Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 15:31:22 (3724)

2003-02-11 15:31:22# 128. lþ. 76.7 fundur 24. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflaheimilda o.fl.) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[15:31]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Við erum að ræða frv. Samfylkingarinnar um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Í sjálfu sér fagna ég því að Samfylkingin skuli hafa tekið þá afgerandi afstöðu hin síðari ár að þessu kerfi sem við búum við þurfi að breyta, og þurfi að breyta því varanlega til framtíðar, og að það þjóni ekki hagsmunum Íslendinga, hagsmunum þjóðarinnar, hagsmunum fólksins í hinum dreifðu byggðum landsins, að viðhalda kerfinu eins og það er. Um það atriði er ég hv. samfylkingarþingmönnum algerlega sammála.

Í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða segir: ,,Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.``

Ég held að allir sem á annað borð eru ekki búnir að taka einhverja sérstaka trú á að lögin um stjórn fiskveiða séu eitthvað sem aldrei megi breyta og séu komin til að vera um alla eilífð hljóti að viðurkenna að markmið kvótalaganna hafa engan veginn náðst, þ.e. við höfum ekki tryggt trausta atvinnu og byggð í landinu og við höfum ekki verið að byggja upp fiskstofnana.

Sú hugsun sem felst almennt í kvótakerfinu í dag hjá kvótaréttarhöfunum, þ.e. þeim sem horfa á þetta kerfi sem við búum við sem hina einu varanlegu lausn, er sú að þeir eigi fiskinn í sjónum, þeir eigi aflahlutdeildina, eigi hana til framtíðar, og að kerfið sé þannig búið að skammta fyrir fram hverjir eigi að vera í útgerð á Íslandi og hverjir ekki. Þannig mun þessi klúbbur smátt og smátt lokast enn meir en verið hefur með áframhaldandi samþjöppun. Það er í raun og veru það sem hefur verið að gerast hér á landi, hinir stóru hafa orðið stærri í útgerð og öflugri enda gat ekki öðruvísi farið í framseljanlegu kvótakerfi þar sem engin stýring var á því að það skyldi taka tillit til neinna annarra sjónarmiða en þeirra sem útgerðarréttinn fengu afhentan í upphafi.

Ég veit ekki hvort allir muna það, herra forseti, en þegar þessu kerfi var komið á 1984 settu menn það fyrst og fremst á vegna þess að þá var ákveðið að skera verulega niður aflaheimildir samkvæmt tillögu fiskifræðinga. Menn voru í raun og veru að útfæra kerfið þá sem dygði til þess að halda flotanum í drift, tryggja að atvinna héldist uppi í landinu. Það var gert með ýmsum aðferðum sem of langt mál yrði að fara hér yfir, en það var m.a. gert með því að úthluta heimildum á ákveðnum fisktegundum til þeirra sem höfðu orðið fyrir mestri skerðingu í þorskaflanum, en það var jú fyrst og fremst þorskurinn sem var skertur í upphafi vega. Síðan hefur þetta kerfi þróast í það að verða verslunar- og sölukerfi þeirra sem í kerfinu eru, og nú líta útgerðarmenn svo á að þetta sé einkaréttarkerfi þeirra sem þeir eigi að geta veðsett, selt og gert við nánast hvað sem er.

Þegar sú hugsun er komin inn í kerfið, herra forseti, er algerlega orðið skilið á milli þess sem þarf að vera í atvinnugrein eins og sjávarútveginum, sérstaklega í landi eins og Íslandi þar sem sjávarútvegurinn skiptir geysilega miklu máli. Þá er algerlega skilið á milli þess að hagsmunir fólksins og hagsmunir útgerðarmannsins fari lengur saman. Og það gerist þannig að sjósóknarrétturinn er ekki endilega lengur tekjutæki útgerðarmannsins. Hann getur náð sér í tekjur með því að leigja frá sér heimildirnar innan ársins, leigja á svokölluðu aflamarki, eða hann getur jafnvel ákveðið að hætta útgerðinni og selja frá sér veiðiréttinn, aflahlutdeildina. Í hvoru tveggja tilvikinu, svo framarlega sem aflinn fer út úr verstöðinni eða plássinu, hefur algerlega skilið á milli hagsmuna fólksins í landinu og hagsmuna útgerðarmannsins.

