðar í útgerð mun tryggja stöðu nýliða í greininni. Það er það sem málið snýst um. Og sjávarbyggðirnar, sem ég var að ræða um áðan, munu hafa allt aðra og betri stöðu en þær hafa nú í samkeppni um veiðiréttinn. Um þetta snýst málið og þess vegna segi ég að kannski þurfi salómonsdóm. Það er alveg ljóst að hvernig sem fer eftir komandi kosningar verður hér samsteypustjórn sem þarf á einhvern hátt að ná sátt um breytingar á því kerfi sem nú er við lýði. Og við erum með tillögurnar, við getum sannarlega framkvæmt breytingar sem yrðu til góða fyrir alla þjóðina.

Kannski er ekki hægt að segja að neitt hafi áunnist með núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Okkur er þó alveg ljóst að sú reynsla sem við höfum af þessu kerfi er mjög dýru verði keypt. Mjög fámennur hópur ráðskast með auðlindina án þess að greiða fyrir afnot af henni.

Ég hef velt því fyrir mér hvort það sé rétt að kalla til valinn hóp fræðimanna til þess að mynda salómonsdóm sem má setja lög um. En ég er sannfærður um að það frv. sem við samfylkingarmenn erum með, frv. til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, frá 15. maí 1990, leysir mestan vandann sem við er að eiga í fiskveiðistjórnarkerfinu. Ég tel að allir eigi að eiga aðgang að auðlindinni, það þarf a.m.k. að ná jafnræði um aðgang að henni, og það þarf að ná sátt um það að endurnýjun geti átt sér stað í greininni. Ef ekki, hvað verður þá um að ræða? Við þekkjum reynsluna af öðrum starfsgreinum, það verður úrkynjun ef ekki verður um endurnýjun að ræða.

Ég tel að öll útgerðarmynstur þurfi sambærileg skilyrði. Ég tel að menn verði að virða mannréttindaákvæði í stjórnarskrá varðandi frjálst val á atvinnu. Það er ekki í dag varðandi sjávarútveginn.

Það verður að viðurkenna að það er ekki hægt að einkavæða fiskstofna. Það er það sem menn hafa verið með í huga í dag, að einkavæða fiskstofnana. Það er grundvallaratriði að þeir sem nýta auðlind, hvort sem það er sjávarauðlindin sem við erum að tala um eða aðrar auðlindir sem við eigum, greiði fyrir það eðlilegt gjald sem renni í sjóði til hagsbóta fyrir alla landsmenn og síðan til þess að greiða fyrir stoðgreinar sem eru tengdar viðkomandi auðlind. Þá er ég að tala um stoðgreinar eins og hjá Hafrannsóknastofnun, allt öryggiseftirlit sem þarf að fara fram á hafinu, möguleika á að breyta rekstri þeirra stofnana sem tengjast sjávarútveginum. Ég er að tala um að það megi t.d. breyta rekstri Landhelgisgæslunnar.

Það er kannski rétt að nefna það hér, virðulegi forseti, af því að það gefst til þess tími, að það er náttúrlega ótrúlegt að þessi stóru skip sem við eigum, sem sinna gæslu í landhelginni, skuli láta reka hér dögum saman uppi á grunnslóð af því að það er svo dýrt að halda skipunum úti á djúpslóðinni. Það er verið að skoða og fylgjast með grásleppukörlum og körlum sem leggja kannski 30, 40 króka í sjó. Þessir stóru drekar eru að senda út gúmmítuðrur til þess að fylgjast með því hvort einhver dregur sér í soðið 20, 30 kíló. Þetta er fáránlegt. Þessari gæslu væri hægt að sinna með miklu minni bátum og það ætti að leiða hugann að einkavæðingu í þessu tilviki. Þar er hægt að benda á leiðir sem væru miklu ódýrari en þær sem farnar eru í dag.

Ég sagði áðan að það væri grundvallaratriði að þeir sem nýta auðlind greiði fyrir hana eðlilegt gjald sem renni í sjóði til hagsbóta fyrir almenning. Ég tel að almennar reglur um nýtingu og umgengni við almenninga eða auðlindir þurfi að vera svo einfaldar og skýrar að þær séu óumdeildar. Eins og kerfið er nú rekið geta menn aldrei aftur orðið hinn frjálsi og sjálfstæði sjómaður og trillukarl. Það eru að sjálfsögðu til einfarar á miðunum enn þá en þeir hverfa smátt og smátt undir því kerfi sem nú er rekið. En ég tel að með því að breyta nú til --- það er hægt að gera og kjósendur á Íslandi eiga þess kost í næstu kosningum að koma Samfylkingunni til valda þannig að það frv. sem hér er til umræðu komist í framkvæmd. Það mun verða til heilla fyrir íslenskt samfélag.

Ég vil minna á það að hagur landsbyggðarinnar, sem hefur byggst á þeim hugtökum að það sé frelsi til að sækja sjávarafla, er með núverandi framkvæmd kerfisins fótumtroðinn. Ég tel að fiskveiðistjórnarkerfið sé að eyða byggð. Ágallar framkvæmdar fiskveiðistjórnarkerfisins eru svo alvarlegir, og verst er braskheimildin og útfærsla hennar. Það er vitað að menn sem hafa úthlutun í hendi sér veiða aðeins helming úthlutunarinnar, leigja afganginn og hafa fundið hagræðingu í því að hafa skip sitt bundið við bryggju. Síðan er eitt mikið vandamál, brottkastið, það er sennilega í miklum mæli enn þann dag í dag þó að menn hafi breytt umgengninni á einhvern hátt. Síðan er þessi stóri galli, að stórkvótahafar leigja frá sér kvóta á grimmdarlegan hátt fyrir ótrúlegar upphæðir, semja síðan við eigin sjómenn upp á hlutaskipti sem nema kannski 70--90 kr. á kíló miðað við þorsk, og þeir hafa til þess getu að í stað þess að veiða úthlutaðan afla leigja þeir frá sér heimildir undir skyni hagræðingar og binda jafnvel skipin og segja upp áhöfnum að geðþótta. Það er út af því að veiðiskyldan er ekki nema 50% af úthlutaðri heimild.

Þetta eru hlutir sem ég vil breyta, þetta eru hlutir sem við viljum breyta með því frv. sem samfylkingarmenn tala fyrir hér í dag. Ég tel að það þurfi aðgerðir strax.

Frv. sem við erum með felur ekki endilega í sér auðvelda lausn eða einföld svör. En það felur í sér jafnræði og það er það sem meiri hluti þjóðarinnar getur örugglega sætt sig við, jafnræði að aðgangi og jafnræði til þess að stunda þessa vinnu. Það er það sem frv. felur í sér.