Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 15:13:20 (3723)

2003-02-11 15:13:20# 128. lþ. 76.7 fundur 24. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflaheimilda o.fl.) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[15:13]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það fer ekki hjá því að gömlum Vestfirðingi renni blóðið til skyldunnar í þeirri umræðu sem hér fer fram, og svo sannarlega hefði ég viljað sjá enn þá fleiri koma inn í umræðuna vegna þess að það sem við ræðum hér er stærsta hagsmunamál þjóðarinnar í dag og uppstokkun á kerfi sem hefur verið talið óréttlátasta kerfið og mesta misréttið á síðari tímum.

Sem þingflokksformaður Samfylkingarinnar og verkstjóri þegar starfshópur á vettvangi þingflokksins mótaði þær tillögur sem leitt hafa til þessa frv. verð ég að segja að ég er afskaplega ánægð með þá vinnu sem þá fór fram og hvernig haldið var á málum í þingflokknum. Í gegnum árin hafa komið upp fjölmargar tillögur um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og ég minnist þess ekki að það hafi komið fram tillögur, hvort heldur í stjórnarflokki eða stjórnarandstöðuflokki, að ekki hafi verið um þær deilur í viðkomandi flokki og menn hafi skipst í hópa og ekki náð saman um þá leið sem mikilvægt væri að fara. Þess vegna er ég mjög stolt af því að þetta mál var unnið í þingflokki Samfylkingarinnar af öflugu fólki sem þekkti mjög vel til mála og lagði upp umræðuna í þingflokknum með þeim hætti að þeir sem minna höfðu komið að málinu gátu rætt það fram og til baka og við tekið á því þannig að full sátt var um frv. þegar það var lagt fram. Þess vegna er þetta frv. lagt fram af öllum þingmönnum Samfylkingarinnar og hver einasta manneskja hefur talað fyrir þeirri leið sem hér er lögð til. Við viljum taka á þessu stóra máli og breyta óréttlætinu.

[15:15]

Þetta þýðir auðvitað að Samfylkingin hefur skoðað afskaplega vel þróun mála í sjávarútveginum síðustu áratugi og farið yfir málin. Við erum sannfærð um að sú leið sem kynnt hefur verið í frv. okkar og Jóhann Ársælsson mælti fyrir hér í dag, fyrningarleiðin, skili okkur þangað einhvern daginn í framtíðinni, að réttlætinu hafi verið fullnægt og við höfum sótt eign okkar, eign fjöldans, heim til sín og að farið verði með hana á annan hátt. Tillaga okkar er að við lánum hana, að við lánum heimildina til að veiða í auðlindinni, að við hleypum duglegum og þróttmiklum sjómönnum í auðlindina til að sækja björg í bú og skaffa okkur þau auðævi sem þjóðin á að eiga og deila með sér.

Ég hef nokkrum sinnum lent í því að ræða þessi mál við fólk sem ekki er mjög mikið inni í umræðunni um sjávarútveg og ekki síst hafa margar konur orðað það að þeim finnist þetta mjög mikið óréttlæti og þær tala um öll dæmi sem þær þekkja úr því sem hefur verið að gerast á liðnum árum þegar aflaheimildir hafa verið að færast á milli aðila og miklir fjármunir sömuleiðis, og það sé svo erfitt að átta sig á talsmátanum hjá okkur á þinginu. Þess vegna, virðulegi forseti, ætla ég að leyfa mér --- af því að við erum bæði að tala hvert við annað um hvaða leið eigi að fara í stjórn fiskveiða og við erum jafnframt að tala til þess fólks sem fylgist með þinginu og það eru orðnar allmargar þúsundir --- í stuttri ræðu minni að nefna hvað felist í nokkrum af þeim orðum sem okkur er gjarnt að nota og notuð eru í tillögu okkar sem er um fyrningarleiðina.

Fyrningarleið þýðir að sá sem er handhafi aflaheimilda eða kvóta lætur ákveðinn hluta kvótans af hendi árlega til ríkisins og afskrifar hann. Eftir tiltekinn tíma er ríkið eigandinn af óveidda fiskinum fyrir hönd fólksins í landinu, búið að innkalla til sín allan kvótann sem nú er í eigu einstakra aðila, sjávarútvegsfyrirtækja, eða fyrirtækja sem hafa fjárfest í kvóta. Og þegar við tölum um kvóta, þá erum við að tala um aflaheimild. Aflaheimild og kvóti er það sama. Aflaheimild er úthlutað af stjórnvöldum t.d. í því formi að útgerðarmaður fær úthlutað ákveðnum fjölda tonna af t.d. þorski fyrir eitt ár, eða ákveðinni hlutdeild, ákveðinni prósentu af leyfilegum heildarafla í þorski eða öðrum tegundum, en kvóti er orðinn í allflestum fisktegundum hérlendis nú. Þess vegna erum við að tala um aflaheimild eða kvóta eða hlutdeild en það þýðir einfaldlega partur af því sem heimilt er að veiða á því ári.