Útgerðarmaðurinn hefur sem sagt fjárhagslega hagsmuni af því að ná til sín fjármununum fyrir heimildirnar en fólkið hefur enga hagsmuni af því. Það beinlínis tapar, tapar miklum fjármunum. Það tapar atvinnu sinni oft og tíðum og eignirnar í plássinu snarfalla í verði. Með þessum breytingum sem í upphafi eru teknar, sérstaklega eftir árið 1990 þegar kvótaframsalið var gefið algerlega frjálst, hefur alveg skilið á milli hagsmuna útgerðarmannanna og hagsmuna fólksins í landinu að þessu leyti.

Við eigum sem betur fer einstaka útgerðarmenn enn þá sem eru með aflahlutdeildir og starfa í þessu kerfi, útgerðarmenn sem sjá að þarna skilur á milli hagsmuna fólks og útgerðarmanna og telja að það sé eðlileg og sjálfsögð skylda þeirra sem aflaheimildirnar hafa að veiða heimildir sínar. Það eigi að vera hlutverk útgerðanna að fá að gera út á heimildirnar sínar og menn eigi að hafa vissu fyrir því að geta gert út í hvaða stjórnkerfi sem er en eigi ekki að hafa leigu- og söluréttinn. Ég verð að segja, herra forseti, að þeim útgerðarmönnum er ég algerlega sammála. Og Frjálslyndi flokkurinn er tilbúinn til þess að standa að þeirri breytingu eins fljótt og verða má að taka í burtu leigu- og sölurétt útgerðarmanna, skera algerlega á þann þátt. Ég held að það þurfi að gera eins hratt og mögulegt er, tel þess vegna að tíu ára aðlögunartími í þessu frv. Samfylkingarinnar sé of langur og mundi vilja fara þetta hraðar.

Ég hef oft verið spurður að því á fundum úti um land og víðar hvort ég teldi ekki að við værum að setja útgerðina á kaldan klaka ef við tækjum af útgerðarmönnum leigu- og söluréttinn einn, tveir og þrír. Ég hef svarað þessu einfaldlega: Ef útgerðin getur áfram fengið að gera út og veiða heimildir sínar, fær aðgang að þeim, hvort sem er í aflamarks-, kvóta- eða sóknarkerfi, á hún að geta haft sömu tekjur ef það hefur verið markmið útgerðarmannanna að gera út. Og ég tel að það eigi að vera í löggjöfinni, að það sé markmið útgerðarmanna. Mér finnst að þeir útgerðarmenn sem ekki vilja gera út á heimildir sínar hafi ekkert með þær að gera og eigi að skila þeim inn. Ég vil sem sagt að leigu- og sölurétturinn verði afnuminn en þeim sem áfram vilja starfa verði boðinn aðlögunartími áður en fyrningarreglunum er beitt til þess að fá að veiða þær heimildir sem þeir hafa tímabundið.

Í þessu frv. Samfylkingarinnar er lagt til að gerðir verði þrír útgerðarflokkar. Við í Frjálslynda flokknum höfum lagt til að þeir yrðu fjórir. Það er auðvitað útfærsluatriði. Það er hins vegar annað atriði sem við í Frjálslynda flokknum höfum lagt til, og það er að smábátaflotinn og strandveiðiflotinn yrðu færðir yfir í sóknarkerfi. Fyrir því eru margar ástæður og þær felast sérstaklega í því að meðan menn eru með leigu- og sölukerfi heldur hvatinn til brottkasts áfram og jafnframt hvatinn til þess að velja úr þeim stærðum eða tegundum fisks sem menn fá í veiðarfærin. Það er mikill galli á útfærslu kvótakerfis þegar hún leiðir til slíks.

Þó að opnað sé fyrir það að menn geti landað afla fram hjá eða utan kerfisins til þess að koma í veg fyrir þetta er hætt við að samt sem áður sé sá hvati til staðar, og alveg sérstaklega verður sá hvati áfram til staðar, herra forseti, ef menn ætla að vera með leiguna inni. Það er einn af þeim ágöllum sem mér finnst vera í þessari útfærslu, að við erum að ræða útfærslu þar sem leigan varir í tíu ár. Þeir sem leigja til sín heimildir í fimm ár geta líka leigt 50% frá sér eins og er í núgildandi reglu.

Í þessum atriðum sem ég hef hér lýst kristallast kannski hluti af þeim ágreiningi sem er á milli Frjálslynda flokksins og Samfylkingarinnar í þessu máli. Báðir flokkarnir hafa hins vegar nákvæmlega sömu markmiðin. Og auðvitað er það svo að ef menn þyrftu að ná saman um útfærslur mundi ég ekki telja það flókinn farveg. En það þyrfti auðvitað að skoðast.

Hvers vegna segi ég þetta? Ég segi þetta, herra forseti, vegna þess að ég tel að það eigi að vera raunhæfur möguleiki að fella þessa ríkisstjórn. Og ég held að aðalmarkmið næstu alþingiskosninga sé að fella þessa ríkisstjórn og ná fram fleti á því að þeir flokkar fái stjórnartaumana sem hafa lýst því yfir að þeir vildu snúa frá þessu fiskveiðistjórnarkerfi sem er eitthvert mesta mein sem hefur verið komið á og sem vegur að hagsmunum fólks í þessu landi. Það er afar óréttlátt hvernig þessir hlutir hafa þróast og ég lít svo á að breyting á sjávarútvegsstefnunni og kvótakerfinu sé eitthvert mesta byggðamál sem uppi er í þessu landi nú um stundir. Það skiptir sköpum fyrir framtíðina að þessu kerfi verði breytt ef menn á annað borð ætla sér að tryggja það að fólkið í landinu njóti þess réttlætis að geta búið í hinum dreifðu sjávarbyggðum og geti fengið að viðhalda atvinnurétti sínum, eignastöðu og framtíð, að það sé ekki bara einkaréttur útgerðarmanna að fá að gera það heldur verði veiðiréttinum breytt með þeim hætti að hagsmunir fólksins í byggðunum og hagsmunir útgerðarmanna fari saman. Það gera þeir ekki í dag vegna hins sérstaka ákvæðis útgerðarmanna að mega selja frá sér aflaréttinn, mega selja bæði aflahlutdeildina og leigja frá sér veiðiréttinn.

Og það er ömurlegt, herra forseti, að ferðast hér um landið eins og ég hef verið að gera undanfarið, á ýmsa staði þar sem maður sér að þeir sem aflaréttinn hafa í dag nýta hann ekki, eru hreinlega að leigja hann frá sér. Það eru aðeins örfáir menn kannski í sumum minni sjávarþorpunum sem raunverulega nýta útgerðarréttinn sinn og skapa mikil verðmæti og mikla atvinnu fyrir það fólk sem fær vinnu hjá þeim við það bæði að veiða fiskinn og verka hann.

Ég get vel sagt frá því, herra forseti, að einn útgerðarmaður á litlum stað austur á Bakkafirði skaffar fimm mönnum störf þar sem meðallaunin eru 3,8 millj. fyrir að gera út á rúmlega 100 tonn af fiski. Ég tel að akkúrat þannig hugsun sé virðingarverð og að slíkir menn sem gera út á heimildirnar sínar skaðist í engu, herra forseti, þó að leigu- og sölurétturinn sé tekinn í burtu einn, tveir og þrír. Það er bara svoleiðis. Þeir sem raunverulega eru að nýta heimildirnar sínar til veiða skaðast í engu þó að leigu- og sölurétturinn sé tekinn í burtu ef þeir vita að reglurnar eru þannig að þeir geti haldið áfram að gera út.

[15:45]

Síðan er það spurningin um aðlögunartímann, hvernig menn ætla að kalla þennan rétt inn til þess að nálgast það að greiða þjóðinni eðlilegt afgjald fyrir að nýta veiðiréttinn.

Ég tel að þetta eigi að gera í fjórum flokkum og fara brattast í það að snúa við veiðikerfi smábátanna, gera það bara einn, tveir og þrír, fækka fisktegundum í kvótakerfinu eins fljótt og verða má og einfalda kerfið og stíga þá fyrstu skrefin með smábátaflotann og síðan með strandveiðiflotann og leyfa ýsutogurunum og autolínurunum að vera í einum flokki, þeir bíða þá einhverra lagfæringa, og síðan er frystitogaraflotinn og nótaflotinn í einum flokki.