Ég vil líka taka fram að ekki er mjög mikill ágreiningur um það, tel ég, að taka þurfi ákvörðun um það á hverjum tíma hvað eigi að veiða mikið, hvað megi veiða mikið magn af ákveðinni tegund miðað við þær rannsóknir sem farið hafa fram og mat sérfræðinga á stöðu fiskstofnana. Ekki er stórkostlegur munur á milli flokka eða fólks á því að slíka ákvörðun þurfi að taka og eitthvert leyfilegt heildarmagn af fiski þurfi að ákveða á hverju ári. En það er þegar við komum að því með hvaða hætti eigi að skipta á milli báta þeim árlega heildarafla sem ákveðinn er, sem átökin hefjast. Um það er ágreiningurinn, hvernig eigi að skipta á milli sín þeim heildarafla sem leyfilegt er að veiða á hverju ári.

Svanfríður Jónasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, fór ágætlega yfir það áðan hvernig aflanum var úthlutað í upphafi þegar verið var að kvótasetja, og skipt á milli þeirra báta sem höfðu veitt í auðlindinni. Gerður var listi yfir alla þá báta. Þeir höfðu veitt tiltekið magn á tilteknum þremur árum á undan og stuðst var við þá reynslu þeirra af veiðum þegar auðlindinni var síðan úthlutað. Og það er sú úthlutun sem er búin að draga dilk á eftir sér og hefur gert það að verkum að óveiddi fiskurinn hefur orðið eins konar eign þeirra sem hafa haft leyfi til að veiða.

Eins og hér hefur komið fram er tillaga Samfylkingarinnar í stórum dráttum sú að á tilteknum árafjölda, í tillögu okkar eru það tíu ár, skili handhafar veiðiheimildanna 1/10 af heimildum sínum, kvótanum, til ríkisins. Ríkið leigir innkomnar heimildir á hverju ári, þær sem koma inn, til fimm ára í senn með því að bjóða þær út á markaði.

Öllum útgerðum sambærilegra fiskiskipa er fenginn jafn réttur og þeir sem eru nýir í greininni eiga möguleika á því að fá kvóta og sækja sjóinn. Þeir sem öðlast kvóta til tiltekins tíma, þessara fimm ára til dæmis, með þessum hætti, greiða fyrir heimild til veiða. Þetta er leigugreiðsla og greiðslunni fyrir heimildina er dreift á það ár sem heimildir eru nýttar.

Flotanum er skipt í þrjá flokka til að gæta hagsmuna landvinnslunnar og strandveiðikvótans. Hver um sig fær tiltekinn hluta af heildaraflahlutdeildinni, kvótanum, þannig að það sé skýrt hvað menn ætli sér að leyfa vertíðarbátunum að veiða og hvað fari til smærri báta og annarra.

Ekki er heimilt að framselja þá hlutdeild sem menn leigja til sín, þetta magn af fiski sem menn hafa gert samning við ríkið um að þeir megi veiða á hverju ári í fimm ár. Útgerðin hefur aflað sér á markaði heimildar til að veiða og ef hún nýtir ekki þá heimild sjálf, skal hún skila henni inn og þá verður henni umsvifalaust ráðstafað upp á nýtt, hún verður boðin öðrum.

Þá ætla ég að leyfa mér að útskýra hvað framsal er. Framsal er þegar einn útgerðarmaður afhendir kvóta öðrum til leigu innan árs eða varanlega, sem þýðir að hann selur kvótann sinn. Þetta er dæmi um það sem við erum alltaf að benda á, að það er einhver sem telur að hann eigi óveidda fiskinn. Og ef hann ætlar ekki að nota hann sjálfur vegna þess að eitthvað hafi komið upp á, báturinn bilað eða hreinlega hann finni það út að það sé miklu betra að vera heima í stofu og hafa það náðugt og leigja kvótann sinn, eða jafnvel bara hætta þessu, þá selur hann kvótann sinn. Það er framsal.

Það er grundvallaratriði að Samfylkingin með tillögu sinni stöðvar braskið með kvótann. Óveiddur fiskur í sjónum verður ekki til ráðstöfunar fyrir þann sem fékk veiðirétt í upphafi eins og nú er. Samfylkingin gerir sér grein fyrir því að ekki fengu allir gefins kvóta. Allmargir sem nú hafa undir höndum aflaheimildir eða kvóta til ráðstöfunar og eru að veiðum, hafa þurft að kaupa hann af öðrum. Þess vegna er svo mikilvægt að finna réttlátan árafjölda til að kalla inn kvótann. Þegar við förum á vinnustaði eða við erum einhvers staðar innan um fólk þar sem við erum að útskýra tillögu Samfylkingarinnar, þá er oft sagt við okkur: Af hverju ætlið þið að nota svona langan tíma, tíu ár, af hverju ekki fimm? Er ekki nóg komið af braskinu? Er ekki nóg komið að þessi eða hinn hafi getað ráðstafað kvótanum til annarra? Takið bara á þessu, þrjú ár. En það er vegna þess að þessi langi tími hefur alið af sér afstyrmi sem er það að sumir hafa fengið allt fyrir ekkert og aðrir hafa þurft að hafa mjög mikið fyrir þeim aflaheimildum sem þeir eru að nýta.