Þannig horfi ég á málið og er þar af leiðandi ekki alveg sammála því sem Samfylkingin leggur upp með að gera þetta á tíu árum þar sem áframhald er á leigunni. Ég er að lýsa því, herra forseti, að ég er ósammála þeirri framsetningu, en tel að öðru leyti að stefnumörkun Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins að því leyti að komst út úr þessu kerfi sé skýr, þótt menn horfi á þetta með mismunandi útfærslu og mismunandi leiðum.

Ekki verður að mínu viti hægt að stöðva útflæði fjármagns út úr þessari grein nema menn taki á því að afnema leigu- og söluréttinn á óveiddum fiski. Meðan það er ekki gert verður alltaf útflæði fjármagns eins og verið hefur út úr greininni og áframhaldandi jafnvel skuldasöfnun inn í sjávarútveginn. Því það er ekki eins og þeir peningar sem þarf til að kaupa sig inn í kerfið detti af himnum ofan. Þeir eru yfirleitt teknir að láni um skamman tíma meðan menn eru að komast inn í fyrirtækin og síðan eru þeir settir með einhverjum hætti inn í fyrirtækin sem skuld. Því einhvers staðar eru þeir teknir að láni, herra forseti.

Í gegnum árin hafa íslenskir útgerðarmenn sýnt okkur fram á það með hegðun sinni í kerfinu að í því eru miklir fjármunir. Þegar menn treysta sér til þess að leigja eitt kíló af þorski á 150--160 kr. kílóið og eru þá í raun og veru leiguliðar þeirra sem aflaheimildirnar hafa, þá er auðvitað verið að sýna mönnum fram á það að miklir peningar eru í kerfinu.

Þess vegna er það alveg klárlega rétt hugsun þegar menn líta til framtíðar að eitthvert afgjald verði tekið fyrir að nýta þessar heimildir. Ég lít hins vegar svo á að þegar menn fara uppboðsleið verði menn að gera það stýrt. Menn verða að tryggja að ákveðin útgerðarmunstur haldi velli, a.m.k. meðan aðlögunin á sér stað, því okkur Íslendingum er enginn greiði gerður, ekki neinum, þó okkur hafi fundist að útgerðarmenn hafi misnotað þennan rétt margir hverjir á undanförnum árum, þá er okkur enginn greiði gerður með því að valda hér kollsteypu meðan við erum að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu.

Það er ekki stefna Frjálslynda flokksins og ég get heldur ekki séð að það sé stefna Samfylkingarinnar í þeirri tillögu sem hér er, heldur er beinlínis verið að horfa til þess hvernig þessir hlutir geti gerst án þess að valda endalausri kollsteypu.

Ég tel hins vegar að við eigum að gera þetta mjög hratt, sérstaklega að því er varðar strandveiðiflotann og að fara eigi mjög hratt í það að auðvelda mönnum að komast að í þeim greinum og komast þar í mögulegt útgerðarmunstur. En eins og kerfið er í dag er nánast orðið vonlaust fyrir menn að kaupa sig jafnvel inn í smábátakerfið, þar sem menn þurfa að koma með 100 milljónir með sér í vasanum til að komast inn í það sem núna er kallað krókaaflahlutdeildarkerfi og tók við af þorskaflahámarkinu sem áður var með þeirri kvótasetningu sem stjórnarliðar beittu sér fyrir. Þrátt fyrir margar yfirlýsingar um að sumir stjórnarliðar mundu aldrei styðja ríkisstjórn sem mundi festa kvótakerfið í sessi hafa menn nú samt farið þá ógæfuleið.

Herra forseti. Sú stefnumótun sem við erum að ræða getur vissulega gengið upp. Mér finnst hún ná yfir of langan tíma og vil fara í þetta öðruvísi. En ég fagna því að stjórnarandstaðan skuli vera með tillögur um hvernig á að fara út úr þessu bjagaða kerfi, kerfi óréttlætis, sem við höfum komið á á undanförnum árum, kerfi sem hefur vegið að byggðunum og tekið atvinnuréttinn og eignarréttinn frá fólki, en alið undir og aukið eignarrétt þeirra stóru í sjávarútvegi.