Þess vegna hefur Samfylkingin talið rétt að tíu ár dugi vegna þess að Samfylkingin ætlast líka til þess að sá sem hefur leiðst út í að kaupa rándýran kvóta af þeim sem hafði svokallaðan eignarrétt á honum, hafi gert sér grein fyrir því að ekki sé hægt að treysta því að kvótinn, óveiddi fiskurinn í hafinu, hafi verið látinn af hendi til eilífðar til þeirra sem hafa hann nú undir höndum. Við ætlumst til þess að menn hafi gert sér grein fyrir því að þeir hafi verið að taka ákveðna áhættu með því að kaupa og þeir hafi þegar notið réttarins í nokkurn tíma og þeim er gefinn þessi tími til breytinganna.

Félagar mínir hafa farið yfir muninn á gjaldtöku eins og ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir, veiðigjaldinu og þróunarsjóðsgjaldinu, og auðlindagjaldinu sem við viljum taka upp fyrir leyfi til veiða samkvæmt uppboði aflaheimilda eða hlutdeildar. Ég ætla þess vegna ekki að fara nánar yfir það og tek fram að ræða mín er ekki tæmandi um það sem þessi tillaga stendur fyrir, heldur vil ég fyrst og fremst koma inn í umræðuna með félögum mínum og stikla á því sem mér finnst vera stóru atriðin og helst á þann hátt að þeir sem eru ekki vanir að fjalla um sjávarútvegsmál geri sér grein fyrir hvað við erum að fara með tillögunni okkar.

Ég er Ísfirðingur í húð og hár. Ég fylgdist mjög vel með því þegar Guðbjörgin, flaggskipið glæsilega, og þær höfðu verið margar Guðbjargirnar á undan þeirri Guðbjörgu, lítil skip, vertíðarbátar, alltaf fengsæl skip. En þegar Guðbjörgin hin eina sanna var seld var því lofað að hún yrði gerð áfram út frá Ísafirði á komandi árum. Tveimur árum seinna var hún farin til Þýskalands og hefur ekki komið heim aftur. Á þeim tíma skrifaði ég litla grein og kallaði hana Byggðastofnunina hf. og hélt því fram að ef svo færi sem horfði yrðu það stórfyrirtæki í sjávarútvegi sem mundu ráða því hvaða sjávarpláss lifðu og hvaða sjávarpláss dæju séu þau alfarið bundin við að lifa af hafinu, vegna þess að það væri í þeirra höndum hvar væri lagt upp og hvar væri ekki lagt upp. Ég minnist þess að ég lenti í orðaskaki þá við stjórnarliða sem bentu mér á að það væri hámark á heimildum sem eitt fyrirtæki gæti átt. Það er alveg rétt. Þetta hámark er 12%. Eitt fyrirtæki má ekki eiga meira, sem þýðir auðvitað að hafa ráðstöfunarrétt á meiru, en það telur sig eiga 12% af öllum heimildunum. Það er þakið eins og það er kallað. Af þeim 100% sem fiskurinn í hafinu sem á að veiða á hverju ári er, þá á t.d. Eimskip núna yfir 11%. Það er mjög stutt síðan að framkvæmdastjóri sjávarútvegssviðs Eimskips benti á að þetta væri ekki nógu gott, þakið væri of lágt og að taka þyrfti upp umræðu um hvort ekki ætti að hækka þakið. Það væru fyrirtæki sem þyrftu að eiga meira en 12% og þetta 12% þak væri of lágt.

Við verðum að gera okkur grein fyrir því að að auðlindin okkar í hafinu, óveiddur fiskurinn, er markaðsvara. Óveiddur fiskurinn, heimildin er markaðsvara. Það er þessi heimild til að veiða sem gengur kaupum og sölum. Og þessi auðlind hefur verið að safnast á æ færri hendur. Ég hef það ekki alveg á hreinu hve fáir þeir eru orðnir eftir sem eiga megnið af heimildunum en stórfyrirtækin kaupa upp smærri útgerðir og stórfyrirtækin eða undirfyrirtæki þeirra sameinast.

Sögurnar um þá sem voru svo heppnir að fá úthlutað á sínum tíma og hafa selt réttinn sinn fyrir tugi og hundruð milljóna eru ófáar. Ég ætla ekki að rekja neina þeirra hér en ég þekki margar. Það er skoðun okkar í Samfylkingunni að nóg sé komið. Samfylkingin vill taka á þessu máli. Samfylkingin ætlar að taka á þessu máli þegar hún fær umboð til þess. Hún vill opna aðgang að miðunum fyrir fleiri, gera nýliðun mögulega, en fyrst og fremst ætlar Samfylkingin að afnema mesta óréttlæti og mismunun Íslandssögunnar.